Monthly Archives

April 2019

Bæjarráð mótmælir skerðingu til Jöfnunarsjóðs

By Fréttir

Bæjarráð Snæfellsbæjar mótmælir harðlega þeirri einhliða ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 3,3 milljarða króna á næstu tveimur árum.  Í málefnum sem þessum er nauðsynlegt að samráð sé haft milli þeirra aðila sem að málefninu koma.  Einhliða ákvörðun sem þessi grefur undan annars ágætu samstarfi ríkis og sveitarfélaga og á sér ekki fordæmi í samskiptum þessara tveggja stjórnsýslustiga. 

Skerðing á tekjum jöfnunarsjóðs hefur gífurleg áhrif á sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga.  Hjá Snæfellsbæ einum og sér, mun þessi ákvörðun skerða tekjur sveitarfélagsins um tæplega 50 milljónir á því tímabili sem um ræðir. 

Bæjarráð Snæfellsbæjar tekur heilshugar undir með stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og krefst þess að þessi einhliða ákvörðun verðir dregin til baka og viðræðum verði komið á milli aðila sem myndi stuðla að ásættanlegri lausn málsins.

Breytt deiliskipulag að Arnarfelli á Arnarstapa

By Fréttir

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti 11. apríl 2019 að endurauglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi ferðaþjónustunnar við Arnarfell á Arnarstapa skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillagan felur í sér breytingu á lóð Arnarfells og aðkomu frá suðri. Breytingin hefur í för með sér breytingu skipulagsskilmála og byggingarskilmála og er því eldra deiliskipulag fellt úr gildi með gildistöku þessa deiliskipulags.

Helstu breytingar:

 • Áður var gert ráð fyrir 11 smáhýsum, en nú er gert ráð fyrir að þau verði allt að 13.
 • Byggingarreitir og núverandi gistihús Arnarfells eru sameinuð í eina hótelbyggingu á tveimur hæðum.
 • Byggingarreit fyrir þjónustuhús er breytt lítillega.
 • Lögun á byggingarreit fyrir snyrtingu tjaldsvæðis er breytt, en fyrirhugað að reisa nýtt hús í stað núverandi húss.
 • Umferðarskipulagi á lóðinni er breytt innan lóðar og sunnan hennar og bílastæði eru löguð að breyttri aðkomu að sunnan.

Tillagan mun liggja frammi í Ráðhúsi Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, á opnunartíma frá og með 11. apríl 2019 til og með 23. maí 2019. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Frestur til þess að skila inn athugasemdum er til 23. maí 2019. Skila skal athugasemdum skriflega til Tæknideildar Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, 360 Hellissandi eða á netfangið: byggingarfulltrui@snb.is

320. fundur bæjarstjórnar

By Fréttir, Stjórnsýsla

Vakin er athygli á því að 320. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar verður haldinn í Ráðhúsi Snæfellsbæjar, fimmtudaginn 11. apríl 2019 kl. 14:30.

Fundir bæjarstjórnar eru öllum opnir og eru íbúar hvattir til að kynna sér bæjarmálin. Dagskrá fundar má sjá hér að neðan. Fundarboð má sjá með því að smella hér.

Dagskrá fundar:

