Monthly Archives

May 2018

Ljósleiðaraframkvæmdir

By Fréttir

Nú standa yfir framkvæmdir við lagningu ljósleiðara í Fróðárhreppi.  Að þeim framkvæmdum loknum mun verða farið aftur suður fyrir heiði á Arnarstapa þar sem lokið verður við þær tengingar sem eftir standa.  Það er ánægjulegt að alltaf er að bætast við beiðnir um tengingar og verður orðið við öllum þeim beiðnum sem berast.

 

Sjómannadagshelgin 2018

By Fréttir
Sjómannadagurinn í Snæfellsbæ á sér merkilega sögu og er einn af stóru menningarviðburðunum í bænum ár hvert. Áhafnirnar á  á Magnúsi SH, Matthíasi SH, Agli SH og Álfi SH sáu um skipulagningu sjómannadagshelgarinnar í ár, og er hún sem hér segir:

 

Föstudagur 1. júní

 

19:00 Skemmtisigling frá Ólafsvík

 • Ólafur Bjarnason SH, Guðmundur Jensson SH og Sveinbjörn Jakobsson SH

20:00 Sjómannagarðurinn Ólafsvík:

 • Grillveisla í boði Sjómannadagsráðana í Snæfellsbæ og Ó.K. söluskála.
 • Ungir tónlistarmenn koma fram, kirkjukór, trúbadorar fram eftir kvöldi og fl.
 • Hoppukastalar á svæðinu í boði Fmí og Fms.

Laugardagur 2. júní

 

11:00 Dorgveiðikeppni á Norðurgarði í Ólafsvík í umsjá Sjósnæ.
11:00 Kvennahlaup ÍSÍ. Hefst í Sjómannagarðinum.
13.00 Við höfnina í Ólafsvík:

 • Sirkús Íslands: sýning í boði N1 og Menningarnefndar Snæfellsbæjar.
 • Kappróður, flekahlaup, þrautakeppni, trukkadráttur og fleira.
 • Fiskisúpa í boði Magnúsar SH, Matthíasar SH, Egils SH, Álfs SH og Þín verslun Kassinn.
 • Hoppukastalar á svæðinu í boði Fmí og Fms.

20:00 Félagsheimilið Klif

 • Sjómannahóf í Klifi – húsið opnar kl. 19:15.

Sunnudagur 3. júní – Ólafsvík

 

08:00 Fánar dregnir að húni.
13:00 Í Sjómannagarðinum í Ólafsvík:

 • Ræðumaður
 • Sjómenn heiðraðir
 • Tónlistaratriði
 • Sjómannamessa í Sjómannagarðinum
 • ath. dagskrá verður færð inn í kirkju ef veður er vont.

14:00 – 16:30 Sjómannkaffi

 • Slysavarnardeild Helgu Bárðar og Sumargjafar býður í kaffi í björgunarmiðstöðinni Von. Snæfellsbæjardeild Rauða Kross Íslands afhendir Björgunarsveitinni Lífsbjörg neyðarhjálparkerru til varðveislu.

15:30 Leikhópurinn Lotta

 • Í Tröð á Hellissandi í boði HH og KG.

Sunnudagur 3. júní – Hellissandur og Rif

 

11:00 Sjómannamessa að Ingjaldshóli.
13:00 Hátíðardagskrá í sjómannagarði Hellissands:

 • Hátíðarræða.
 • Heiðraður aldraður sjómaður.
 • Sjómannakór, söngatriði Alda Dís.
 • ath. dagskrá verður færð inn í Röst ef veður er vont.

13:00 Sjóminjasafnið

 • Opnunarsýning á ljósmyndum: Gamlar versöðvar á nesinu eftir Karl Jeppesen.

14:00 – 16:30 Sjómannkaffi

 • Slysavarnardeild Helgu Bárðar og Sumargjafar býður í kaffi í björgunarmiðstöðinni Von. Snæfellsbæjardeild Rauða Kross Íslands afhendir Björgunarsveitinni Lífsbjörg neyðarhjálparkerru til varðveislu.

15:30 Leikhópurinn Lotta

 • Í Tröð á Hellissandi í boði HH og KG.

 

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ 2018

By Fréttir

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður í Ólafsvík 2. júní n.k. og hlaupið verður frá Sjómannagarðinum kl. 11:00.  Í boði eru tvær vegalengdir, 2,5 km. og 5 km.

Ekki þarf að skrá sig í hlaupið en forsala fer fram í sundlauginni. Þátttökugjald fyrir 12 ára og yngri er 1.000 kr. og fyrir 13 ára og eldri er gjaldið 2.000 kr.

Kvennahlaupsbolur og buff fylgja þátttökugjaldi og einnig verður frítt í sund að hlaupi loknu. Að auki verður ávaxtaveisla í boði eftir hlaup og glæsilegir happdrættisvinningar dregnir út.

 

Nýtt húsnæði Smiðjunnar

By Fréttir

Smiðjan opnaði síðastliðinn fimmtudag í nýjum húsakynnum við Ólafsbraut 19 í Ólafsvík. Þar verður rekin dagþjónustu- og endurhæfingarstöð FSS fyrir fatlaða og aðra með skerta starfsgetu. Byggðasamlagið, sem rekur félags- og skólaþjónusta Snæfellinga, festi kaup á húsnæðinu fyrir nokkrum mánuðum og hefur staðið að endurbótum.

Snæfellsbær óskar FSS til hamingju með nýja húsnæðið og vonar að það verði gæfuríkt spor fyrir það góða starf sem unnið er í Smiðjunni að vera komin í varanlegt húsnæði.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Svein Þór Elínbergsson, forstöðumann FSS, við opnunarhátíðina. Mynd var fengin af vefsíðu Skessuhorns þar sem má einnig lesa um nýtt húsnæði Smiðjunnar.

 

Sjóstangveiðimót í Ólafsvík

By Fréttir

Í gær hófst alþjóðlegt stangveiðimót í Snæfellsbæ á vegum Íslandsdeildar samtaka evrópskra sjóstangveiðimanna (EFSA) og stendur það til 1. júní næstkomandi.

Mótið er það fjölmennasta sem haldið hefur verið hér á landi, skráðir þátttakendur eru um 140 talsins og koma frá 14 löndum. Siglt verður út frá Rifi og Ólafsvík á um 35 bátum og veitt í fjóra daga.

Undirbúningsnefnd mótsins lagði sig fram um að versla mest af því sem til fellur vegna mótsins hér í bæ og þá eru nánast öll gistipláss í bænum uppbókuð vegna mótsins. Það er því ljóst að fjölmenni erlendra gesta mun setja svip sinn á bæjarlífið næstu daga.

 

Hraðhleðslustöð í Snæfellsbæ

By Fréttir

Fyrsta hraðhleðslustöð Orku náttúrunnar á Snæfellsnesi var tekin í notkun í Snæfellsbæ í gær. Það var enginn annar en Þröstur Kristófersson frá Sandi sem renndi nýja tengitvinnbíl sínum í hlað og fékk fyrstu hleðsluna.

Hlaðan stendur við þjónustustöð Orkunnar í Ólafsvík og er eins og áður segir fyrsta hlaða ON á Snæfellsnesi. Á næstu dögum opnar önnur hleðslustöð við Ólafsbraut, fyrir utan Sker restaurant.

Á meðfylgjandi mynd eru Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður einstaklingsmarkaða ON, og Doddi í ÓK.

Lesa má nánar um málið á vef ON.

 

Go West nýr þátttakandi í Vakanum

By Fréttir

Go West / Út og vestur, ferðaþjónustufyrirtæki með aðsetur að Arnarstapa, er nú þátttakandi í Vakanum og hefur einnig uppfyllt gullviðmið umhverfiskerfis Vakans fyrir vistvæna ferðaþjónustu. Það eru hjónin Þuríður Maggý Magnúsdóttir og Jón Jóel Einarsson sem reka Út og vestur ehf. og eru þau að halda upp á tíu ára afmæli fyrirtækisins þetta árið. Þau hafa frá upphafi lagt mikla áherslu á líkamlega hreyfingu og umhverfismál í sinni þjónustu.

