Monthly Archives

April 2019

Verkalýðsdagurinn í Snæfellsbæ

By Fréttir

Alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins verður fagnað hér í bæ á miðvikudaginn, 1. maí næstkomandi, líkt og annars staðar. Verkalýðsfélag Snæfellinga, Starfsmannafélag Dala- og Snæfellssýslu og Sameyki halda samkomur á Snæfellsnesi í tilefni dagsins. Í Snæfellsbæ hefst dagskrá í félagsheimilinu Klifi kl. 15:30 og verður sem hér segir:

 • Kynnir og ræðumaður verður Vignir Smári Maríasson, formaður verkalýðsfélags Snæfellinga.
 • Tónlistarskóli Snæfellsbæjar flytur tónlistaratriði.
 • Þórunn Lárusdóttir og Karl Olgeirsson stíga á svið.
 • Kaffiveitingar að hætti eldri borgara.
 • Sýning frá eldri borgurum.
 • Að lokum verður boðið í bíó í Klifi kl. 18:00.

Félagsmenn og aðrir íbúar eru hvattir til að mæta og eiga saman góðan dag. Börn í fylgd með fullorðnum. Hægt er að smella á myndina til að sjá hana í betri upplausn.

Sumarstörf og vinnuskóli Snæfellsbæjar

By Fréttir

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um sumarstörf og vinnuskóla Snæfellsbæjar fyrir árið 2019.

Sumarstörf

5-6 leiðbeinendur/flokkstjóra í vinnuskólanum.

Um er að ræða 100% störf í þrjá mánuði frá 23. maí nk. Umsækjendur þurfa að vera 18 ára eða eldri, vera færir um að stýra vinnuskólahópi, hafa reynslu og áhuga á að vinna með og fræða unglinga. Umsækjendur eru tóbakslausir, sjálfstæðir og góðar fyrirmyndir. Þekking á staðarháttum í sveitarfélaginu er einnig nauðsynleg.

5-6 starfsmenn í sumarvinnu.

Um er að ræða 100% starf í þrjá mánuði. Umsækjendur þurfa að vera 18 ára eða eldri, vera áhugasamir, duglegir, hafa áhuga á útivinnu, tóbakslausir og sjálfstæðir.

Vinnuskóli

Vinnuskóli Snæfellsbæjar verður starfræktur sumarið 2019 frá 3. júní til 3. júlí fyrir 8. bekk, alls 4 vikur og 3. júní til 17. júlí fyrir 9. og 10. bekk og árgang 2002, alls 6 vikur. Vinnuskólinn er eingöngu ætlaður fyrir börn sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu eða eiga foreldri með lögheimili í sveitarfélaginu. Umsóknarfrestur rennur út 16. maí.

Nánar:

Auglýsing um sumarstarf

Umsóknareyðublað fyrir sumarstarf

Auglýsing um vinnuskóla

Umsóknareyðublað fyrir vinnuskóla

Strandhreinsun á Snæfellsnesi 4. maí

By Fréttir

Lengi hefur það tíðkast að íbúar tíni rusl í nærumhverfi sínu í þeim tilgangi að halda landinu hreinu og vernda dýralíf. Síðustu misseri hefur bæði umræðan um rusl í hafi eða landi og aðgerðir gegn þeim vanda aukist. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir viðfangsefninu en ekki síður þeim leiðum sem færar eru til að takast á við vandamálin. Þann 4. maí næstkomandi verður stóri strandhreinsunardagurinn, samvinnuverkefni fjölmargra hagsmunaaðila og íbúa á Snæfellsnesi. Markmiðið með þessu verkefni er að fjarlægja rusl úr fjörum og koma því sem hægt er til endurnýtingar.

