Monthly Archives

June 2018

Umhverfisvottun 2018

By Fréttir

Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi hlutu nýverið umhverfisvottun EarthCheck á starfsemi sína í níunda sinn, og halda því áfram að vera leiðandi samfélag í úrbótum umhverfis- og samfélagsmála. Að fá alþjóðlega umhverfisvottun er staðfesting á því að sveitarfélögin fimm leitist við að hafa græn gildi að leiðarljósi í allri sinni starfsemi og miði ákvarðanatöku við að reyna að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af henni. Íbúar og stofnanir sveitarfélaganna eiga heiðurinn sérstaklega skilið þar sem árangurinn er þeirra.

Ferlið er umfangsmikið og felst helsta áskorunin í því að innleiða sjálfbærnistefnu sveitarfélaganna í alla starfsemi, hafa eftirlit með auðlindanotkun og vinna að úrbótum þar sem við getum gert betur. Óháður sérfræðingur metur árlega hvort gögn og starfsemi sveitarfélaganna uppfylli skilyrði endurnýjaðrar vottunar en kröfurnar sem uppfylla þarf aukast með ári hverju. Því er mikilvægt að halda góðu verki áfram og vinna stöðugt að úrbótum í átt til sjálfbærari starfsemi sveitarfélaganna fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Við hvetjum íbúa til að kynna sér umhverfisvottun Snæfellsness með því að smella hér og hafa samband við verkefnastjóra, Guðrún Magneu, ef það vakna hugmyndir eða athugasemdir varðandi umhverfis- og samfélagsmál, sem snerta aðkomu sveitarfélaganna að ferðaþjónustu eða óska eftir frekari upplýsingum.

 

Opnun listasýningar í Malarrifsvita

By Fréttir

Listasýning Jónínu Guðnadóttur, Ó, dýra líf, opnar í Malarrifsvita föstudaginn 29. júní n.k. og eru allir velkomnir. Sýningin verður opin daglega frá kl. 12:00 til 16:30 út sumarið. Karlakórinn Heiðbjört ætlar að syngja í tilefni opnunarinnar og þá verða pönnukökur og kaffi á boðstólnum. Allir velkomnir.

Athugið að hægt er að skoða boðskortið í stærri útgáfu með því að smella á myndina hér að ofan.

 

Skemmtiferðaskip væntanlegt

By Fréttir

Skemmtiferðaskipið MS Bremen hefur boðað komu sína til Ólafsvíkur n.k. laugardag, 23. júní. Áætlað er að skipið komi um sjöleytið að morgni og haldi sína leið um hálf tvö.

MS Bremen er skemmtiferðaskip sem skráð er á Bahamaeyjum, 112 metrar að lengd og 17 metrar að breidd. Um borð eru tæplega 300 einstaklingar, áhöfn og farþegar. Sumir farþeganna áforma að sækja í skipulagðar ferðir um Snæfellsnes á meðan aðrir koma til með að dvelja um borð eða rölta um Ólafsvík og nágrenni. Vakti það til að mynda mikla lukku hjá skipverjum síðasta skemmtiferðaskips að ganga upp að Bæjarfossi og líta við í Pakkhúsinu.

Snæfellsbær hvetur íbúa að taka vel á móti þessum gestum og beinir því til þeirra kaupmanna sem vilja taka daginn snemma að koma upplýsingum um það til starfsmanna í upplýsingamiðstöðinni / Átthagastofu. 

 

Ný bæjarstjórn Snæfellsbæjar

By Fréttir

Fimmtudaginn 14. júní s.l. tók ný bæjarstjórn formlega við hér í Snæfellsbæ og hélt sinn fyrsta fund.  Tveir nýir bæjarfulltrúar tóku sæti við það tækifæri, þau Auður Kjartansdóttir og Michael Gluszuk, en þau taka við af reynsluboltunum Kristjönu Hermannsdóttur og Kristjáni Þórðarsyni.  Kristjana sat í bæjarstjórn í 12 ár og Kristján sat í 4 kjörtímabil, eða 16 ár.

Á fundinum þann 14. júní var Björn H Hilmarsson kjörinn forseti bæjarstjórnar og Júníana Björg Óttarsdóttir kjörinn formaður bæjarráðs til eins árs.

Bæjarfulltrúum hefur nú verið úthlutað snb.is netföngum sem á að gera bæjarbúum og öðrum auðveldara um vik að hafa samband við þau.

