Monthly Archives

February 2019

Dagskrá Heilsuviku Snæfellsbæjar 2019

By Fréttir

Heilsuvika Snæfellsbæjar verður haldin í fjórða skipti dagana 8. – 15. mars næstkomandi. Óhætt er að segja að heilsuvikan hafi hitt í mark meðal íbúa Snæfellsbæjar og vakið athygli langt út fyrir bæjarmörkin. Hefur heilsuvikan fest sig í sessi sem einn af hápunktum ársins hjá mörgum íbúum, enda heilsan eitthvað sem öllum er ofarlega í huga.

Það er íþrótta- og æskulýðsnefnd Snæfellsbæjar sem á hrós skilið fyrir glæsilega dagskrá og frítt er á alla viðburði í boði sveitarfélagsins, nema annað sé tekið fram. Hægt er að skoða dagskrá í betri upplausn með því að smella á myndina hér að ofan eða með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

Opnun tilboða í jarðvinnu vegna Þjóðgarðsmiðstöðvar

By Fréttir

Í dag voru opnuð tilboð í jarðvinnu vegna Þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi. Þrjú tilboð bárust í verkið, öll frá fyrirtækjum héðan úr Snæfellsbæ. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á kr. 27.254.000.- 

Eftirtaldir aðilar sendu inn tilboð:

 1. Stafnafell ehf. Tilboð hljóðar upp á kr. 14.954.250.-
 2. TS Vélaleiga ehf. Tilboð hljóðar upp á kr. 23.544.151.- 
 3. B. Vigfússon ehf. Tilboð hljóðar upp á kr. 25.549.700.-

Tilboðin liggja nú á borði Ríkiskaupa sem tekur þau fyrir. Stefnt var að því að vinna hæfist í byrjun mars 2019 og yrði lokið um miðjan maí.

318. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar

By Fréttir, Stjórnsýsla

Vakin er athygli á því að 318. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar verður haldinn í Ráðhúsi Snæfellsbæjar, fimmtudaginn 21. febrúar 2019 kl. 16:00.

Fundir bæjarstjórnar eru öllum opnir og eru íbúar hvattir til að kynna sér bæjarmálin. Dagskrá fundar má sjá hér að neðan. Fundarboð má sjá með því að smella hér.

Dagskrá fundar:
 1. Pakkhúsið – fulltrúar frá handverkshópnum mæta á fund kl. 17:00.
 2. Fundargerð velferðarnefndar, dags. 28. janúar 2019.
 3. Fundargerðir 3., 4. og 5. fundar öldrunarráðs, dags. 29. janúar, 28. janúar og 11. febrúar 2019.
 4. Fundargerð 181. fundar menningarnefndar, dags. 19. febrúar 2019.
 5. Fundargerð 122. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 25. janúar 2019.
 6. Fundargerð 123. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 1. febrúar 2019.
 7. Fundargerð 179. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga, dags. 12. febrúar 2019.
 8. Fundargerð 867. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 25. janúar 2019.
 9. Fundargerð 409. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 18. janúar 2019.
 10. Bréf frá leikskólastjóra, dags. 30. janúar 2019, varðandi ósk um aukafjárveitingu.
 11. Bréf frá Hesteigendafélaginu Hring í Ólafsvík, dags. 29. október 2018, varðandi ósk um styrk vegna fasteignagjalda af reiðskemmunni að Fossárvegi 7.
 12. Bréf frá eigendum Sólarsports ehf., dags. 15. febrúar 2019, varðandi húsnæðið á efri hæð sundlaugarinnar.
 13. Bréf frá Antoni Gísla Ingólfssyni, dags. 12. febrúar 2019, varðandi Áhaldahús Snæfellsbæjar.
 14. Bréf frá Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði, ódags., varðandi ráðgjöf um styttingu vinnuvikunnar og eflingu lýðræðisins.
 15. Bréf frá SSV, dags. 11. febrúar 2019, varðandi fræðsluferð kjörinna fulltrúa og framkvæmdastjóra sveitarfélaga í vor.
 16. Bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 12. febrúar 2019, varðandi áfangastaðaáætlanir.
 17. Bréf fré verkefnastjóra Umhverfisvottunar Snæfellsness, dags. 11. febrúar 2019, varðandi vottun Snæfellsness 2019.
 18. Fundarboð á 79. héraðsþing HSH, dags. 14. mars 2019.
 19. Bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga, dags. 11. febrúar 2019, varðandi framboð til stjórnar sjóðsins.
 20. Bréf frá Íbúðalánasjóði, ódags., varðandi húsnæðisáætlanir sveitarfélaga.
 21. Bréf frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, dags. 5. febrúar 2019, varðandi ályktun um þjónustu hjúkrunarheimila og þjónustu í dagdvalarrýmum.
 22. Bréf frá Öryrkjabandalagi Íslands, dags. 12. febrúar 2019, varðandi notendaráð fatlaðs fólks.
 23. Bréf frá framkvæmdastjóra Svæðisgarðsins Snæfellsness, dags. 12. febrúar 2019, varðandi verkefnið Umhverfingu og kynningu á Jarðarstund 2019.
 24. Minnispunktar bæjarstjóra.

