Monthly Archives

January 2019

Ólafsvíkurvaka 28. – 29. júní

By Fréttir, Mannlíf

Leiðrétting: Ólafsvíkurvaka verður 6. – 7. júlí 2019, ekki í lok júní eins og áður kom fram.

Ólafsvíkurvaka verður haldin dagana 28. – 29. júní nk. og verður þetta í sjötta sinn sem hátíðin fer fram. Ólafsvíkurvakan er fyrst og fremst hugsuð sem fjölskylduskemmtun fyrir núverandi og brottflutta íbúa sem vilja koma saman til að hafa gaman í góðra vina hópi. Snæfellsjökulshlaupið verður einnig þessa helgi og því von á fjölmenni í bænum.

Undirbúningsnefnd hátíðarinnar í ár hefur hafið störf og verða birtar fréttir af dagskrá þegar nær dregur. 

Laus staða skólaliða við Grunnskóla Snæfellsbæjar

By Grunnskóli

Grunnskóli Snæfellsbæjar auglýsir eftir skólaliða í 90% starf á starfstöðina í Ólafsvík. Vinnutíminn er frá kl 7:45 – 15:00.

Starfsvið skólaliða

 • Annast frímínútnagæslu, aðstoðar, undirbýr og gengur frá eftir matar- og neyslutíma.
 • Annast ræstingar, frágang og þrif.
 • Ýmis önnur verkefni sem til falla hverju sinni.

Menntun, reynsla og hæfni:

 • Menntun og reynsla sem nýtist í starfi.
 • Ríkir samstarfs- og samskiptahæfileikar.
 • Frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð.
 • Góð kunnátta í íslensku er skilyrði.

Borgað er samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélags. Karlar jafnt sem konur eru hvattir til að sækja um starfið.

Umsóknarfrestur er til 8. febrúar, umsóknareyðublað má finna með því að smella hér.

Upplýsingar veitir Hilmar Már Arason, skólastjóri, í síma 894 9903 og umsóknir skal senda til skólastjóra hilmara@gsnb.is.

Óskað er eftir umsóknum vegna söluvagna fyrir sumarið 2019

By Fréttir, Tæknideild

Snæfellsbær óskar eftir umsóknum vegna söluvagna í sveitarfélaginu fyrir sumarið 2019. Umsækjandi um stöðuleyfi söluvagna getur nálgast eyðublað á meðfylgjandi hlekk hér að neðan.

Umsækjendur eru beðnir um að kynna sér samþykkt um götu- og torgsölu sem samþykkt var í umhverfis- og skipulagsnefnd þann 22. febrúar 2018. Samþykktina má nálgast á meðfylgjandi hlekk hér að neðan.

Umsóknum skal skilað til Tæknideildar Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, 360 Hellissandi eða á póstfangið: byggingarfulltrui@snb.is fyrir 25. febrúar n.k.

Tæknideild Snæfellsbæjar

Sólarpönnukökur bakaðar

By Fréttir, Mannlíf

Löng hefð hefur myndast fyrir því undir lok janúarmánaðar að Kvenfélag Ólafsvíkur baki sólarpönnukökur í tilefni þess að sólin nái fyrir Ennið og skíni á bæjarbúa eftir um tveggja mánaða fjarveru. Um er að ræða eina helstu fjáröflun kvenfélagsins, en það hefur í gegnum tíðina styrkt mörg félagasamtök og málefni.

Fyrirtæki og stofnanir í bænum eru dugleg að bjóða starfsmönnum sínum upp á pönnukökur í tilefni dagsins og ærið verkefni sem bíður kvenfélagsins ár hvert. Rúmlega tuttugu vaskar konur tóku daginn því snemma og voru mættar í Félagsheimilið Klif um fimmleytið í morgun til að hræra í og baka 2070 sólarpönnukökur með öllu tilheyrandi fyrir bæjarbúa – og fóru létt með það.

Allar pönnur voru rjúkandi heitar og góður ilmur í loftinu þegar óskað var eftir hópmyndatöku og ekki stóð á svari. Vandræðalaust brostu þær fyrir ljósmyndara og sumar hverjar án þess að sleppa pönnuskaftinu, enda tíminn naumur og ekki máttu nú pönnukökurnar brenna við.

Vignir Snær er íþróttamaður HSH 2018

By Fréttir, Mannlíf

Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) veitti á föstudaginn viðurkenningar til íþróttamanna HSH vegna ársins 2018. Íþróttamenn voru heiðraðir fyrir góðan árangur á liðnu ári auk þess sem veitt var viðurkenning fyrir vinnuþjark ársins.

Það var að lokum Vignir Snær Stefánsson, knattspyrnumaður úr röðum Víkings Ólafsvíkur, sem var kjörinn Íþróttamaður HSH 2018. Þá má einnig nefna að Rögnvaldur Ólafsson úr Golfklúbbnum Jökli var kylfingur ársins 2018.

