Monthly Archives

March 2019

Mávur frá Mávahlíð er lambafaðir ársins 2018

By Fréttir

Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson glöð í bragði með verðlaunin. Ljósmynd: smh / Bændablaðið.

Á opnum fagráðsfundi í sauðfjárrækt sem haldinn var í Bændahöllinni fyrr í þessum mánuði var Mávur frá Mávahlíð valinn Lambafaðir ársins 2018, hvorki meira né minna, og veittu Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson verðlaunagripnum viðtöku.

Er það faghópur sauðfjárræktar á vegum Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins sem dæmir hrútana eftir árangri þeirra og verðlaunar þann sæðingastöðvahrút sem skarað hefur fram úr, að þessu sinni Máv 15-990 frá Mávahlíð.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim hjónum og Mávur vel að titlinum kominn. Við leyfum umsögn faghóps Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins að fylgja hér að neðan.

Mávur frá Mávahlíð. Lambafaðir ársins 2018. 

„Besti lambafaðir sæðingastöðvanna veturinn 2017 til 2018 er Mávur 15-990 frá Mávahlíð í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Val hans byggir á niðurstöðum úr lambaskoðunum og kjötmati haustið 2018.

Mávur er sonur Blika 12-001 frá Mávahlíð sem var sonur Gosa 09-850 frá Ytri-Skógum. Móðir hans Dröfn 12-008 var tvílembd gemlingur síðan þrisvar verið þrílembd annars tvílembd og er með 6,9 í afurðaeinkunn. Tíu af fimmtán lömbum hennar hafa verið valin til lífs. Dröfn er dóttir Hróa 07-836 frá Geirmundarstöðum. Mæður foreldra Mávs rekja uppruna sinn að miklu leyti í þá öflugu hjörð sem verið hefur í Mávahlíð í áratugi. Þar er þó einnig skammt í stöðvahrúta s.s. Abel 00-890 frá Ósabakka, Túla 98-858 frá Leirhöfn og Þrótt 04-991 frá Staðarbakka.

Mávur var fenginn til notkunnar á sæðingastöðvunum haustið 2017 að aflokinni afkvæmarannsókn fyrir úrvalshrúta á Snæfellsnesi sem fram fór að Gaul í Staðarsveit. Mávur sýndi þar mjög skýra yfirburði sem lambafaðir. Mávur hefur verið tvo vetur í notkun á stöðvunum og bæði árin verið meðal þeirra hrúta sem bændur hafa sótt mikið í að nota. Afkvæmi Mávs er ákaflega jafnvaxin og sameina afar vel góða gerð, hóflega fitu og ágætan vænleika. Allmörg þeirra hafa erft hreinhvíta og kostaríka ull föður síns og hann því einnig öflugur kynbótahrútur hvað ullargæði varðar. Mávur stendur nú í 116 stigum í kynbótamati fyrir gerð og 118 stigum fyrir fitu. Í uppgjöri fjárræktarfélaganna 2018 fær hann 119 í fallþungaeinkunn fyrir afkvæmi sín. Mávur er frábær lambafaðir gagnvart öllum helstu eiginleikum sem horft er til við líflambaval og ber með sóma nafnbótina „besti lambafaðirinn“ framleiðsluárið 2018.“

Leikhópurinn Lotta í Klifi

By Fréttir

Vakin er athygli á stórkemmtilegum fjölskyldusöngleik með Rauðhettu og úlfinum, Hans og Grétu og grísunum þremur í félagsheimilinu Klifi á morgun kl. 17:30.

Frítt er á sýninguna í boði menningarnefndar Snæfellsbæjar og foreldrafélaga leikskóla Snæfellsbæjar.

Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Hópurinn, sem hefur sérhæft sig í sýningum utandyra, er nú annan veturinn í röð að sýna í Tjarnarbíó og um allt land. Rauðhettu setti hópurinn fyrst upp árið 2009 en nú tíu árum síðar verður rykið dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi.

Ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn þekkja allir en í meðförum Lottu hefur tveimur þekktum ævintýrum til viðbótar verið bætt í leikinn. Það eru sögurnar um grísina þrjá og systkinin Hans og Grétu. Þá eru í verkinu meira en 10 stórskemmtileg lög sem binda söguna saman. Úr verður gómsætur ævintýrakokteill sem enginn má láta framhjá sér fara.

