Monthly Archives

October 2018

Kvennafrídagur 24. okt

By Fréttir

Snæfellsbær styður konur í að taka sér frí frá störfum frá kl. 14:55 á morgun, miðvikudaginn 24. október, mæta á samstöðufund og taka þátt í samstöðu um kröfuna um kjarajafnrétti. Snæfellsbær mun ekki skerða laun hjá þeim konum sem taka sér frí frá vinnu vegna þessa.

Forstöðumenn stofnana eru beðnir um að haga skipulagi starfsins þennan dag á þann hátt að konum sem starfa hjá sveitarfélaginu verði gert kleift að taka þátt í þessum táknræna viðburði.

Þess má geta að Kvenfélag Ólafsvíkur hefur skipulagt hitting í tilefni dagsins. Sjá nánar með því að smella hér.

Fiskiréttakeppni á Northern Wave kvikmyndahátíðinni

By Fréttir

Kannt þú að elda frábæran fiskirétt eða fiskisúpu?

Fiskiréttakeppnin er einn vinsælasti og best sótti viðburður Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar Northern Wave sem haldin verður í Frystiklefanum helgina 26.-28. október næstkomandi.

Fiskiréttakeppnin fer þannig fram að hver keppandi mætir með sinn rétt í Frystiklefann og býður gestum hátíðarinnar að bragða á réttinum. Það eru svo gestir hátíðarinnar sem skera úr um hvaða fiskiréttur þykir bestur.

Keppnin fer fram á laugardagskvöldinu og er opin bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Þátttakendur geta óskað eftir fiskmeti frá skipuleggjendum hátíðarinnar.

Allir þátttakendur í keppninni fá tvö armbönd á hátíðina og flösku af Himbrimi, íslensku gæðagini. Sigurvegari keppninnar fær verðlaunagrip frá Lavaland, gjafabréf á einn af veitingastöðum Hrefnu Sætran og ferð í Buublees á Íslandi.

Skráning á heimasíðu hátíðarinnar

Meðfylgjandi mynd var fengin á Facebook-síðu Frystiklefans og sýnir þátttakendur í fiskiréttakeppninni í fyrra.

Kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram um helgina

By Fréttir

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram í ellefta sinn helgina 26. – 28. október næstkomandi í Frystiklefanum.

Á hátíðinni í ár verða sýndar 60 alþjóðlegar stuttmyndir, hvort tveggja rjómi nýrra íslenskra stuttmynda og það besta sem gerist erlendis í stuttmyndagerð. Á dagskrá er fjöldi verðlaunamynda og mynda sem hlotið hafa mikið lof á virtum hátíðum á borð við Cannes, Sundance og Tribeca Film Festival.

Á ári hverju tilnefnir hátíðin, í samstarfi við Albumm.is, íslensk tónlistarmyndbönd til verðlauna. Í ár var mikil gróska í tónlistarmyndbandagerð og eru 20 tónlistarmyndbönd tilnefnd, þar af 11 sem leikstýrð voru af konum. Tónlistarmönnum myndbandanna hefur verið boðið að spila fyrir gesti hátíðarinnar og nú þegar hafa KiraKira, MIMRA og Hafdís Bjarnadóttir tilkynnt að þær ætli að fylga sínum tónlistarmyndböndum eftir með tónleikum.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er stundum kölluð “the first lady of Sci fi”, en það er engin önnur en Gale Anne Hurd, framleiðandi í Hollywood​ og eigandi Valhalla Entertainment. Gale var m.a. meðhöfundur og framleiðandi hinnar goðsagnakenndu Terminator, auk þess sem hún hefur komið að framleiðslu á kvikmyndunum Aliens, Hulk og Armageddon og sjónvarpsþáttunum The Walking Dead. Leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, sem situr í dómnefnd hátíðarinnar ásamt Ottó Geir Borg handritshöfundi og Nanna Frank Rasmussen frá Jyllands Posten í Danmörku, mun stýra spjalli við Gale um feril hennar.

Hátíðin skipuleggur að auki, í samstarfi við Wift og bandaríska sendiráðið, sérstaka sýningu á heimildarmyndinni Mankiller frá 2017 sem Gale framleiddi og fjallar um baráttu fyrsta Cherokee-kvenhöfðingjans í Bandaríkjunum, Wilma Mankiller, fyrir auknum réttindum indjána. Myndin verður sýnd samtímis í Frystiklefanum á Rifi og í Bíó Paradís, sunnudaginn 28. október klukkan 20.00.