Fjögur skipulögð svæði verða hreinsuð þennan dag og er öllum velkomið að taka þátt, ungum jafnt sem öldnum. Á hverju svæði verður leiðtogi sem heldur utan um hreinsun. Stórsekkir verða notaðir undir rusl og farið verður með þá á nærliggjandi gámastöðvar. Í lok hreinsunar verður öllum þátttakendum boðið upp á grillaðar pylsur og hressingu á hverju svæði fyrir sig. Nánari upplýsingar um staðsetningar, tíma og fleira er að finna í auglýsingu strandhreinsunarinnar, á samfélagsmiðlum og heimasíðum verkefnisins.

Það eru Umhverfisvottun Snæfellsness og Svæðisgarðurinn Snæfellsnes sem halda utan um strandhreinsunina í ár í samstarfi við öflugt teymi hagsmunaðila á svæðinu. Snæfellsnes tekur þátt í samnorræna strandhreinsunarverkefni Bláa hersins, Hreinsum Ísland, en aðalhreinsun þess verkefnis í ár verður á Höfn í Hornafirði. Munu fulltrúar Snæfellsness halda utan um 10x100m tilraunareit á einu hreinsunarsvæði, líkt og önnur svæði á Norðurlöndunum, þar sem rusl verður sérstaklega flokkað og því komið í hendur Bláa hersins til greiningar.

Fyrir utan strandhreinsunardaginn sjálfan verða fleiri hreinsanir. Allir grunnskólar á Snæfellsnesi ætla að samræma sínu árlegu vorhreinsun strandhreinsunarverkefninu í ár. Nemendur vinna með fjöru og rusl í hafi sem þema í verkefnavinnu sinni og verður fjöruhreinsun hluti af því. Síðastliðin 10 ár hefur 8. bekkur Grunnskóla Snæfellsbæjar hreinsað fjöruna við Búðahraun og í ár munu þau fara frá kirkjunni að Frambúðum og ströndina til baka. Jafnframt munu nemendur við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í áfanga náttúruvísinda taka fyrir plastmengun í lokaverkefni sínu og tína rusl í fjörum Grundarfjarðar og greina uppruna þess. Starfsfólk og vistmenn Kvíabryggju hafa af nægu að taka. Með dráttarvél og kerru verður hreinsað á nærliggjandi fjöru yfir á norðanvert Kirkjufell og út á Búðir. Þar er töluvert af netum og öðru rusli sem kindur og önnur dýr hafa verið að flækjast í. Nokkrir listamenn, sem taka þátt í listsýningunni Umhverfing 3 sem verður á Snæfellsnesi í ár, ætla að innlima strandhreinsunina í verk sín með því að nota afrakstur hreinsunarinnar.

Umhverfing er árleg sýningaröð þar sem myndlistarmenn sameinast og tengja listsköpun við ákveðið svæði með það markmið að efla aðgengi íbúa að nútímalist í óhefðbundnum sýningarrýmum og skapa umræðu um tilgang lífs og lista.

Kæru Snæfellingar, við hvetjum ykkur til að taka þátt í þessu þarfa og skemmtilega samvinnuverkefni. Mætum vel búin og hreinsum land og fjöru Snæfellsness 4. maí!

Guðrún M. Magnúsdóttir, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness

Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsness

Hreinsunarstaðir strandhreinsunar

Safna- og sýningadagur á Snæfellsnesi

By Fréttir

Sumardagurinn fyrsti, 25. apríl 2019, er árlegur safna-og sýningadagur á Snæfellsnesi. Söfn og sýningar opna dyrnar upp á gátt fyrir íbúa Snæfellsness og aðra gesti. Um er að ræða samvinnuverkefni Svæðisgarðsins Snæfellsnes, Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla og safna og sýningafólks á Snæfellsnesi.

Snæfellingar eru hvattir til að nýta sér þetta tækifæri. Hvern vilt þú gleðja og fræða? Við ættum öll að þekkja söfn og sýningar á Snæfellsnesi og geta bent gestum okkar á hvar fræðast má um menningararf Snæfellsness.

Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Hér má sjá dagskrá og auglýsingu fyrir daginn.