Snæfellsbæ, 19. febrúar 2019
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri

Klippikort tekin í notkun á gámastöðinni

By Fréttir

Um næstu mánaðarmót verða klippikort tekin í notkun á gámastöðinni undir Enni í Ólafsvík.

Íbúar fá afhent eitt kort fyrir hvert heimili og er það afhent á gámastöðinni. Innifalið eru tólf skipti þar sem skila má tveimur rúmmetrum af úrgangi í einu til endurvinnslu. Þarf að framvísa klippikorti í hvert skipti sem komið er á stöðina og klippir starfsmaður fyrir móttöku.

Opið útboð vegna jarðvinnu við þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

By Fréttir

Sædís Heiðarsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir, þáv. umhverfisráðherra, tóku fyrstu skóflustungu árið 2016. Ljósmynd: Alfons Finnsson.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur kynnt opið útboð á framkvæmdum við jarðvinnu og girðingavinnu verksvæðis þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi. Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 2001 og fimm árum síðar var efnt til opinnar samkeppni um þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. Það hefur því verið stefnt að opnun þjóðgarðsmiðstöðvar lengi og er vonast til að nú verði skrefið stigið til fulls. Það yrði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og gerði þjóðgarðinn betur í stakk búinn til að taka á móti ferðamönnum sem heimsækja svæðið allt árið um kring.

Upplýsingar um útboð:

Framkvæmdasýsla ríkisins, f.h. Umhverfisráðuneytisins, kynnir opið útboð á framkvæmdum við jarðvinnu og að girða af verksvæði fyrir fyrirhugað hús þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi (ÞMH). Verkið er undirbúningsframkvæmd vegna byggingar nýrrar þjónustumiðstöðvar (ÞMH) fyrir Þjóðgarð Snæfellsjökuls á Hellissandi.

Um er að ræða gröft fyrir húsi, bílaplani, lögnum og fyllingu undir sökkla og burðarlags undir bílastæði á lóð.

Helstu magntölur eru:

 • Girðingar 260 m
 • Gröftur 3.000 m3
 • Þar af losun klappar 800 m3
 • Fyllingar 2.500 m3
 • Vinnsla hrauns 250 m3

Stærð lóðar er u.þ.b. 11.500 m2 og stærð fyrirhugaðs húss er u.þ.b. 700 m2.

Byggingarreiturinn er á hornlóð og liggur þjóðvegur í þéttbýli, Útnesvegur, með henni að norðanverðu. Norðan við þjóðveginn er íbúðabyggð Hellissands. Að austanverðu er lóð Sjóminjasafns Hellissands.

Reiknað er með því að verkið geti hafist í byrjun mars 2019 og verði lokið um miðjan maí.

Hægt er að sækja útboðsgögn á vef Ríkiskaupa.

Fundur til kynningar á átaksverkefni SSV um bættan rekstur starfandi fyrirtækja

By Fréttir

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi mun halda fundi til að kynna verkefnið „Bættur rekstur – Betri afkoma til að örva nýsköpun í starfandi fyrirtækjum á Vesturlandi 2019“. Verkefnið er áhersluverkefni í Sóknaráætlun Vesturlands og verður unnið í samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Áttir ehf.

Fundurinn verður haldinn í Átthagastofu Snæfellsbæjar föstudaginn 15. febrúar og hefst kl. 17:00.

