Monthly Archives

April 2018

Ný heimasíða

By Fréttir

Við bjóðum íbúa Snæfellsbæjar velkomna á nýja vefsíðu sveitarfélagsins. Það er von okkar að nýja vefsíðan stuðli að auknu upplýsingaflæði og gegnsærri stjórnsýslu. 

Lagt var upp með að einfalda aðgengi að upplýsingum og gera vefsíðuna notendavænni. Þá er hún bjartari yfirlitum og snjöll með eindæmum, þ.e. hún skynjar í hvaða tæki er verið að skoða vefinn og aðlagast í samræmi við skjástærð.

Þess má geta að vefsíður eru stöðugt í þróun og enn standa nokkur verk óunnin á nýju vefsíðu okkar. Það er óumflýjanlegt að einhverjar villur komi upp við stórar uppfærslur sem þessar og því biðjum við íbúa og aðra lesendur að sýna því skilning fyrst um sinn ef eitthvað kunni að koma skringilega fyrir sjónir.

Ábendingar um hvað betur má fara eru afar vel þegnar og hægt er að senda tölvupóst þess efnis á Heimi Berg, markaðs- og upplýsingafulltrúa Snæfellsbæjar, með því að smella hér.

Glaðlega myndin sem fylgir hér að ofan fannst í safni Snæfellsbæjar, en nafn stúlkunnar og ljósmyndara er þó á huldu. Myndin var sennilega tekin fyrir þremur til fjórum árum á tyllidegi hér í bæ. Er einhver sem þekkir fyrirsætuna?

Komið hefur í ljós að stúlkan á myndinni heitir María Ýr Þráinsdóttir og ljósmyndari er Alfons Finnsson.

 

Nýr vefur um átthagafræði

By Fréttir

Síðastliðin átta ár hefur átthagafræði verið fastur liður í skólastarfi Grunnskóla Snæfellsbæjar í öllum árgöngum. Síðastliðinn föstudag var opnuð ný heimasíða um átthagafræðina þar sem hægt er að kynna sér námskrá hennar auk fleiri þátta. Við hvetjum íbúa Snæfellsbæjar að líta við á þessum stórglæsilega vef og kynna sér eftirtektavert starf grunnskólans þegar kemur að átthagafræðum.

Slóðin á síðuna er: http://www.atthagar.is

Lesa má grein eftir Svanborgu Tryggvadóttur á vefnum Skólaþræðir með því að smella hér.

Ársreikningur 2017

By Fréttir

Ársreikningur Snæfellsbæjar og stofnana hans var tekinn fyrir í fyrri umræðu í bæjarstjórn Snæfellsbæjar í gær, miðvikudaginn 11. apríl 2018.

Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, sem eru: Félagsheimilið Klifi, Félagsheimilið Röst, Veitustofnanir Snæfellsbæjar, Hafnarsjóður Snæfellsbæjar, Húsnæðisnefnd Snæfellsbæjar, Leiguíbúðir með hlutareign og Dvalarheimilið Jaðar.

Við yfirferð á ársreikningi kom fram að rekstur Snæfellsbæjar hafi gengið vel á árinu og var rekstrarniðurstaðan töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða um 262,9 millj. króna í samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta.

Athygli vekur að útsvar er nánast það sama milli áranna 2016 og 2017. Árið 2016 var útsvarið 909,1 millj. króna en árið 2017 var útsvarið 909,4 millj. króna. Ástæðu þessarar jákvæðu rekstrarniðurstöðu er að rekja til mun hærri framlaga til Snæfellsbæjar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 392,6 millj. króna sem var í takt við áætlun Jöfnunarsjóðs í byrjun árs 2017, en niðurstaðan varð hins vegar framlög upp á 522,1 millj. króna.

Segja má að rekstur Snæfellsbæjar hafi verið nánast á pari við fjárhagsáætlun og athygli vekur að allar stofnanir Snæfellsbæjar skila rekstri á eða undir áætlun, sem er mjög ánægjulegt og forstöðumönnum til sóma.

Helstu lykiltölur ársreiknings eru taldar hér:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 2.314,2 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.108,4 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 1.876 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.670 millj. króna.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 262,9 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 31,4 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 294,3 millj. króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 137,1 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 47,4 millj. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 184,5 millj. króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.311 millj. króna skv. efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 2.550 millj. króna.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 1.153,4 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 136 stöðugildum í árslok.

Veltufé frá rekstri var 237 millj. króna og veltufjárhlutfall er 0,93. Handbært frá rekstri var 245 millj. króna.

Heildareignir bæjarsjóðs námu um 3.870 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 5.072 millj. króna í árslok 2017. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.320 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.761 millj. króna, og hækkuðu þar með milli ára um 112 milljónir.

Eigið fé bæjarsjóðs nam um 2.549,8 millj. króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 3.311 millj. króna í árslok 2017. Eiginfjárhlutfall er 65,89 % á á árinu 2017 en var 65,92% árið áður.

Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 535 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og tók ný lán á árinu 2017 upp á 220 milljónir. Greidd voru niður lán að fjárhæð 143,9 milljónir.

Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 62,95% hjá sjóðum A-hluta, en var 61,64% árið 2016, og 69,49% í samanteknum ársreikningi en var 64,48% árið 2017. Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð.

Hamingjan er hér

By Fréttir

Það er ánægjulegt að segja frá því að samkvæmt rannsókn sem Landlæknisembættið gerði á árunum 2016 – 2017 kom fram að íbúar Snæfellsbæjar séu hamingjusamastir allra íbúa í sveitarfélögum hér á landi. Snæfellsbær trónir á toppi rannsóknarinnar með 8,2 stig, en þess má geta að meðalhamingja Íslendinga reiknast sem 7,5 stig.

Meðfylgjandi mynd er tekin úr Skessuhorni, þar sem hamingjan í Snæfellsbæ varð Bjarna Þór, listmálara, hugleikin í Skessuskopi þá vikuna. Hægt er að smella á myndina til að sjá hana í heild sinni.

Sjá innslag í fréttatíma Stöðvar 2 um hamingju í Snæfellsbæ

Fjárveiting til uppbyggingar

By Fréttir

Á verkefnaáætlun Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem gefin var út sem stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum í lok mars, var áætlað framlag til nokkurra verkefna um allt land.
Það er ánægjulegt að segja frá því að töluverðir fjármunir komu í verkefni í Snæfellsbæ.

Af 158,7 milljónum sem fengust í verkefni á Vesturlandi, komu 121,8 milljónir í Snæfellsbæ. Umhverfisstofnun fékk samtals 79,8 milljónir til uppbyggingar og viðhalds annars vegar í friðlandinu á Arnarstapa/Hellnum og hins vegar á Djúpalónssandi. Einnig fengust 40 milljónir í lokafrágang á Malarrifi og 2 milljónir í göngustígaverkefni á Öndverðarnesi.