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stelpur

By Fréttir

Kristín Tómasdóttir kemur til Snæfellsbæjar og heldur sjálfstyrkingarnámskeið fyrir 7 – 12 ára stelpur. Byggir hún námskeiðið á bók sinni Sterkar stelpur sem kom út árið 2017. Námskeiðið verður haldið helgina 4. – 5. maí 2019 í íþróttahúsi Snæfellsbæjar.

 • Yngri hópur: 7 – 9 ára milli klukkan 09.00 – 11.00 báða dagana.
 • Eldri hópur: 10 – 12 ára milli klukkan 12.00 – 14.00 báða dagana.

Í lok námskeiðsins er foreldrum boðið á fund þar sem farið verður yfir góð ráð til þess að fylgja námskeiðinu eftir. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á þrennt:

 1. Að þátttakandinn læri að þekkja hugtakið sjálfsmynd.
 2. Að þátttakandinn læri að þekkja sína eigin sjálfsmynd.
 3. Að þátttakandinn læri leiðir til þess að fyrirbyggja að sjálfsmyndin þróist í neikvæða átt.

Verð: 16.900 kr .Öll kennslugögn fylgja. Skráning og frekari upplýsingar á stelpurgetaallt@gmail.com eða í síma 662-4292.

Á Facebook má finna viðburð vegna námskeiðsins .

Aðalfundur UMF Víkings/Reynis

By Fréttir

Aðalfundur UMF Víkings/Reynis verður haldinn þriðjudaginn 23. apríl 2019 og hefst hann í íþróttahúsi Snæfellsbæjar kl. 20:00. Heitt verður á könnunni og allir velkomnir.

Allir þeir sem áhuga hafa á málefnum ungmennafélaga eru sérstaklega hvattir til að mæta og láta sig málið varða.

Dagskrá:

 • Ársreikningur
 • Kosning í stjórn
 • Önnur mál

Vinsamlega sendið fyrirspurnir og ábendingar á vikingurol@gmail.com.

Páskaopnun í Snæfellsbæ

By Fréttir

Opnunartímar í stofnunum Snæfellsbæjar verða sem hér segir yfir páskahátíðina. Einnig má sjá opnunartíma Gámaþjónustunnar, en opið verður á starfsstöðinni þeirra undir Enni á laugardag.

Sérstök athygli vakin á því að sundlaugin í Ólafsvík er opin á Skírdag, laugardag og annan í páskum.

Opnunartímar:

Bæjarskrifstofa

Lokað á rauðum dögum, Skírdag, Föstudaginn langa og annan í páskum. Opnar þriðjudaginn 23. apríl. 

Grunnskóli Snæfellsbæjar

Páskafrí til og með 22. apríl. Kennsla hefst aftur að morgni þriðjudags 23. apríl.

Leikskóli Snæfellsbæjar

Lokað á rauðum dögum. Leikskólakennsla hefst aftur að morgni þriðjudags 23. apríl. 

Bókasafn Snæfellsbæjar

Lokað á rauðum dögum. Opnar að nýju kl. 10 þriðjudaginn 23. apríl.

Sundlaug

Opið á Skírdag frá kl. 10 – 17
Lokað á Föstudaginn langa
Opið frá kl. 10 – 17 á laugardegi
Lokað á Páskasunnudegi
Opið frá kl. 10 – 17 á annan í páskum

Upplýsingamiðstöð í Átthagastofu

Opið alla páskahátíðina frá kl. 11 – 15.

Safn í Pakkhúsi

Opið alla páskahátíðina frá kl. 10 – 16.

Gámaþjónustan

Gámaþjónustan á að vera opin skv. áætlun á fimmtudögum en verður lokuð þar sem opnun lendir á Skírdegi.
Opið frá kl. 11 – 15 á laugardaginn.
Opnar svo skv. áætlun kl. 15:00 á þriðjudag, 23. apríl.
 

