Monthly Archives

May 2019

Leikjanámskeið Víkings Ó. 2019

By Fréttir

Leikjanámskeið Víkings Ólafsvíkur hefst mánudaginn 3. júní 2019 kl. 9:00. Námskeiðið stendur í tvær vikur og verður ýmislegt brallað, m.a. farið á hestbak, í sund, heimsókn til björgunarsveitarinnar o.fl. Því er beint til foreldra og forráðamanna að klæða börn eftir veðri og senda þau með hollt og gott nesti með sér á námskeiðið.

Dagskrá fyrri viku leikjanámskeiðsins:

Mánudagur 3. júní – Skráning og leikir

Þriðjudagur 4. júní – Fossa- og skógarferð

Miðvikudagur 5. júní – Sund

Fimmtudagur 6. júní – Hestbak

Föstudagur 7. júní – Heimsókn til björgunarsveitarinnar

Dagskrá seinni viku leikjanámskeiðsins:

Mánudagur 10. júní – FRÍ / Hvítasunnuhelgi

Þriðjudagur 11. júní – Sveitaferð

Miðvikudagur 12. júní – Fjöruferð

Fimmtudagur 13. júní – Ratleikur

Föstudagur 14. júní – Lokahóf og grill

Byggingarútboð vegna Þjóðgarðsmiðstöðvar

By Fréttir

Ríkiskaup hafa auglýst byggingarútboð vegna framkvæmda við Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. Upplýsingar um framkvæmd og helstu stærðir má finna hér að neðan en þess má geta að skilafrestur er til 19. júní n.k. hyggist verktakar sækja um framkvæmdina.

Verkið felst í uppbyggingu nýrrar Þjónustumiðstöðvar í Þjóðgarði Snæfellsjökuls á Hellissandi. Bygging gestastofunnar mun hýsa fjölbreytta starfsemi þjóðgarðsins. Húsgrunnur nýbyggingar samanstendur af tveimur megin byggingum er tengjast með miðrými.  Hluti byggingar kragar út yfir grunna, þar sem ekki má valda yfirborðsskemmdum á landi umfram það sem óhjákvæmilegt er. Húsið er á einni hæð staðsteypt og stálvirki að hluta, klætt með lerki og cortens stáli.

Búið er að grafa fyrir húsi, grafa og fylla í bílastæði og setja upp heildargirðingu fyrir svæðið. Jarðvinna í þessu verki felst í að fylla í sökkla, fylla að húsi, grafa og endurfylla í lagnaskurði undir og meðfram húsi ásamt lóðarfrágangi. Um alla jarðvinnu gildir að lágmarka skal allt jarðrask, þannig að yfirborð lands umhverfis mannvirkin verði eins óhreyft eða ósnortið og mögulegt er. Í fyrra útboði var vinnusvæðið girt af. Verktaki tekur við þessum girðingum, sér um að viðhalda þeim til að hindra óviðkomandi umferð fari um svæðið. Verktaki tekur á sama hátt við aksturshliði og gönguhliði og sér til þess að þau séu lokuð utan vinnutíma. Byggingarreiturinn er á hornlóð og liggur þjóðvegur í þéttbýli, Útnesvegur, með henni að norðanverðu. Norðan við þjóðveginn er íbúðabyggð Hellissands.

Helstu stærðir:

Lóð: 11.340 m²

Brúttó flötur byggingar: 698 m²

Brúttó rúmmál: 2.400 m³,

Bílastæði á lóð: 55 stæði

Útboðsgögn má finna á nýjum útboðsvef Ríkiskaupa með því að smella hér.

Mynd tekin 5. apríl 2019 þegar framkvæmdir við jarðvinnu á lóð Þjóðgarðsmiðstöðvar hófust.

Skólaslit Grunnskóla Snæfellsbæjar

By Fréttir

Skólaslit í Grunnskóla Snæfellsbæjar verða föstudaginn 31. maí og hefjast kl. 12:00 í Íþróttahúsi Snæfellsbæjar. Athugið að ekki er kennt skv. stundatöflu, en nemendur mæta í íþróttahúsið kl. 11:50.

Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að koma og fylgja börnum sínum.

Rúta fer frá Hellissandi kl. 11:40 og til baka frá Ólafsvík að athöfn lokinni.

Vonumst til að sjá sem flesta,

Starfsfólk Grunnskóla Snæfellsbæjar.

Á mynd er hópurinn sem útskrifaðist 2018.