Umfjöllun Mannlífs um hátíðina í ár

Meðfylgjandi mynd var fengin af Facebook-síðu Frystiklefans. Á henni má sjá Eddu Björgvins ræða við gesti hátíðarinnar í fyrra.

Umsóknir um styrki

By Fréttir

Hafin er vinna við gerð fjárhagsáætlunargerðar Snæfellsbæjar fyrir árið 2019. Því er auglýst eftir umsóknum um styrkveitingu. Þeir aðilar sem hyggjast sækja um styrki er varða næsta fjárhagsár eru hvattir til að skila umsóknum skriflega í Ráðhús Snæfellsbæjar fyrir 31. október 2018.

Félagasamtök sem fengu styrkveitingu á árinu 2018 þurfa að senda inn ársreikning með áframhaldandi styrkbeiðni.

Athugið að engir styrkir fást greiddir nema um þá sé sótt og bæjarstjórn samþykki þá.

Akstursstyrkir til íbúa í dreifbýli

By Fréttir

Íbúar í dreifbýli Snæfellsbæjar geta sótt árlega um sérstakan akstursstyrk til að koma til móts við kostnað vegna aksturs barna til Ólafsvíkur í íþrótta- og tómstundaiðkun. Árlegur akstursstyrkur er 30.000 krónur og skulu umsóknir berast til bæjarritara í tölvupósti.

Í umsókn þarf að koma fram nafn foreldris/forráðamanns, nafn barns/barna, kennitala og númer bankareiknings þar sem leggja á styrkinn inn. Einnig þarf að fylgja staðfesting frá þjálfara um að barnið sé skráð í íþróttir norðan heiðar.

Nánari upplýsingar gefur bæjarritari. Hægt að hafa samband með því að senda tölvupóst eða hringja í síma 433-6900.

Opinn fundur með sjávarútvegsráðherra

By Fréttir

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun á næstu tveimur vikum halda tíu opna fundi hringinn í kringum til að ræða nýtt frumvarp til laga um veiðigjald og stöðu sjávarútvegsins almennt.

Fimmtudaginn 11. október n.k. er röðin komin að Snæfellsbæ og hefur verið boðað til fundar með íbúum og öðrum áhugasömum í Röstinni á Hellissandi kl. 19:30. Áætlað er að fundur standi í um 90 mínútur.

Viðburður á Facebook

Tröppustígur á Saxhól hlaut alþjóðleg verðlaun í Barcelona

By Fréttir

Teiknistofan Landslag hlaut nýverið virt alþjóðleg verðlaun í landslagsarkitektúr fyrir hönnun tröppustígs á Saxhól í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Verðlaunin, Rosa Barba Landscape Prize, eru ein virtustu verðlaun sem veitt eru í landslagsarkitektúr og er um að ræða mestu viðurkenningu sem íslenskir landslagsarkitektar hafa hlotið.

Það er afar ánægjulegt að sjá verkefni sem unnið er innan sveitarfélagsins hljóta svona glæsilega viðurkenningu og setja um leið gott fordæmi fyrir framkvæmdir við ferðamannastaði á landsvísu.

Það var teiknistofan Landslag sem vann verkið fyrir Umhverfisstofnun og Kvistfell annaðist framkvæmd.

Nánar má lesa um málið á vefsíðu RÚV

 

Blóðbankabíllinn á Snæfellsnesi

By Fréttir

Blóðbankabíllinn verður á Snæfellsnesi á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku.

  • Þriðjudaginn 9. október við Kjörbúðina í Grundarfirði frá kl. 12:00 – 17:00.
  • Miðvikudaginn 10. október við Íþróttamiðstöðina í Stykkishólmi frá kl. 8:30 – 12:00.
  • Miðvikudaginn 10. október við Söluskálann Ó.K. frá kl. 14:30 – 18:00.

Munum að blóðgjöf ef lífgjöf!

Uppbyggingarsjóður Vesturlands – framlengdur umsóknarfrestur

By Fréttir

Frestur til að sækja um styrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands hefur verið framlengdur til miðnættis þann 9. október 2018.

Á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi er að finna upplýsingar um umsóknarferli, reglur og viðmið varðandi styrkveitingar. 

Nánari upplýsingar fást í síma 433-2310 eða með því að senda fyrirspurn á netfangið: uppbyggingarsjodur@ssv.is