Hvernig er lífið í Snæfellsbæ? Segðu þína skoðun

By Fréttir

Þessa dagana stendur Byggðastofnun fyrir könnun á búsetusögu, lífsgæðum og fyrirætlunum um framtíðarbúestu í bæjum og þorpum með færri en 2000 íbúa. Það er mikilvægt að íbúar sem búa í þessum bæjum taki þátt svo niðurstöður verði marktækar og mögulegt verði að vinna úr þeim. Hingað til hefur þátttaka í Snæfellsbæ ekki verið nægilega góð og viljum við kalla eftir betri svörun.

Nánar um könnunina:

Könnunin Byggðafesta og búferlaflutningar: Bæir og þorp á Íslandi er hluti rannsóknarverkefnis á vegum Byggðastofnunar í samstarfi við rannsóknafólk við innlenda og erlenda háskóla. Könnuninni er ætlað að safna margvíslegum upplýsingum sem aukið geta skilning á málefnum minni byggðarlaga og stutt við stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum. Þessi könnun nær til byggðakjarna með færri en tvö þúsund íbúa utan suðvestursvæðis landsins.

Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri stýrir rannsókninni og svarar spurningum í síma 661 6099 eða í tölvupósti thoroddur@unak.is. Þátttaka í könnuninni er að sjálfsögðu frjáls og svarendum ber hvorki skylda til að svara einstökum spurningum eða könnuninni í heild. Könnunin er unnin í samræmi við lög 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sjá nánar hér.

Smelltu hér til að taka þátt

SURVEY IN ENGLISH

ANKIETA W JĘZYKU POLSKIM 

Fyrri umræða um ársreikning Snæfellsbæjar 2018

By Fréttir

Fimmtudaginn 11. apríl 2019 fór fram fyrri umræða í bæjarstjórn Snæfellsbæjar um ársreikning bæjarfélagsins fyrir árið 2018.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Áformað er að ársreikningurinn verði afgreiddur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 9. maí næstkomandi.

Rekstur Snæfellsbæjar gekk vel á árinu og var rekstrarniðurstaða töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða um 125,3 millj. króna í samantektum rekstrarreiknina A- og B-hluta.

Segja má að rekstur Snæfellsbæjar hafi verið nánast á pari við fjárhagsáætlun og athygli vekur að allar stofnanir Snæfellsbæjar skila rekstri á eða undir áætlun, sem er mjög ánægjulegt og eiga forstöðumenn hrós skilið fyrir árangurinn. 

Hér má sjá helstu lykiltölur úr fyrri umræðu:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 2.511,3 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.280,3 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 1.995,8 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.806,9 millj. króna. 

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 125,3 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir kvæðri afkomu upp á 22,9 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 102,4 millj. króna.  Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 51,5 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 4,7 millj. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 56,2 millj. króna.  Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.507,1 millj. króna skv. efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 2.672,1 millj. króna. 

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 1.228,7 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 142 stöðugildum í árslok. 

Veltufé frá rekstri var 259 millj. króna og veltufjárhlutfall er 1,55.  Handbært frá rekstri var 58,2 millj. króna. 

Heildareignir bæjarsjóðs námu um 4.212,6 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 5.448,7 millj. króna í árslok 2018. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.540,4 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.941,6 millj. króna, og hækkuðu þar með milli ára um 180,7 milljónir.   

Eigið fé bæjarsjóðs nam um 2.672,1 millj. króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 3.507,1 millj. króna í árslok 2018.  Eiginfjárhlutfall er 63,43 % á á árinu 2018 en var 65,89% árið áður. 

Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 369 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og tók ný lán á árinu 2018 upp á 328,5 milljónir.  Greidd voru niður lán að fjárhæð 156,6 milljónir.  Rétt er að taka það fram að stærstur hluti þessarar lántöku, eða kr. 178.502.037.- var tekinn vegna uppgreiðslu á samningi milli ríkissjóðs og Snæfellsbæjar um uppgjör lífeyrisskuldbindinga í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. 

Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 70,41% hjá sjóðum A-hluta, en var 62,95% árið 2017, og 71,48% í samanteknum ársreikningi en var 69,49% árið 2018.  Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð.