Monthly Archives

June 2019

Opnun tilboða í byggingu Þjóðgarðsmiðstöðvar

By Fréttir

Í dag voru opnuð tilboð í uppbyggingu Þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi. Búið er að grafa fyrir húsi, grafa og fylla í bílastæði og setja upp heildargirðingu fyrir svæðið.

Þrjú tilboð bárust í byggingarútboðið eins og sjá má hér að neðan. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á kr. 461.126.638.- 

Heildartilboðsverð með vsk:

 1. Eykt Tilboð hljóðar upp á kr. 716.266.031.-
 2. Framkvæmdafélagið Arnarhvoll Tilboð hljóðar upp á kr. 737.793.341.-
 3. Ístak Tilboð hljóðar upp á 621.983.190.-

Tilboðin liggja nú á borði Framkvæmdasýslu Ríkisins og Ríkiskaupa sem taka þau fyrir.

Snæfellsjökulshlaupið verður um helgina

By Fréttir

Snæfellsjökulshlaupið verður haldið í níunda skipti n.k. laugardag, 29. júní. Sem fyrr hefst hlaupið á Arnarstapa kl. 12 á hádegi og búast má við fyrstu keppendum í mark í Ólafsvík um 90 mínútum síðar.  Vakin er athygli á því að Ólafsbraut verður lokuð að hluta rétt á meðan þátttakendur skila sér í mark.

Snæfellsjökulshlaupið hefur vakið mikla athygli frá því það var haldið fyrst og er hlaðið viðurkenningum. Það er jafnan talað um það sem eitt af skemmtilegri hlaupum landsins og hefur það verið kosið eitt af þremur bestu utanvegahlaupum landsins skv. kosningu á vefsíðunni hlaup.is í fimm af þessum árum, þ.á m. besta utanvegahlaup landsins 2012 og 2016.

Hlaupið er um 22 km leið í einstakri náttúrufegurð; frá Arnarstapa, yfir Jökulhálsinn og til Ólafsvíkur. Fyrstu átta kílómetrana er hækkun um ca. 700 metra en eftir það tekur hlaupaleiðin að lækka smá þar til komið er á jafnsléttu við Ólafsbraut í Ólafsvík.

Áhugasamir geta skráð sig til leik með því að smella hér, forskráning opin til fimmtudags 27. júní. Einnig hægt að skrá sig á staðnum.

Áfram Rán og Fannar!

Ljósmynd fengin af Facebook-síðu Snæfellsjökulshlaupsins.

Götulistahátíð á Hellissandi – myndir

By Fréttir

Um helgina var mikið líf og fjör á götulistahátíð á Hellissandi þar sem listamenn frá öllum heimshornum í bland við heimamenn skemmtu gestum og gangandi með listsýningum af öllum toga. Fjöldi gesta lagði leið sína á Hellissand og tóku þátt í þessari fyrstu götulistahátíð sem haldin hefur verið hér í Snæfellsbæ.

Við leyfum nokkrum myndum að fylgja.

Frisbígolfvellir í Ólafsvík, Rifi og Hellissandi

By Fréttir

Nýlega var ákveðið að setja upp aðstöðu til að spila frisbígolf í Ólafsvík, á Hellissandi og Rifi. 

Frisbígolf er íþrótt sem nýtur sífellt meiri vinsælda hér á landi en það er í samræmi við það sem er að gerast um allan heim. Íþróttin er einföld og felst í því að koma frisbídisk í mark í sem fæstum köstum. Markið er karfa eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem tekin var í Tröð á Hellissandi.

 • Í Ólafsvík eru fjórar holur í Sjómannagarðinum. Frisbídiska má nálgast á Kaldalæk á opnunartíma.
 • Á Hellissandi eru fjórar holur í Tröð. Frisbídiska má nálgast í Hraðbúðinni N1 á opnunartíma.
 • Á Rifi verða settar upp fjórar holur eftir helgi. Frisbídiska verður hægt að nálgast í Frystiklefanum.

„Frisbígolfvellirnir“ eru opnir allan sólarhringinn þannig að þeir sem eiga frisbígolfdiska geta að sjálfsögðu stundað þessa íþrótt þegar þeim hentar að því gefnu að sýnd verði tillitsemi við íbúa í nærliggjandi húsum.