Hér má sjá viðburðinn á Facebook.

Úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði

By Fréttir

Í gær var úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands haldin í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Styrkir eru veittir til menningarverkefna og atvinnu- og nýsköpunarverkefna og að þessu sinni var úthlutað um 47 milljónum í 82 verkefni. Úthlutunarhátíðin gekk vel fyrir sig og léku þau Valentina, Evgeeny og Stefanía frá Tónlistarskóla Snæfellsbæjar fyrir gesti.

Fjölmörg verkefni í Snæfellsbæ fengu styrkveitingu að þessu sinni eins og sjá má hér að neðan:

 • Sjóminjasafnið hlaut tvo styrki vegna fyrirhugaðra sýninga;
 • Átthagastofa hlaut þrjá styrki – vegna Fjölmenningarhátíðar, fyrir skráningu safnmuna og vegna áframhaldandi endurhleðslu fjárréttar í Ólafsvík í umsjón Guðrúnar Tryggvadóttur;
 • Karlakórinn Heiðbjört í Staðarsveit, Kirkjukór Ólafsvíkur og Karlakórinn Kári hlutu styrk fyrir kórastarfi;
 • Menningarsjóðurinn undir Jökli hlaut styrkveitingu vegna tveggja verkefna, annars vegar fyrir Hellnakirkju og hins vegar vegna tónleikaraðar;
 • Slysavarnardeildin Helga Bárðar hlaut styrk til að ljúka við endurbætur á styttunni Jöklarar sem er í Sjóminjagarðinum á Hellissandi;
 • Adela Marcela Turloiu hlaut styrk til að halda áfram með Snæfellsnesspilið;
 • Guðni Þorberg hlaut styrkveitingu vegna sýningar um Axlar-Björn sem fyrirhugað er að setja upp í Samkomuhúsinu á Stapa;
 • Frystiklefinn hlaut tvo styrki, annars vegna vegna fyrirhugaðrar götulistahátíðar á Hellissandi og hins vegar fyrir nýja leiksýningu sem frumsýnt verður í sumar;
 • Jóhann Már Þórisson hlaut styrk fyrir handverk úr heimabyggð. 

Þá má einnig nefna að önnur verkefni sem tengjast Snæfellsbæ með einum eða öðrum hætti hlutu einnig styrkveitingu, t.d. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes, kvikmyndahátíðin Northern Wave Film Festival sem haldin er í Rifi og samlistasýningin Umhverfing sem verður á haldin á Snæfellsnesi í sumar.

 

Hjörtur og Davíð Svanur keppa í Samfés

By Fréttir

Söngkeppni Samfés er haldin í Laugardalshöll á morgun frammi fyrir 3000 áhorfendum og myndavélum Ríkissjónvarpsins, en keppnin er í beinni útsendingu á RÚV.

Á meðal keppanda verða tveir söngglaðir snillingar úr Snæfellsbæ, þeir Davíð Svanur Hafþórsson og Hjörtur Sigurðsson, sem flytja frumsamið lag um mömmur sínar. Lagið heitir „Takk fyrir“ og á alveg örugglega eftir að kremja nokkur hjörtu.

Keppnin hefst kl. 13:00 og verður eins og áður segir í beinni útsendingu á RÚV. Strákarnir eru númer þrjú í röðinni og áætlað er að þeir stígi á svið kl. 13:13.

Við hvetjum alla sem tök hafa á til að hafa rétt stillt á morgun og fylgjast með strákunum á sviði Laugardalshallarinnar. Áfram strákar!

Laus staða á leikskólanum Krílakoti

By Fréttir

Snæfellsbær auglýsir til umsóknar laust starf á leikskólanum Krílakoti.

Auglýst er eftir starfsmanni sem hefur áhuga á að vinna með börnum, er skapandi og ábyrgðafull/ur í starfi. Viðkomandi starfsmaður þarf að vera námsfús og sveigjanlegur með fullt af þolinmæði. Hann/hún þarf að geta stýrt samverustundum sem og hópastarfi, lesið og sungið. Því þarf íslenskukunnátta að vera viðunandi.

Starfshlutfall er 100% og vinnutími frá 8:00 – 16:00 alla virka daga. 