Að sögn Jóns Jóels hefur það verið mjög lærdómsríkt ferli að innleiða gæðakerfi Vakans, þ.e. að skrifa niður og skerpa á hugmyndum og framkvæmd vistvænnar ferðaþjónustu: „Stór þáttur í því er að lýsa hvernig við njótum og göngum um náttúru landsins, gulleggið okkar sem við verðum að passa vel upp á. Okkar uppáhaldsstaður er Breiðafjarðarsvæðið, Dalir og Snæfellsnes en við förum einnig um Skaftafell og Öræfasveit, Fjallabak, Hornstrandir og ýmsar perlur í nágrenni Reykjavíkur.

Okkur er það sannarlega kappsmál að ferðaþjónum á Vesturlandi meðal þátttakenda Vakans. Því fleiri, því betra. Það mun styrkja okkur og landshlutann í heild“.

Snæfellsbær óskar Maggý og Jón Jóel til hamingju með flott starf.

Nánar má lesa um Vakann hér.

 

Störf við grunnskólann

By Laus störf

Grunnskóli Snæfellsbæjar er heilsueflandi grunnskóli sem hlotið hefur umhverfisvottunina Grænfánann. Í skólanum eru um 250 nemendur og óskar samheldinn og öflugur hópur starfsmanna eftir vinnufélögum.

Eftirtalin störf eru laus til umsóknar við Grunnskóla Snæfellsbæjar:

 • Aðstoðarmaður matráðs í 75% starfi í Ólafsvík
 • Skólaliði í 50% starfi á Hellissandi

Starfsvið aðstoðarmanns matráðs

 • Aðstoð við matargerð
 • Leysa matráð af í veikindum og fríum
 • Frágangur og þrif
 • Önnur tilfallandi verkefni

Starfsvið skólaliða

 • Annast frímínútnagæslu, aðstoða- og undirbýr matar- og neyslutíma
 • Annast ræstingar, frágang og þrif
 • Önnur tilfallandi verkefni

Menntunar- og hæfnikröfur

 • Menntun sem nýtist í starfi
 • Ríkir samstarfs- og samskiptahæfileikar
 • Frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð
 • Góð kunnátta í íslensku er skilyrði

Borgað er samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga.

Umsóknarfrestur er til 7. júní 2018.
Hægt er að nálgast umsókn hér.

Upplýsingar veitir Hilmar Már Arason, skólastjóri, í síma 894 9903 og umsóknir skal senda til skólastjóra í tölvupósti (hilmara@gsnb.is).

 

Framlagning kjörskrár

By Fréttir

Kjörskráin liggur frammi til sýnis í fundarsal Ráðhúss Snæfellsbæjar frá og með miðvikudeginum 16. maí 2018 til og með föstudeginum 25. maí 2018 á venjulegum opnunartíma.

Kjörskráin miðast við skráð heimilisfang hjá Þjóðskrá 5. maí 2018.

Einnig er bent á vefinn http://www.kosning.is þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um hvar og hvort einstaklingar eru á kjörskrá.

Athugasemdir við kjörskrá.

Athugasemdir við kjörskrá skulu berast bæjarstjórn Snæfellsbæjar hið fyrsta.  Rétt er að taka fram að Á kjörskrá skal taka þá íbúa sveitarfélags sem uppfylla öll kosningarréttarskilyrði á viðmiðunardegi kjörskrár. Sjá nánar um kosningarrétt hér. Sveitarstjórn ber að gæta þess að taka ekki aðra einstaklinga á kjörskrá en ótvírætt eiga kosningarrétt samkvæmt ákvæðum laga. Rétt er að ítreka að ávallt skal miða við skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Hafi einstaklingur til dæmis flutt milli sveitarfélaga án þess að flytja lögheimili sitt fyrir viðmiðunardag kjörskrár er óheimilt að taka hann á kjörskrá í því sveitarfélagi sem hann flutti til.

Bæjarstjórinn í Snæfellsbæ