Eru bæjarbúar hvattir til að nýta sér aðstöðuna og prófa þessa skemmtilegu íþrótt sem hægt er að stunda á öllum aldri.

Opnun listasýningarinnar Nr. 3 Umhverfing

By Fréttir

Verk eftir Þórdísi Öldu Sigurðardóttir í Sjómannagarðinum á Hellissandi.

Ein stærsta samlistasýning sem sett hefur verið upp á Íslandi opnar víðs vegar á Snæfellsnesi um helgina. Listasýningin ber heitið Nr. 3 Umhverfing og er haldin á vegum Akademíu skynjunarinnar í samstarfi við Svæðisgarðinn Snæfellsnes.

Sýningin er einstök að því leyti að óskað var sérstaklega eftir einstaklingum sem eiga rætur að rekja á Snæfellsnes og má því segja að flestir listamanna tengist Snæfellsnesi með beinum hætti, en markmið verkefnisins er einmitt að setja upp myndlistarsýningar á verkum myndlistarmanna í þeirra „heimabyggð”.

Opnunarhátíð sýningarinnar verður haldin samhliða opnun nýrrar Gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki og stendur frá kl. 12 – 14 í félagsheimilinu Breiðabliki í Eyja- og Miklaholtshreppi laugardaginn 22. júní.

Áhugasamir eru hvattir til að líta við á opnun gestastofunnar og listasýningarinnar á Breiðabliki um helgina.

Götulistahátíð á Hellissandi um helgina

By Fréttir

Næstu helgi verður haldin fyrsta alþjóðlega götulistahátíðin í Snæfellsbæ. Það er Frystiklefinn sem hefur unnið að skipulagi hátíðarinnar síðstu mánuði og hefur nú birt dagskrá, sjá meðfylgjandi mynd.

Hátíðin er hluti af samningi sem Frystiklefinn og Snæfellsbær gerðu með sér í upphafi þessa árs. Samningurinn felur m.a. í sér að Frystiklefinn haldi alþjóðlegar hátíðir á sviði kvikmynda-, tónlistar- og götulistaverka sem íbúar Snæfellsbæjar geta sótt sér að kostnaðarlausu. Hátíðin um helgina fellur í síðastnefnda flokkinn.

Götulistahátíðin verður haldin á Hellissandi um n.k. helgi og má búast við lifandi stemningu um allan bæ. Skipulögð dagskrá fer þó að mestu leyti fara fram við Höskuldará þar sem verða leiksýningar, danssýningar, tónlistaratriði, andlitsmálun, hoppukastalar, ærslabelgur, flóamarkaður og ýmislegt fleira. Þá má ekki gleyma að minnast á öll listaverkin sem máluð hafa verið á hús í bænum, en þau telja nú um 30 talsins og það nýjasta, á húsgafli gamla íþróttahússins á Hellissandi, hefur nú þegar vakið mikla athygli.

Stuð og stemning á Hellissandi um helgina – höfuðborg götulistaverka á Íslandi.

Pétur Steinar Jóhannsson er Snæfellsbæingur ársins 2019

By Fréttir

Við hátíðlega athöfn í Sjómannagarðinum á þjóðhátíðardaginn hlaut Pétur Steinar Jóhannsson nafnbótina Snæfellsbæingur ársins 2019.

Höfðu sumir á orði að viðeigandi væri að Pétur Steinar tæki við nafnbótinni í Sjómannagarðinum í Ólafsvík, enda hefur hann unnið ötult starf við útgáfu á Sjómannablaðinu til áratuga og lagt á sig óeigingjarna vinnu við endurbætur á Sjómannagarðinum sjálfum.

Það er menningarnefnd Snæfellsbæjar sem hefur veg og vanda af útnefningunni ár hvert, en að þessu sinni óskaði nefndin einnig eftir tilnefningum frá íbúum Snæfellsbæjar. Var það samróma niðurstaða nefndar og íbúa að Pétur Steinar Jóhannsson ætti viðurkenningu skilið fyrir framlag sitt til bæjarins.