Eftirtaldir hlutu viðurkenningar:

 • Blakmaður HSH 2018 – Lydía Rós Unnsteinsdóttir, Umf. Grundarfjarðar
 • Hestaíþróttamaður HSH 2018 – Siguroddur Pétursson, Hestamannafélagið Snæfellingur
 • Knattspyrnumaður HSH 2018 – Vignir Snær Stefánsson, Umf. Víkingur 
 • Kylfingur HSH 2018 – Rögnvaldur Ólafsson, Golfklúbburinn Jökull
 • Körfuknattleiksmaður HSH 2018 – Berglind Gunnarsdóttir, Umf. Snæfell
 • Skotíþróttamaður HSH 2018 – Jón Pétur Pétursson, Skotfélag Snæfellsness
 • Vinnuþjarkur HSH 2018 – Skotgrund Skotfélag Snæfellsness

Myndir tók Sumarliði Ásgeirsson. Fleiri myndir má sjá á vefsíðu HSH.

Íbúum Snæfellsbæjar fjölgaði árið 2018

By Fréttir, Mannlíf

Ólafsvík séð til norðvesturs.

Íbúum Snæfellsbæjar fjölgaði um 2,6% eða 43 manns á síðasta ári skv. talningu Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt sömu gögnum voru íbúar 1680 talsins undir lok síðasta árs og Snæfellsbær þriðja fjölmennasta sveitarfélagið á Vesturlandi.

Hlutfallsleg fjölgun íbúa á Vesturlandi árið 2018 var að meðaltali 2,0% sé litið til allra sveitarfélaganna í landshlutanum. Á Vesturlandi var mesta fjölgun íbúa á Akranesi þar sem fjölgaði um 196 manns eða 2,7%. Hlutfallsleg fjölgun var þó mest í Helgafellssveit þar sem fjölgaði um fjóra eða 6,8%.

Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar 2019

By Fréttir, Stjórnsýsla

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, skrifaði um fjárhagsáætlun ársins í nýjasta tölublaði af Jökli og er greinin einnig birt hér. Hér er hægt að lesa ný sem gömul eintök af Jökli.

Í lok síðasta árs samþykkti bæjarstjórn Snæfellsbæjar fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 og mun ég hér fara yfir helstu þætti hennar og jafnframt segja frá stærstu fjárfestingum á árinu.

Fjórða árið í röð eru gjaldskrár leikskóla og grunnskóla ekki hækkaðar. Á nokkrum gjaldskrám varð smávægileg hækkun. Útsvarsprósenta í Snæfellsbæ verður óbreytt og sama er að segja um álagningarprósentu fasteignagjalda.

Styrkir til félagasamtaka hækka

Í fjárhagsáætlun leggur bæjarstjórn á það áherslu að haldið verið áfram þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni hlúð eins og kostur er. Styrkir til félagasamtaka hækka mikið á árinu 2019 eða um 42,5% á milli ára. Styrkir á árinu 2019 verða kr. 59.635.000.-  Að venju eru hæstu styrkirnir til íþrótta- og ungmennastarfs. Stærstu styrkirnir eru eins og áður segir til íþróttamála en þeir verða kr. 39,8 milljónir á árinu. Til sjómannagarðanna fara kr. 6,7 milljónir. Til Frystiklefans fara kr. 4 milljónir. Til björgunarsveitanna fara kr. 2,35 milljónir. Til skógræktarfélaganna fara kr. 1,3 milljónir.

Það má jafnframt geta þess að á árinu 2019 verða í fyrsta skipti teknir upp frístundastyrkir í Snæfellsbæ. Markmiðið með þessu, ásamt því að hækka ekki gjaldskrár skóla, leikskóla og sundlaugar, er að gera búsetu í Snæfellsbæ auðveldari fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur.

Framkvæmdir ársins

Gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum á árinu 2019, en gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði 419,3 milljónir króna, þar af 174,5 milljónir hjá bæjarsjóði Snæfellsbæjar og 244,8 milljónir hjá hafnarsjóði. Stærstu fjárfestingar bæjarsjóðs á árinu eru gatna- og gangstéttaframkvæmdir, en gert er ráð fyrir 85 millj. þar.

Þær helstu eru malbiksframkvæmdir fyrir kr. 40 milljónir, gatnagerð í Sandholti fyrir kr. 30 milljónir og gangstéttaframkvæmdir fyrir kr. 15 milljónir. Einnig verða keyptir tveir ærslabelgir og er kostnaður við þá framkvæmd áætluð 5,5 milljónir króna.

