Monthly Archives

July 2019

Ólafsvíkurvaka í sól og blíðu – myndir

By Fréttir

Fjölmenni var á bæjarhátíðinni Ólafsvíkurvöku sem fór fram um helgina. Veðrið lék við íbúa og gesti sem nutu dagskrár í sól og blíðu. Dagskrá hófst skömmu eftir hádegi á föstudegi og lauk með dansleik Stjórnarinnar í félagsheimilinu Klifi aðfararnótt sunnudags.

Dagskrá var með eindæmum glæsileg og flestir viðburðir vel sóttir.

Við leyfum nokkrum myndum að fylgja og vekjum athygli á að hægt er að smella á þær til að skoða í hærri upplausn.

 

Veruleg fjölgun Íslendinga á tjaldsvæðum

By Fréttir

Tjaldsvæðið á Hellissandi í lok júní 2019

Íslendingum hefur fjölgað verulega á tjaldsvæðum Snæfellsbæjar það sem af er sumri. Í nýliðnum júnímánuði töldu Íslendingarnir sem dvöldu á tjaldsvæðunum 501 manns samanborið við 131 í sama mánuði í fyrra, eða rétt ríflega 380% fjölgun milli ára.

Heildargestum í júní fækkaði þó lítillega milli ára og skýrist það að hluta til vegna þess að útilegukortið er ekki í notkun á tjaldsvæðunum þetta árið. Hlutfall íslenskra gesta er þó töluvert hærra, 15% í ár samanborið við 3% í fyrra.

Þess má geta að tjaldsvæðin eru bæði á fallegum stöðum. Á Hellissandi er það í Sandahrauni, með útsýni yfir Snæfellsjökul og Krossavík, í næsta nágrenni við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Í Ólafsvík er það staðsett neðst í fallegri hlíð við útjaðar bæjarins með gott útsýni yfir dalinn.

Á tjaldsvæðinum má finna eftirfarandi þjónustu:

 • Klósett (aðgengi fyrir fatlaða)
 • Sturta (aðgengi fyrir fatlaða í Ólafsvík)
 • Heitt og kalt vatn
 • Eldunaraðstaða
 • Vaskarými
 • Úrgangslosun
 • Rafmagn/rafmagnstenglar
 • Internet
 • Leikvellir
 • Gönguleiðir

Hér má nálgast verðskrá fyrir 2019.

Samvera er besta forvörnin

By Fréttir

Sumarið er tími tækifæra fyrir fjölskylduna að verja meiri tíma saman og safna góðum minningum.

Niðurstöður rannsókna sýna að börn og unglingar sem verja tíma með foreldrum sínum eru síður líklegir til að sýna ýmis konar áhættuhegðun og viljum við því taka upp erindi frá SAMAN-hópnum og hvetja foreldra og forráðamenn til að verja tíma með börnum sínum. Samvera er besta forvörnin.

Fjölskyldur geta fengist við ýmislegt sem þarf ekki að kosta mikið eða jafnvel ekki neitt og viðfangsefnin þurfa jafnframt ekki að vera flókin; aðalmálið er að fjölga samverustundum, taka þátt í leik með börnunum og hafa gaman saman.

Jafnframt eru samræður foreldra og barna og unglinga mikilvægur þáttur þar sem foreldrar og börn ræða sjónarmið sín og hugmyndir.

Gefum okkur tíma til að safna góðum fjölskylduminningum í sumar.

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að börn og unglingar foreldra sem beita ákveðnum aðferðum í uppeldi, svokölluðum leiðandi uppeldisháttum, sýna síður merki um þunglyndi, kvíða og áhættuhegðun, s.s. vímuefnaneyslu og afbrotahneigð. Leiðandi uppeldi ýtir jafnframt undir þroska, virkni, sjálfstæði, sjálfsaga og sjálfstraust hjá börnum og unglingum. Það sem einkennir leiðandi foreldra er að þeir krefjast þroskaðrar hegðunar af börnum sínum og unglingum, sýna mikla umhyggju en setja um leið skýr mörk.

Foreldrar eru einnig bestu lestrarfyrirmyndir barna sinna svo við hvetjum til þess að öll fjölskyldan lesi saman. Benda má á Sumarlæsisdagatal Menntamálastofnunar sem inniheldur 31 skemmtilega leið að lestri. 

Dagatölin hafa einnig verið gefin út á ensku og pólsku.

Dagatölin eru öll til án texta þannig að hægt er að fylla inn í þau með eigin hugmyndum. 

Hér má finna fróðleik sem gagnast foreldrum við læsisuppeldi:

Gleðilegt samveru og lestrarsumar!

Leikskólakennari óskast

By Fréttir

Leikskóli Snæfellsbæjar auglýsir stöðu leikskólakennara lausa til umsóknar.

Um er að ræða stöðu leikskólakennara í 100% starfshlutfalli, frá og með 14. ágúst 2019.

