Monthly Archives

September 2018

Ljósleiðari í Fróðárhrepp/innan Ólafsvíkur

By Fréttir

Nú á allt að vera orðið tilbúið fyrir íbúa og fyrirtæki í Fróðárhreppi (innan Ólafsvíkur) til að tengjast ljósleiðaranum. Meðfylgjandi eru leiðbeingar um hver næstu skref eru:

  1. Notandi pantar þjónustu frá þjónustuveitanda.
  2. Þjónustuveita pantar ljósleiðarasamband frá rekstraraðila ljósleiðarakerfisins.
  3. Ljósleiðaratengingin er afgreidd og þjónustuveitanda er tilkynnt um það.
  4. Starfsmaður eða annar fulltrúi þjónustuveitanda heimsækir notandann og setur upp nauðsynlegan endabúnað í húsakynnum notandans. Í sumum tilfellum getur þjónustuveitandi sent notanda búnaðinn, notandinn tengir hann þá sjálfur eða fær aðstoð fagmanna.
  5. Þjónustan er tilbúin.

Almennt gildir að ljósleiðarakerfi sem hafa fengið ríkisstyrk skulu vera opin öllum þjónustuveitendum og fulls jafnræðis skal gætt. Samkeppni milli þjónustuveitenda er ætlað að tryggja að notendur njóti alltaf hagstæðustu kjara.

Laust starf félagsráðgjafa hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga

By Fréttir, Laus störf

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga auglýsir stöðu félagsráðgjafa lausa til umsóknar. Um er að ræða 100% starf. Staðan er laus frá og með 1. nóvember 2018 eða eftir samkomulagi.

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga (FSS) annast félags- og skólaþjónustu sveitarfélaganna á Snæfellsnesi, Snæfellsbæjar, Stykkishólmsbæjar, Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Eyja-og Miklaholtshrepps.

Í sveitarfélögunum búa tæplega 3.900 íbúar.

Hjá FSS starfa auk forstöðumanns, skólasálfræðingur, tveir félagsráðgjafar, tveir þroskaþjálfar, náms- og starfsráðgjafi, talmeinafræðingur auk starfsfólks dagþjónustu- og hæfingarstöðva og stoðþjónustu sveitarfélaganna.

Umsækjandi skal hafa starfsréttindi félagsráðgjafa.

Verkefni félagsráðgjafa taka til almennrar félags- og skólaþjónustu, barnaverndar og stoðþjónustu sveitarfélaga.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félagsráðgjafafélag Íslands.

Skrifleg umsókn tilgreini  menntun, starfsferil, 1-2  umsagnaraðila ásamt prófskírteinum,  starfsleyfi og sakavottorði berist Sveini Þór Elinbergssyni, forstöðumanni sem jafnframt veitir frekari upplýsingar um starfið í  síma 430-7800, 861-7802 og  tölvupósti sveinn@fssf.is

 Umsóknarfrestur er til 12. október

Námskeið um tölvu- og skjánotkun barna

By Fréttir

Þann 2. október næstkomandi er fyrirhugað að bjóða upp á námskeið í Grunnskóla Snæfellsbæjar um tölvu- og skjánotkun barna. Námskeiðið er hugsað fyrir foreldra og aðra sem koma að málefnum ungmenna og vilja fræðast um einkenni óheilbrigðrar tölvu- og skjánotkunar og læra aðferðir til að sporna gegn henni.

Kennarar námskeiðisins eru þær Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, félagsfræðingur og ráðgjafi hjá Mikils virði, og Lovísa María Emilsdóttir, félagsráðgjafi, MA og ráðgjafi hjá Mikils virði.

Við vekjum athygli á því að fáist næg þátttaka á námskeiðið verður það foreldrum að kostnaðarlausu hér í Snæfellsbæ. Almennt verð á námskeiðið er 9900 krónur.

Þeir sem hyggjast mæta/taka þátt eru vinsamlega beðnir um að skrá sig á meðfylgjandi skjal fyrir föstudaginn 20. september. Skráning á námskeið.

Nánar má lesa um námskeiðið á heimasíðu Mikils virði. Smella hér.