Alþjóðlegt þríþrautarmót verður haldið á Snæfellsnesi í sumar

By Fréttir

Drónamynd af hlaupaleið. Mynd: Aaron Palaian.

Alþjóðlegt þríþrautarmót verður haldið á Snæfellsnesi í sumar. Mótið verður haldið laugardaginn 27. júlí og er keppnisfyrirkomulag með þeim hætti að um heilan járnmann er að ræða. Vegalengdir eru 3862 metra sund, 195 km hjól og 43,5 km hlaup.

Keppni hefst klukkan fjögur aðfaranótt laugardagsins við bæinn Eiði í Kolgrafafirði á tæplega fjögurra km löngu sjósundi. Að því loknu verður hjólað 195 km leið um Snæfellsnes; frá Kolgrafafirði og út fyrir Jökul, þvert í gegnum Snæfellsbæ að sunnanverðu, yfir Vatnaleiðina og til Ólafsvíkur. Að endingu verður hlaupið heilt maraþon yfir Jökulhálsinn; frá Ólafsvík að Arnarstapa og aftur til baka. Bækistöðvar mótsins verða í Ólafsvík.

Keppnisfyrirkomulagið gerir ráð fyrir allt að 250 keppendum en ekki er útséð með fjölda á þessum tímapunkti. Þó er ljóst að fjölmargir þaulvanir keppendur frá öllum heimshornum verði á meðal keppenda þar sem skráning fór vel af stað í desember síðastliðnum. Gera má ráð fyrir að flestum keppendum fylgi einhver hópur fólks sem muni dvelja á Snæfellsnesi og er svona alþjóðlegt mót því góð viðbót í fjölbreytileikann í ferðaþjónustu hér á Snæfellsnesi.

Mótshaldarar koma frá Bandaríkjunum, Extreme Endurance Events, og eru aðrar keppnir á þeirra vegum haldnar árlega í Alaska og á Havaí. Þess má geta að þeir leituðu sérstaklega eftir því að mótið yrði haldið hér á Snæfellsnesi og skyldi engan undra. Þeim innan handar eru íslenskir aðilar sem staðið hafa að þríþrautarmótum hér á landi og því vanir einstaklingar sem koma að skipulagningu mótsins. Fyrir áhugasama fylgja hér að neðan myndir af keppnisleiðum.

Tenglar:

Vefsíða Extreme Endurance Events

Lífshlaupið 2019 – Snæfellsbær hvetur til þátttöku

By Fréttir, Íþrótta- og æskulýðsmál

Snæfellsbær hvetur alla til þátttöku í Lífshlaupinu sem hefst 6. febrúar 2019.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlugserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:

 • vinnustaðakeppni frá 6. febrúar – 26. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
 • framhaldsskólakeppni frá 6. febrúar – 19. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur)
 • grunnskólakeppni frá 6. febrúar – 19. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
 • einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið

Landsmenn allir eru hvattir til þátttöku í Lífshlaupinu og skapa þannig skemmtilega stemningu og auka félagsandann á vinnustaðnum / í skólanum.

Skráningarferlið er einfalt og þægilegt en fínar leiðbeiningar má finna hér og undir viðeigandi keppni vinstra megin á síðunni. Gaman er að geta fylgst með sinni hreyfingu og jafnframt tekið þátt í þessari skemmtilegu landskeppni. Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn svo framarlega sem hún nær ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu. Einnig er auðvelt að ná í hreyfinguna sína úr Strava og Runkeeper fyrir þá sem það nota.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið og skráningu gefur Hrönn Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, á hronn@isi.is eða í síma: 514-4000.

Skráning fer fram á vefsíðu Lífshlaupsins:  www.lifshlaupid.is

Dagur leikskólans 6. febrúar – foreldrakaffi

By Leikskóli

Í tilefni dags leikskólans þann 6. febrúar er fjölskyldum leikskólabarna á Kríubóli og Krílakoti boðið í morgunkaffi á leikskólanum á milli klukkan 8 og 9. Foreldrar mæta þá með börnum í sinn leikskóla þar sem hægt verður að kynna sér starfið og eiga góða stund með börnunum.

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í tólfta sinn í ár, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið.

Hlökkum til að sjá sem flesta foreldra í morgunkaffi.

Börn og starfsfólk í leikskóla Snæfellsbæjar.