Menntunar og hæfniskröfur:

 • Leikskólakennararéttindi
 • Góð íslenskukunnátta
 • Áhugi, reynsla og hæfni í starfi með börnum
 • Góðir samskiptahæfileikar
 • Jákvæðni, frumkvæði og góður samstarfsvilji
 • Góð færni í mannlegum samskiptum
 • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • Hreint sakavottorð

Fáist ekki menntaðir leikskólakennarar eða fólk með aðra uppeldismenntun og/eða reynslu kemur til greina að ráða leiðbeinendur tímabundið í lausar stöður.

Laun samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags og starfið hentar jafnt konum sem körlum.

Umsóknarfrestur er til 10. ágúst. Atvinnuumsókn má finna á vef Snæfellsbæjar og umsókn má skila á netfang leikskólans leikskólar@snb.is.

Nánari upplýsingar veitir:

Inga Stefánsdóttir, leikskólastjóri. S: 6910383

 

Dagskrá Ólafsvíkurvöku 2019

By Fréttir

Bæjarhátíðin Ólafsvíkurvaka verður haldin hátíðleg 4. – 7. júlí n.k. og er dagskrá með glæsilegasta móti. Mikið er lagt upp úr fjölbreyttri og vandaðri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Dagskrá má sjá hér að neðan. Þá má smella hér til að ná í dagskrá í pdf formi.

Góða skemmtun!

Fimmtudagur 4. júlí:

Bæjarbúar hittast í sínum hverfum og skreyta.

Kl. 21:00 Tónleikar með Lay Low í Frystiklefanum.

Föstudagur 5. júlí:

Kl. 14 – 15 Krakka Crossfit á sparkvellinum. KrakkaWod fyrir 6 – 15 ára á vegum CF SNB.

Kl. 16:00 Skákkennsla í íþróttahúsi Snæfellsbæjar.
Hrafn Jökulsson. Skráning á staðnum. Allur aldur.

Kl. 17 – 19 Hoppukastalar opnir við Sáið.

Kl. 17:30 Dorgveiðikeppni Sjósnæ og grillveisla á bryggjunni eftir keppni í boði Hafkaups.

Kl. 19:30 – 20 TM boltaþrautir og vítaspyrnukeppni fyrir krakka á sparkvellinum.
Úrslit fara svo fram í hálfleik Víkings og Aftureldingar ca. 20:45.

Kl. 20:00 Víkingur – Afturelding á Ólafsvíkurvelli.

Kl. 22 – 00 Garðpartý í Sjómannagarðinum.
Trausti Leó og Lena haldi uppi fjörinu í boði Olís-Rekstrarlands.

Kl. 00 – 03 Lifandi tónlist fram eftir nóttu á Sker Restaurant.

Laugardagur 6. júlí:

Kl. 9:30 Kassinn Þín Verslun Golfmót á Fróðárvelli.

Ræsing á öllum teigum. Minnum á skráningu á golf.is

Kl. 9:30 Skákmót í íþróttahúsi Snæfellsbæjar. Allir aldurshópar.

Kl. 11:30 – 13 Ólafsvíkurdraumurinn.
Skemmtilegur leikur fyrir fjölskyldur eða vinahópa, mæting í Átthagastofu. Skráning á staðnum, 3 – 5 í hverju liði. Lið verða ræst út kl. 12:00 stundvíslega.

Kl. 12 – 13:30 Átthagaganga
Leiðsögn Sævar Þórjónsson og Jenný Guðmundsdóttir. Gengið verður frá bílastæðinu við kirkjugarð Ólafsvíkur.

Kl. 13 – 17 Dagskrá við Sáið.

 • Markaður og sölubásar
 • Frisbígolf
 • Sápubolti
 • Hestamannafélagið Hringur teymir undir börnum
 • Húsdýragarður

Kl. 13 – 17 Byssusýning í boði Skotveiðifélagsins Skotgrundar, Snæfellsnesi.
Í húsnæði Hobbitans á Ólafsbraut 19.

Kl. 14 Hátíðardagskrá á Þorgrímspalli:

 • Kynnir er Guðmundur Jensson
 • Kristinn Jónasson, bæjarstjóri, setur hátíðina
 • Pæjudans
 • Eir og Melkorka taka lagið
 • Samúel sýnir töfrabrögð
 • Alda Dís syngur nokkur lög
 • Verðlaunaafhendingar
 • Herra Hnetusmjör tekur nokkur lög

Kl. 16 – 17 BMX Brós verða með sýningu á plani fyrir framan Fiskmarkað Íslands.

Kl. 20:30 Skrúðgöngur úr hverju hverfi leggja af stað og sameinast í Sjómannagarðinum.

Kl. 21 Sjómannagarðurinn

 • Hverfaatriði
 • Brekkusöngur með Jóni Sigurðssyni
 • Verðlaunaafhendingar

Kl. 00 Dansleikur í Félagsheimilinu Klifi með Stjórninni.
Húsið opnar kl. 23:00. Miðaverð 3900. 18 ára aldurstakmark.