Umsóknarfrestur er til 2. apríl 2019. Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf um miðjan apríl.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu.

Frekari upplýsingar veita Inga Stefánsdóttir og Hermína í síma 433 6925 á milli 9:00 – 12:00. Umsóknarform má finna á meðfylgjandi hlekk:

Í lögum um leikskóla nr. 90/2008 segir í 3. mgr. 6gr: „Óheimilt er að ráða til starfa við leikskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakarvottorð eða heimilid leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.“

Hundahreinsun í áhaldahúsinu 21. mars

By Fréttir

Hundaeftirlitsmaður vill koma því á framfæri að önnur hundahreinsun þessa mánaðar verður fimmtudaginn 21. mars 2019 frá kl. 15:30 – 17:00 í áhaldahúsinu í Ólafsvík.

Láti fólk bólusetja og hreinsa hunda annars staðar er óskað eftir því að tilkynning um slíkt berist á bæjarskrifstofu. Eigendur óskráðra hunda eru vinsamlegast beðnir að skrá þá við fyrsta tækifæri. Eyðublað má finna hér að neðan.

Sumarstarf í Lýsulaugum

By Fréttir

Snæfellsbær óskar eftir að ráða starfsfólk í Lýsulaugar á Snæfellsnesi sumarið 2019.

Leitað er eftir starfsfólki á aldrinum 20 – 35 ára í laugarvörslu og afgreiðslu. Starfstími sem um ræðir er frá byrjun júnímánaðar til septembermánaðar.

Hæfniskröfur:

 • Góð enskukunnátta.
 • Góð þjónustulund.
 • Áræðanleiki.
 • Áhugi á staðnum og nærumhverfi.
 • Starfsmenn þurfa að ljúka skyndihjálparnámskeiði.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu.

Frekari upplýsingar fást í síma 696 1786 og á lysulaugar@snb.is.

Vinsamlegast sendið umsóknir á lysulaugar@snb.is.

Hér má sjá atvinnuauglýsingu og einnig má benda á að Lýsulaugar eru á Facebook. Sjá hér.

Bætt 4G samband á Snæfellsnesi

By Fréttir

Á undanförnum vikum hefur verið unnið að uppfærslu á farsímadreifikerfi Símans á Snæfellsnesi og 4G samband bætt til muna.

Á meðfylgjandi mynd sjást nýjar 4G stöðvar á svæðinu en þær eru á Öxl, Gröf, Flesjustöðum, Rauðamelskúlu, Klakki, Akurtröðum og Skipavík í Stykkishólmi. Stöðvarnar styðja hraða frá 100 til 200 Mbps.

Uppfærslan bætir 4G samband á svæðinu til muna og geta íbúar á Snæfellsnesi nú notið góðs af 4G netsambandi víðar en áður. Ferðamenn sem sækja svæðið heim munu að sjálfsögðu einnig njóta góðs af bættu 4G sambandi. 

319. fundur bæjarstjórnar

By Fréttir

Vakin er athygli á því að 319. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar verður haldinn í Ráðhúsi Snæfellsbæjar, fimmtudaginn 14. mars 2019 kl. 16:00.

Fundir bæjarstjórnar eru öllum opnir og eru íbúar hvattir til að kynna sér bæjarmálin. Dagskrá fundar má sjá hér að neðan. Fundarboð má sjá með því að smella hér.

Dagskrá fundar:

 1. Fundargerð 124. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 28. febrúar 2019.
 2. Fundargerð fræðslunefndar, dags. 28. janúar 2019.
 3. Fundargerð velferðarnefndar, dags. 11. febrúar 2019.
 4. Fundargerðir ungmennaráðs, dags. 28. janúar og 5. febrúar 2019.
 5. Fundargerð 85. fundar íþrótta- og æskulýðsnefndar, dags. 21. febrúar 2019.
 6. Fundargerð stjórnar Jaðars, dags. 25. febrúar 2019.
 7. Fundargerð 868. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 22. febrúar 2019.
 8. Fundargerð 410. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 15. febrúar 2019.
 9. Fundarboð aðalfundar SSV, dags. 3. apríl 2019.
 10. Fundarboð aðalfundar LS, dags. 29. mars 2019.
 11. Bréf frá Helgu Birkisdóttur, dags. 26. febrúar 2019, varðandi fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar með hagsmunaaðilum á Arnarstapa þann 25. janúar.
 12. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 20. febrúar 2019, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Stekkjarans ehf., um leyfi til rekstur gististaðar í flokki II, stærra gistiheimili, að Ólafsbraut 55 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.
 13. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 22. febrúar 2019, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn The Freezer ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki IV, gistiskáli og samkomusalur, að Hafnargötu 16 í Rifi, Snæfellsbæ.
 14. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 22. febrúar 2019, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn The Freezer ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, minna gistiheimili, að Snæfellsási 1 á Hellissandi, Snæfellsbæ.
 15. Beiðni um afsal forkaupsréttar Snæfellsbæjar að bátnum Ingibjörgu SH-174, skskrnr. 2615, skv. meðfylgjandi kauptilboði.
 16. Tillaga að reglum vegna endurgreiðslu á kostnaði starfsfólks Snæfellsbæjar vegna líkamsræktar.
 17. Bréf frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga, dags. 20. febrúar 2019, varðandi skólaaksturs við FSN á vorönn 2018.
 18. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 28. febrúar 2019, varðandi íbúasamráðsverkefni.
 19. Bréf frá Leigufélaginu Bríeti, dags. 1. mars 2019, varðandi nýtt félag.
 20. Sólarsport – aðstandendur Sólarsports mæta á fundinn kl. 17:00.
 21. Leigusamningur um Pakkhúsið. Lagður fram á fundinum.
 22. Minnispunktar bæjarstjóra.

Umhverfisvottað Snæfellsnes í tíu ár

By Fréttir

Ljósmynd fengin af vef Markaðsstofu Vesturlands.

Til hamingju Snæfellingar!

Á dögunum hlutu sveitarfélögin á Snæfellsnesi platínu-umhverfisvottun EarthCheck fyrir frammistöðu í umhverfis- og samfélagsmálum tíu ár í röð. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að ákvörðun var tekin um að standa vörð um umhverfið á Snæfellsnesi með því að framfylgja alþjóðlegum umhverfisstaðli EarthCheck. Umhverfisvottunarverkefnið er fjölþætt. Að því koma mjög margir aðilar enda er öflugt samstarf og þekking lykillinn að árangri. Bætt frammistaða á ýmsum sviðum og viljinn til að gera enn betur með skýrum og skráðum markmiðum skiptir mestu máli. Það er einmitt starf á þeim grunni sem færir okkur vottunina.

En í hverju birtist umhverfisstarf Snæfellinga? Allt frá 2003 hafa sveitarfélögin haldið til haga upplýsingum um auðlindanotkun og sorpmál á svæðinu. Tæpur helmingur af öllu sorpi á Snæfellsnesi fer í endurvinnslu (47,6% árið 2018). Að koma sorpi í réttan farveg er samvinnuverkefni allra íbúa og fyrirtækja. Um helmingur allra hreinsiefna sem sveitarfélögin kaupa eru með viðurkennd umhverfismerki og nær allur pappír er umhverfismerktur. Margvíslegar aðrar upplýsingar gefa okkur innsýn í stöðu svæðisins og hjálpa okkur við að setja mælanleg markmið. Sem dæmi um önnur verkefni má nefna að síðastliðin ár hafa sveitarfélögin unnið að því í samstarfi við hagsmunaaðila að bæta aðgengi ferðamanna að víðförulustu áningarstöðum Snæfellsness. Það skiptir miklu máli að viðhalda vinsælum viðkomustöðum, gæta náttúru þeirra og tryggja að gestir fái að njóta þeirra. Síðast en ekki síst má nefna frábært starf skólanna á Snæfellsnesi þar sem umhverfismál eru í öndvegi og börnin njóta góðs af. Nokkrir skólar eru þátttakendur í Grænfánaverkefni Landverndar sem eflir umhverfisvitund yngri kynslóðarinnar. Börnin eru framtíðin og það er okkar hlutverk að sýna þeim í verki að umhverfið skiptir lykilmáli.

Við Snæfellingar nýtum platínu-viðurkenningu EarthCheck sem hvatningu. Við erum staðráðin í að halda góðri vinnu áfram og gera enn betur!

Hér að neðan má sjá merki til staðfestingar á því að að sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafi hlotið endurnýjaða vottun árið 2019.