Lýsing vegna breytinga á aðalskipulagi vegna nýs golfvallar

By Fréttir

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur samþykkt lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015 – 2031 í samræmi 1. mgr. 30. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.

Lýsingin er gerð í samræmi við 30. grein skipulagslaga vegna fyrirhugaðrar breytingar á aðalskipulagi Snæfellbæjar 2015 – 2031. Fyrirhuguð breyting varðar nýjan golfvöll sunnan Rifs, en í gildandi aðalskipulagi var gert ráð fyrir golfvelli sunnan Hellissands. Talið er að ný staðsetning verði til þess að framkvæmdir verði mun minni að umfangi og hagkvæmari en sunnan Hellissands. Gert er ráð fyrir að á svæðinu sunnan Hellissands verði æfingasvæði fyrir golfáhugamenn. Hið nýja fyrirhugaða svæði fyrir golfvöll var óbyggt svæði í gildandi aðalskipulagi en breytist í íþróttasvæði.

Hægt er að skila ábendingum vegna lýsingarinnar til skipulags- og byggingarfulltrúa til 27. júní 2019. Skila skal athugasemdum skriflega til Tæknideildar Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, 360 Hellissandi eða á netfangið: byggingarfulltrui@snb.is

Lýsing vegna breytinga á aðalskipulagi vegna skógræktarsvæðis í Ólafsvík

By Fréttir

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur samþykkt lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015 – 2031 í samræmi 1. mgr. 30. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.

Lýsingin er gerð í samræmi við 30. grein skipulagslaga vegna breytingar á aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015 – 2031. Fyrirhuguð breyting varðar skógræktarsvæði í Ólafsvík. Annars vegar er áætlað að stækka skógræktarsvæði austast í bænum þannig að SL-1 verði samfellt svæði. Hins vegar er fyrirhugað nýtt skógræktarsvæði SL-2 í Enni. Í báðum tilvikum breytist landnotkun úr opnu svæði í skógræktarsvæði.

Hægt er að skila ábendingum vegna lýsingarinnar til skipulags- og byggingarfulltrúa til 27. júní 2019. Skila skal athugasemdum skriflega til Tæknideildar Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, 360 Hellissandi eða á netfangið: byggingarfulltrui@snb.is

Gallerí Jökull opnar í Ólafsvík

By Fréttir

Um helgina opnaði nýtt gallerí við Norðurtanga 3 í Ólafsvík, í gömlu húsarkynnum Sjávarsafnsins.

Að galleríinu, sem hefur fengið nafnið Gallerí Jökull, standa 22 einstaklingar úr Snæfellsbæ sem munu selja handverk og vandað úrval af handunnum vörum frá fólki héðan af svæðinu.

Opið verður alla daga frá 11 – 18 í sumar.

Nánar má fylgjast með hópnum og galleríinu og Facebook þar sem má sjá fjölmargar myndir af fallegum vörum.

Sjómannadagshelgin 2019

By Fréttir

Sjómannadagurinn í Snæfellsbæ á sér merkilega sögu og er einn af stóru menningarviðburðunum í bænum ár hvert. Áhafnirnar á Sveinbirni Jakobssyni SH, Esjari SH, Særifi SH og Tryggva Eðvars SH sáu um skipulagningu sjómannadagshelgarinnar í ár, og er hún sem hér segir:

Föstudagur 31. maí

19:00 Skemmtisigling frá Ólafsvík

 • Ólafur Bjarnason SH, Egill SH og Saxhamar SH. Rútuferðir frá N1 á Hellissandi kl. 18.20 og til baka kl. 23.30 frá Skeri í Ólafsvík.

20:00 Sjómannagarðurinn Ólafsvík:

 • Grillveisla í boði áhafnanna sem sjá um helgina í Snæfellsbæ og Söluskála Ó.K. Á pallinum verða Kristján Guðnason og Sísí Ástþórsdóttir og halda uppi stuðinu. Hoppukastalar á svæðinu í boði FMÍ og FMS.

Laugardagur 1. júní

11:00 Dorgveiðikeppni á Norðurgarði í Ólafsvík. Umsjón Sjósnæ.

13:00 Við höfnina á Rifi.

 • Kappróður, flekahlaup, þrautakeppni, reiptog og fl.
 • Fiskisúpa í boði: Sveinbjörn Jakobsson SH, Esjar SH, Særif SH og Tryggvi Eðvarðs SH.
 • Hoppukastalar á svæðinu í boði FMÍ og FMS.