 1. Ársreikningur Snæfellsbæjar 2018 – fyrri umræða. 
 2. Fundargerð 303. fundar bæjarráðs, dags. 27. mars 2019. 
 3. Fundargerðir fræðslunefndar, dags. 25. febrúar, 2. apríl og 8. apríl 2019. 
 4. Fundargerð 182. fundar menningarnefndar, dags. 25. mars 2019. 
 5. Fundargerðir velferðarnefndar, dags. 11. mars og 2. apríl 2019. 
 6. Fundargerð 125. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 28. mars 2019. 
 7. Fundargerðir 180. og 181. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga, dags. 12. mars og 2. apríl 2019. 
 8. Fundargerð 56. stjórnarfundar Jeratúns ehf., dags. 14. mars 2019, ásamt ársreikningi 2018. 
 9. Fundargerð 411. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 22. mars 2019. 
 10. Fundargerð 869. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 15. mars 2019. 
 11. Fundargerð aðalfundar Búnaðarfélags Staðarsveitar, dags. 28. mars 2019, ásamt ályktunum félagsins, annars vegar varðandi ósk um að stofnanir Snfællsbæjar fái sem mest af góðum innlendum landbúnaðarafurðum og hins vegar varðandi þau umhverfisverkefni sem verið hafa í gangi. 
 12. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 27. mars 2019, varðandi ósk um umsögn Snæfellsbæjar um umsókn Boðvíkur ehf. um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, að Jaðri 11 á Arnarstapa, Snæfellsbæ. 
 13. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 2. apríl 2019, varðandi ósk um umsögn Snæfellsbæjar um umsókn Hellna ehf. um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, að Kjarvalströð 1 á Hellnum, Snæfellsbæ. 
 14. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 2. apríl 2019, varðandi ósk um umsögn Snæfellsbæjar um umsókn Hellna ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, að Kjarvalströð 14 á Hellnum, Snæfellsbæ. 
 15. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 3. apríl 2019, varðandi ósk um umsögn Snæfellsbæjar um umsókn Verslunarinnar Hrundar ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, íbúðir, að Mýrarholt 5 í Ólafsvík, Snæfellsbæ. 
 16. Bréf frá N4 Sjónvarp, dags. 8. apríl 2019, varðandi ósk um samstarf við Snæfellsbæ um gerð þáttaraðarinnar Að vestan árið 2019. 
 17. Bréf frá skipulags- og byggingafulltrúa, dags. 8. apríl 2019, varðandi samþykki bæjarstjórnar á endurauglýsingu deiliskipulags vegna ferðaþjónustu á Arnarfelli. 
 18. Bréf frá fræðslunefnd, dags. 8. apríl 2019, varðandi eldvarnarhurðir á leikskólanum Kríubóli. 
 19. Bréf frá leikskólastjóra, dags. 9. apríl 2019, varðandi tímasetningu skólaslita Grunnskóla Snæfellsbæjar. 
 20. Bréf frá skipulags- og byggingafulltrúa, ódags., varðandi lækkun á umferðarhraða og fjölgun umferðarmerkja. 
 21. Áætlun um tekjur og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2019. 
 22. Bréf frá Þjóðskjalasafni Íslands, dags. 27. mars 2019, varðandi tilmæli vegna skjalavörslu og skjalastjórnun í Snæfellsbæ. 
 23. Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dags. 4. apríl 2019, varðandi akstursþjónustu fyrir fatlað fólk 2019. 
 24. Yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. apríl 2019, varðandi lífskjarasamninga 2019-2022. 
 25. Bréf frá Brunabót, dags. 25. mars 2019, varðandi styrktarsjóð EBÍ 2019. 
 26. Fréttatilkynning  afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. 
 27. Húsnæðisáætlun Snæfellsbæjar 2019-2027 
 28. Jafnréttisáætlun Snæfellsbæjar 
 29. Minnispunktar bæjarstjóra.

Snæfellsbæ9. apríl 2019 

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri 

Umverfisvottun Snæfellsness til Azoreyja

By Fréttir

Guðrún Magnea, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness, er á leið til Azoreyja.

Það hefur löngum verið vitað að Snæfellingar eru í forystusveit umhverfismála hér á landi, en hróður umhverfisvottunar á Snæfellsnesi hefur nú borist alla leið til Azoreyja!

Guðrún Magnea, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness, er á leið til Azoreyja að kynna Snæfellsnes og þá reynslu sem samfélagið hér hefur hlotið af umhverfisvottunarverkefninu. Azoreyjar eru að stíga sín fyrstu skref í þessum málum og feta þá slóð sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi stikuðu fyrir áratug síðan.

Óskaði þarlendur verkefnastjóri liðsinnis frá Guðrúnu Magneu við upplýsingaöflun og flýgur henni út til að kynna EarthCheck-verkefnið og ávinning þess fyrir samfélagið. Guðrún Magnea heldur því utan á morgun með kynningu um Snæfellsnes í farteskinu, en hún mun halda erindi á ráðstefnu þar í landi um ferðaþjónustu og sjálfbærni. Erum við fullviss um að Guðrún Magnea verður frábær fulltrúi Snæfellinga þar ytra og er virkilega ánægjulegt að sjá önnur samfélög í heiminum horfa til okkar hér á Snæfellsnesi.

Við sendum Guðrúnu Magneu okkar allra bestu kveðjur og óskum henni góðrar ferðar! 

Róbotar, rafrásir og forritun í Snæfellsbæ

By Fréttir

Um páskana fyrirhugar Skema að halda skapandi tækninámskeið í Snæfellsbæ fyrir börn í 1. – 7. bekk. Námskeiðin fara fram í Grunnskólanum í Ólafsvík í næstu viku, dagana 16. og 17. apríl. Kennt verður báða dagana, þrjá tíma í senn, samtals 6 klst.

 • Námskeið fyrir yngri hóp stendur báða daga frá kl. 9:00 – 12:00.
 • Námskeið fyrir eldri hóp stendur báða daga frá kl. 13:00 – 16:00.

Skráningu lýkur 10. apríl. Verð: 10.000 krónur.

Hér má skrá börn á námskeið.

Skema er fyrirtæki sem nú er hluti af Háskólanum í Reykjavík og hefur frá stofnun unnið ötullega að því að kenna börnum og unglingum forritun með ýmsum fjölbreyttum tækninámskeiðum. Námskeiðin hafa það að leiðarljósi að styrkja ýmsa færni, m.a. rökhugsun, sköpun, félagsfærni, teymisvinnu, samskipti, betri sjálfsmynd og þrautalausnir.