Í Grunnskóla Snæfellsbæjar verður farið í að laga þak grunnskólans á Hellissandi og er það kostnaður upp á 5,5 milljónir króna einnig verður farið í lagfæringu á salernum nemenda í Ólafsvík og er kostnaður við það kr. 5 milljónir. Farið verður í að klæða tvær hliðar á bókasafni / tónlistarskólanum í Ólafsvík og gert er ráð fyrir að kostnaður við það verði kr. 4,5 milljónir. Farið verður í umhverfisframkvæmdir á Hellissandi og gert er ráð fyrir kr. 7 milljónum í þær framkvæmdir. Settar eru kr. 5 milljónir í hönnun á hreinsikerfum útrása (holræsum) í þéttbýli Snæfellsbæjar.

Stærstu fjárfestingar hafnarsjóðs á árinu verða lenging Norðurgarðs í Ólafsvík en kostnaður við þá framkvæmd er áætlaður kr. 114,7 milljónir. Gert ráð fyrir um 54 milljónum í dýpkun á Arnarstapa. Farið verður í lagfæringu á hafnarhúsinu í Ólafsvík ásamt stækkun en kostnaður við þá framkvæmd er áætlaður kr. 32 milljónir. Farið verður í malbiksframkvæmdir á hafnarsvæðunum og gert er ráð fyrir að það muni kosta 31,9 milljónir. Farið verður í framkvæmdir við plan við uppsátur í Rifi og er kostnaður við það 2,7 milljónir. Auk þess verður farið í ýmsar aðrar framkvæmdir hjá hafnarsjóði og aðrar smærri framkvæmdir hjá Snæfellsbæ, en meginmarkmið ársins verður að styrkja innviði stofnana Snæfellsbæjar.

Góð fjárhagsstaða

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð, ekki er gert ráð fyrir hækkun skulda á árinu 2019, sem er gott. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar fari ekki yfir 70% í A-hluta en skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir 150% þannig að Snæfellsbær er þar vel innan marka. Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn og verða miklar framkvæmdir á hans vegum árið 2019, eins og áður kemur fram, eða tæpar 245 m.kr. Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.

Rekstur Snæfellsbæjar hefur verið með ágætum undanfarin ár og er það ekki síst að þakka góðu samstarfi við starfsfólk og forstöðumenn Snæfellsbæjar. Áframhaldandi árangur byggir á því sama og Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hlakkar til áframhaldandi samstarfs.

Velferðarstefna Vesturlands

By Fréttir

Velferðarstefna Vesturlands liggur nú til umsagnar hjá sveitarfélögum á Vesturlandi og hjá öðrum hagsmunaaðilum með umsagnarfresti til 15. febrúar næstkomandi. Velferðarstefnan var kynnt á fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar þann 10. janúar síðastliðinn og verður afgreidd á fundi bæjarráðs eða bæjarstjórnar undir lok janúarmánaðar.

Íbúar og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér stefnuna og skila áliti sínu fyrir mánaðarmót með því að senda tölvupóst á snb@snb.is.

Frístundastyrkur / Dotacja do hobby

By Fréttir

Rada miejska Snæfellsbær zatwierdziła na ostatnim posiedzeniu zeszłego roku wprowadzenie dotacji do hobby od 2019 r. Dotacja wynosi 20 000 kr. rocznie. Jest ona przeznaczona na obniżenie kosztów związanych z udziałem w zorganizowanych zajęciach sportowych i innych hobby dla dzieci oraz młodzieży w wieku od 5 do 18 lat.

Celem dotacji do hobby jest zachęcenie dzieci i młodzieży do udziału w zorganizowanej działalności rekreacyjnej w Snæfellsbær i umożliwienie im tego, niezależnie od warunków ekonomicznych i społecznych.

Nie jest tu mowa o bezpośrednich wypłatach dla opiekunów, lecz mają oni prawo do dysponowania określoną kwotą na obniżenie poniesionych kosztów za dane zajęcia.

Realizacja zwrotu dotacji na hobby jest wciąż w toku. Rodzice proszeni są o uiszczenie opłaty za dane zajęcia i złożenie wniosku o refundację w wysokości dotacji u sekretarki w Urzędzie Miasta.

Więcej informacji można uzyskać od Lilja Ólafardóttir, sekretarki Urzędu Miasta, tel. 433 6900 lub mailem lilja@snb.is.

Hafnarstarfsmaður óskast til afleysinga

By Fréttir, Laus störf

Hafnir Snæfellsbæjar auglýsa eftir hafnarstarfsmanni til afleysinga við Rifshöfn. Viðkomandi mun einnig þurfa að vinna við aðrar hafnir Snæfellsbæjar. Umsækjendur þurfa að hafa náð 20 ára aldri og geta hafið störf sem fyrst.

Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Dala- og Snæfellssýslu og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Umsóknarfrestur er til og með 30. janúar 2019 og skulu umsóknir berast til hafnarstjóra.

Nánari upplýsingar gefur hafnarstjóri í síma 433 6922, 863 1153 og í netfanginu bjorn@snb.is.