20:00 Sjómannahóf í Félagsheimilinu Klifi

 • Húsið opnar kl. 19:15.
 • Matur frá Galito. Sóli Hólm er veislustjóri.
 • Sjómannskonur heiðraðar.
 • Minni sjómanna.
 • Áskorandakeppni sjómanna.
 • Hljómsveitin Bandmenn spilar fyrir dansi fram á rauða nótt.

Sunnudagur 2. júní – Ólafsvík

08:00 Fánar dregnir að húni

13:00 Í Sjómannagarðinum í Ólafsvík (fært inn í kirkju ef veður er vont)

 • Ræðumaður
 • Sjómenn heiðraðir
 • Tónlistaratriði Tónlistarskóla Snæfellsbæjar
 • Sjómannamessa í Sjómannagarðinum

14:00 – 16:30 Sjómannakaffi

 • Slysavarnardeild Helgu Bárðar og Sumargjafar býður í kaffi í björgunarmiðstöðinni Von.

15:30 Leikhópurinn Lotta

 • Í Tröð á Hellissandi í boði HH og KG. (Fært inn í Röst ef veður er vont.)

Sunnudagur 2. júní – Hellissandur og Rif

08:00 Fánar dregnir að húni

11:00 Sjómannamessa að Ingjaldshóli

13:00 Hátíðardagskrá í sjómannagarði Hellissands (fært inn í Röst ef veður er vont)

 • Hátíðarræða
 • Aldraður sjómaður heiðraður
 • Söngatriði Tónlistarskóla Snæfellsbæjar
 • Í Sjóminjasafninu opna sýningarnar „Sagan okkar“ inni í safninu og „Landnámsmenn í vestri“ á útisvæði safnsins.

14:00 – 16:30 Sjómannakaffi

 • Slysavarnardeild Helgu Bárðar og Sumargjafar býður í kaffi í björgunarmiðstöðinni Von.

15:30 Leikhópurinn Lotta

 • Í Tröð á Hellissandi í boði HH og KG. (Fært inn í Röst ef veður er vont.)

Auglýst útboð vegna lengingu Norðurgarðs í Ólafsvík

By Fréttir

Hafnarstjórn Snæfellsbæjar óskar eftir tilboði vegna framkvæmda við við höfnina í Ólafsvík.

Um er að ræða lengingu Norðurgarðs í Ólafsvík um 80 m.

Helstu magntölur:

 • Útlögn grjóts og kjarna samtals um 36.000 m3
 • Upptekt og endurröðun um 2.000 m3.

Verkinu skal lokið eigi síðar en 1. desember 2019.

Útboðsgögn verða afhent hjá Vegagerðinni, Borgartúni 7 í Reykjavík (móttaka), og á hafnarskrifstofu Snæfellsbæjar, Norðurtanga 5 í Ólafsvík, frá og með mánudeginum 20. maí 2019.

Skila skal tilboðum á sömu stöðum fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 4. júní 2019 og verða þau opnuð þar kl. 14:15 þann dag.

Ljósmynd: Sindri Snær Matthíasson

Ný crossfit stöð opnar í bænum

By Fréttir

Glæsileg crossfit stöð opnaði um síðastliðna helgi í Rifi.

Vinkonurnar Gestheiður og Kristfríður standa að opnun stöðvarinnar í húsnæði sem reist var á sínum tíma sem hluti af vatnsverksmiðjunni sem aldrei varð og hefur staðið tómt um árabil.

Það er því sérlega ánægjulegt að ungt og atorkusamt heimafólk sjái tækifæri í að nýta húsnæðið og stofna hér nýtt fyrirtæki.

Viltu vera með sölubás á Ólafsvíkurvöku?

By Fréttir

Ólafsvíkurvaka verður haldin 5. – 7. júlí n.k. og er óhætt að segja að dagskrá verði með glæsilegasta móti í ár. Skipulag hennar er enn í vinnslu og verður kynnt þegar nær dregur.

Á laugardeginum verður settur upp markaður nærri Sáinu og er óskað eftir þátttöku íbúa, félagasamtaka eða fyrirtækja.

Þeir sem hafa áhuga á því að vera með sölubás á markaðnum eru hvattir til að snúa sér til Laufeyjar Kristmundsdóttur. Hún tekur við skráningum. Síminn hjá henni er 899 6904.

Ljósmynd: Frá Ólafsvíkurvöku 2015 /af