Tvö námskeið verða í boði hér í bæ um páskana og má lesa nánar um þau hér að neðan:

Tækjaforritun fyrir 1. - 4. bekk

Á námskeiðinu fá nemendur tækifæri til að leysa hin ýmsu verkefni með því að skapa lausnir með LittleBits rafrásum. LittleBits eru lítríkir kubbar sem smellast saman með seglum til að endurspegla rafrásir og efla sköpunarkraft nemenda.

Á námskeiðinu verður einnig unnið með Makey Makey örtölvuna sem er frábært tæki sem breytir einföldum hlutum í stjórntæki fyrir tölvuna. Sem dæmi má nefna banana, blóm og hnífapör sem breytt er í hljóðfæri eða lyklaborð.

Nemendur fá einnig að kynnast hönnun tölvuleiks með Bloxels kubbum og hvernig hægt er að vekja hann til lífs með Bloxels appinu. Yngstu nemendurnir fá að kynnast því hvernig hægt er að lita mynd á blaði og sjá síðan lifandi þrívíða útgáfu í spjaldtölvu.

Við skoðum líka Raspberry Pi og hvernig hún hefur verið nýtt til að setja saman eitt stykki Kano tölvu og hvernig hægt er að nýta þá tölvu til að forrita og kynnast einföldum tölvuskipunum.

Svo má ekki gleyma róbótafjölskyldunni okkar en við setjum upp hinar ýmsu þrautir til að leysa með Ollie, Sphero og BB-8 róbótunum.

Forritun - grunnur fyrir 5. - 7. bekk

Á námskeiðinu er farið í gegnum grunnatriði forritunarmál með Scratch. Scratch er kubbaforritunarmál hannað til þess að kenna börnum grunnhugtök forritunar og forritunarlegrar hugsunar í einföldu og myndrænu umhverfi. Námskeiðið er kennt í gegnum litla leiki sem nemendur hanna og forrita með leiðbeinendum Skema.  Námskeið Skema byggja á hugtökum jafningjalærdóms og tilraunastarfsemi.

Með yngri þátttakendum notum við Kodu Game Lab, en það er enn einfaldara umhverfi sem krefst ekki mikis læsis og höfðar þess vegna betur til yngri þátttakenda.

Scratch er frítt forritunarumhverfi sem er aðgengilegt á netinu. Þetta gerir það að verkum að nemendur geta auðveldlega haldið áfram að fikta í og læra á forritun heimavið. Scratch er aðgengilegt á íslensku.

Framkvæmdir við Þjóðgarðsmiðstöð hefjast

By Fréttir

Mynd af framkvæmdasvæði Þjóðgarðsmiðstöðvarinnar.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu nú í morgun vegna framkvæmda við Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi:

Föstudaginn 5. apríl, hefjast framkvæmdir við Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. 1.sti áfangi framkvæmda er jarðvegsvinna. Grunnur hússins hefur þegar verið mældur út og framkvæmdir eru að hefjast. Í tilefni þess mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, heimsækja framkvæmdastað á föstudag klukkan 14:45, skoða aðstæður og spjalla við heimamenn og gesti. Boðið verður uppá kaffi og kleinur í Sjóminjasafninu á Hellissandi til að fagna upphafi þessa merka áfanga.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Aukinn opnunartími í upplýsingamiðstöðinni

By Fréttir

Snæfellsbær hefur ákveðið að mæta eftirspurn og bæta þjónustu við gesti með rýmri opnunartíma upplýsingamiðstöðvar í Ólafsvík. Nýr opnunartími tekur nú þegar gildi og verður opið sem hér segir:

3. apríl – 15. maí
Opið alla virka daga frá 10:00 – 16:00.

15. maí – 31. ágúst
Opið alla virka daga frá 8:00 – 19:00. Opið um helgar frá 9:00 – 17:00.

Upplýsingamiðstöðin er staðsett í Átthagastofu Snæfellsbæjar í Ólafsvík. Síðastliðið sumar sóttu þangað á um 7.000 ferðamenn í leit að upplýsingum, leiðbeiningum og öðrum ráðum og standa vonir til að með auknum opnunartíma geti upplýsingamiðstöðin stutt betur við þau fyrirtæki sem eru í ferðaþjónustu í Snæfellsbæ.

Kristinn nýr stjórnarformaður Lánasjóðs sveitarfélaga

By Fréttir

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, var kjörinn stjórnarformaður Lánasjóðs sveitarfélaga, á aðalfundi lánasjóðsins fyrir helgi. Kristinn hefur setið í stjórn lánasjóðsins frá árinu 1999, þar af sem varaformaður frá árinu 2005. Greinir Samband íslenskra sveitarfélaga frá þessu í fréttatilkynningu. 

Í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga voru auk Kristins kjörin; Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Guðmundur B. Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar og Helga Benediktsdóttir, deildarstjóri fjárstýringar Reykjavíkurborgar.

Nánar má lesa á vef Viðskiptablaðsins.