Bæjarfulltrúar 2018-2022, og þeirra netföng, eru þessi:

Björn Haraldur Hilmarsson – bjornh@snb.is

Júníana Björg Óttarsdóttir – juniana@snb.is

Auður Kjartansdóttir – audur@snb.is

Rögnvaldur Ólafsson – roggi@snb.is

Svandís Jóna Sigurðardóttir – svandis@snb.is

Michael Gluszuk – mikki@snb.is

Fríða Sveinsdóttir – frida@snb.is

 

Hátíðarhöld 17. júní færð inn

By Fréttir

Þar sem veðurspá morgundagsins er ekki upp á marga fiska verður hátíðardagskrá 17. júní færð inn í íþróttahús. Landsbankahlaup og HM-keppni verða á sínum stað. Allir geta farið á hestbak í reiðhöllinni á milli 15:30 – 17:00 og þar verður boðið upp á kaffi og svala. Froðuveislunni verður frestað um óákveðinn tíma.

Gleðilega hátíð.

 

Sundlaugin lokuð 17. júní

By Fréttir

Vakin er athygli á því að sundlaugin í Ólafsvík verður lokuð þann 17. júní.

Opnunartími í sumar er að öðrum kosti sem hér segir:

  • Virkir dagar, opið frá 7:30 – 21:00
  • Um helgar, opið frá 10:00 – 17:00

 

Skemmtiferðaskip við Ólafsvíkurhöfn

By Fréttir

Skemmtiferðaskipið Hanseatic liggur nú fyrir utan Ólafsvík. Er þetta fyrsta skemmtiferðaskipið sem hefur viðkomu í Ólafsvík í fjöldamörg ár.

Hanseatic er fimm stjörnu skemmtiferðaskip sem skráð er á Bahamaeyjum, 123 metrar að lengd og 18 metrar að breidd. Um borð eru 154 farþegar og 121 í áhöfn. Flestir farþeganna eru frá Þýskalandi og fóru þeir í göngutúr um bæinn eða skipulagðar ferðir um Snæfellsnesið.  Þess má geta að Pakkhúsið opnaði fyrr í dag af þessu tilefni og tók á móti gestunum þegar þeir komu í land.

Skipið heldur sína leið um tvöleytið  í dag, en áætlað er að næsta skemmtiferðaskip komi til Ólafsvíkur þann 23. júní næstkomandi.

 

Visit West Iceland á Snapchat

By Fréttir

Markaðsstofa Vesturlands er komin á Snapchat og mun láta „snappið“ ganga á milli samstarfsaðila sinna í sumar. Fyrirkomulagið verður með þeim hætti að hver aðili fær þrjá daga í senn til að kynna sig og þjónustu sína.

Tilgangurinn með þessu framtaki er að kynna Vesturland og þann fjölbreytileika sem landshlutinn býr yfir, hvort tveggja fyrir heimamönnum og gestum, og standa vonir til þess að framtakið eigi eftir að vekja mikla lukku og auka sýnileika ferðaþjónustuaðila á svæðinu.

„Snappið“ hjá Markaðsstofu Vesturlands er westiceland og fór af stað í gær. Það var Arnheiður Hjörleifsdóttir á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði sem reið á vaðið og veitti áhorfendum skemmtilega innsýn inn í starf þeirra í og við Hvalfjörðinn.

Þess má geta að fimmtudaginn 14. júní tekur Kári Viðars við boltanum og verður með hann í þrjá daga. Þá eru hvort tveggja Snæfellsbær og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull skráð til leiks á næstu vikum sem og fjölmörg önnur áhugaverð fyrirtæki hér á Vesturlandi.

Endilega bætið westiceland á vinalistann hjá ykkur og fylgist með.

 

Laust starf við heimaþjónustu

By Laus störf

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga auglýsir eftir starfsmanni í félagslega heimaþjónustu í Snæfellsbæ.

  • Um er að ræða þjónustu við heimili í Snæfellsbæ
  • Laun skv. kjarasamningi sveitarfélaganna og SDS
  • Starfsmaður þarf að geta hafið störf í júlí 2018

Umsóknir er tilgreina menntun og fyrri störf ásamt sakavottorði og upplýsingum um umsagnaraðila berist skrifstofu FSS, Klettsbúð 4, 360 Snæfellsbæ eða á netfangið ester@fssf.is

Umsóknarfrestur er til 25. júní 2018.

Upplýsingar veitir starfsfólk Félags- og skólaþjónustunnar á skrifstofutíma, í síma 430 7800.