Viðvera atvinnuráðgjafa SSV í Snæfellsbæ

By Fréttir

Atvinnuráðgjafi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi verður með skipulagða viðtalstíma í ráðhúsi Snæfellsbæjar fjórða miðvikudag í hverjum mánuði í allan vetur utan desembermánaðar.

Atvinnuráðgjafi SSV í Snæfellsbæ er Margrét Björk Björnsdóttir og verða viðtalstímar sem hér segir:

26. september 2018 kl. 13:00 – 15:00.

24. október 2018 kl. 13:00 – 15:00.

28. nóvember 2018 kl. 13:00 – 15:00.

23. janúar 2019 kl. 13:00 – 15:00.

27. febrúar 2019 kl. 13:00 – 15:00.

27. mars 2019 kl. 13:00 – 15:00.

24. apríl 2019 kl. 13:00 – 15:00.

22. maí 2019 kl. 13:00 – 15:00.

 

Alheimshreinsun 15. september

By Fréttir

Þann 15. september verður haldinn í fyrsta skipti Alheimshreinsunardagurinn sem leggur áherslu á að allir íbúar þessarar jarðar nýti daginn til þess að hreinsa sitt umhverfi. Landvernd, Blái herinn, Plastlaus september, JCI Ísland og plokkarahreyfingin sjá um undirbúning alheimshreinsunar á Íslandi, en þennan dag munu tugmilljónir sjálfboðaliða í 150 löndum taka höndum saman og hreinsa umhverfi sitt um allan heim í nafni átaksins Let´s Do It! World.

Snæfellsbær vill hvetja alla bæjarbúa, unga sem aldna, fyrirtæki, stofnanir og hópa til að taka þátt í hreinsun og leggja sitt að mörkum í mikilvægu og verðugu verkefni með því að minnka rusl og draga úr notkun einnota plastumbúða. Enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað.

Hópar, einstaklingar og fyrirtæki eru hvött til að og skipuleggja eigin hreinsun og skrá hana hana á vefsíðu Hreinsum Ísland, þar sem einnig má finna nánari upplýsingar um verkefnið.

Opið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Vesturlands

By Fréttir

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi auglýsa eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð Vesturlands. Veittir verða styrkir til atvinnuþróunar og nýsköpunar. Á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi er að finna upplýsingar um umsóknarferli, reglur og viðmið varðandi styrkveitingar. Nánari upplýsingar í síma 433-2310 eða senda fyrirspurn á netfangið: uppbyggingarsjodur@ssv.is

Frestur til að skila inn umsóknum rennur út á miðnætti 2. október 2018.

Heimgreiðslur til foreldra

By Fréttir

Snæfellsbær vill minna foreldra ungbarna á að frá árinu 2016 hefur verið hægt að sækja um heimgreiðslur til sveitarfélagsins. Með þeim greiðir Snæfellsbær tiltekna upphæð beint til foreldra barna eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn fær innritun á leikskóla Snæfellsbæjar, oftast við tólf mánaða aldur.

Til að sækja um heimgreiðslur þarf að fylla út meðfylgjandi umsóknir og skila þeim í afgreiðslu Ráðhúss Snæfellsbæjar.

Viðhengi:

Umsókn um vistun í leikskóla Snæfellsbæjar
Umsókn um heimgreiðslur
Reglur um heimgreiðslur

Réttir í Snæfellsbæ haustið 2018

By Fréttir

Skv. upplýsingum frá landbúnaðar- og fjallskilanefnd Snæfellsbæjar verður réttað í Snæfellsbæ eins og fram kemur hér að neðan:

Réttað verður laugardaginn 15. september 2018: 
1) Ólafsvíkurrétt í Ólafsvík, Snæfellsbæ 
2) Þæfusteinsrétt á Hellissandi/Rifi, Snæfellsbæ 
3) Hellnarétt í Breiðuvík, Snæfellsbæ

Réttað verður laugardaginn 22. september 2018: 
5) Ölkeldurétt í Staðarsveit, Snæfellsbæ 
6) Bláfeldarrétt í Staðarsveit, Snæfellsbæ 
7) Grafarrétt í Breiðuvík, Snæfellsbæ

Fjallskilaboð hafa þegar verið send út.