Er Pétri hrósað í hvívetna fyrir að skrá sögu sjómennsku hér í Snæfellsbæ og halda henni á lofti. Við óskum Pétri innilega til hamingju með nafnbótina og teljum hann vel að henni kominn.

Ljósmynd: Jóhannes Ólafsson/Steinprent

Kristfríður Rós er fjallkona Snæfellsbæjar 2019

By Fréttir

Fjallkona Snæfellsbæjar árið 2019 er Kristfríður Rós Stefánsdóttir.

Hún steig á svið við hátíðlega athöfn í Sjómannagarðinum í Ólafsvík í dag og flutti ljóð Einars Benediktssonar, Til fánans, í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní.

Til fánans

Rís þú, unga Íslands merki,
upp með þúsund radda brag.
Tengdu í oss að einu verki
anda, kraft og hjartalag,
Rís þú Íslands stóri, sterki
stofn með nýjan frægðardag.

Skín þú, fáni, eynni yfir
eins og mjöll í fjallahlíð.
Fangamerkið fast þú skrifir
fólks í hjartað ár og síð.
Munist hvar sem landinn lifir
litir þína alla tíð.

Meðan sumarsólir bræða
svellin vetra um engi og tún
skal vor ást til Íslands glæða
afl vort undir krossins rún,
djúp sem blámi himinhæða,
hrein sem jökultindsins brún.

Einar Benediktsson

Dagskrá 17. júní

By Fréttir

Glæsileg hátíðardagskrá er fyrir alla fjölskylduna á 17. júní í Snæfellsbæ. Sérstök athygli er vakin á því að dagskráin verður í Sjómannagarðinum í Ólafsvík.

Kl. 10:30 Landsbankahlaup.

 • 5 ára og yngri hlaupa 500 metra.
 • 6-8 ára hlaupa 1,3 km
 • 9-11 ára hlaupa 2,5 km
 • 12-16 ára hlaupa 3,5 km

Kl. 13:00 Unglingadeildin Drekinn málar krakka í íþróttahúsinu og undirbýr fyrir skrúðgöngu.

Kl. 13:45 Skrúðganga frá íþróttahúsi Snæfellsbæjar.

Kl. 14:00 í Sjómannagarðinum í Ólafsvík

 • Kynnir hátíðarinnar: Sigyn Blöndal
 • Hátíðin sett: Svandís Jóna Siguarðardóttir
 • Ávarp Fjallkonu
 • Helgistund: Sr Arnaldur Máni Finnsson ásamt kirkjukórum í Snæfellsbæ
 • Snæfellsnes sterkar stelpur sýna dans
 • Ræða nýstúdents: Unnur Eir Guðbjörnsdóttir
 • Tónlistaratriði: Hlöðver Smári Oddsson
 • Snæfellsbæingur ársins tilnefndur
 • Hestaeigendafélagið Hringur kemur ríðandi inn í bæinn og leyfir börnum að fara á bak.
 • Sjoppa, hoppukastalar og frisbygolf og kassaklifur í umsjón Unglingadeildarinnar Drekans.

Kl. 16:00 á Ólafsvíkurvelli

 • Víkingur Ólafsvík tekur á móti Keflavík í Inkasso-deildinni.

Gleðilega hátíð!

Kvennahlaup ÍSÍ á morgun, 15. júní

By Fréttir

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður í Ólafsvík 15. júní og verður hlaupið frá Sjómannagarðinum kl. 11:00.

Í ár er 30 ára afmæli Kvennahlaupsins en þetta er í 29. skiptið sem það er haldið í Ólafsvík.

Vegalengdir sem eru í boði eru 2,5 km. og 5 km. Forsala í sundlauginni. Þátttökugjald fyrir 12 ára og yngri er 1.000 kr. og fyrir 13 ára og eldri er gjaldið 2.000 kr. Kvennahlaupsbolur, buff, Kristall og Nivea vörur fylgja þátttökugjaldi og einnig verður frítt í sund. Að auki verður ávaxtaveisla í boði eftir hlaup og glæsilegir happdrættisvinningar dregnir út.

Elfa E. Ármannsdóttir og Sigríður Þórarinsdóttir sjá um hlaupið.