Monthly Archives

September 2019

Landsæfing björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Snæfellsbæ

By Fréttir

Á laugardaginn verður mikið um að vera í bænum þegar landsæfing Slysavarnarfélagsins Landsbjargar verður haldin í Snæfellsbæ. Við birtum hér bréf sem V. Lilja Stefánsdóttir ritar fyrir hönd undirbúningshópsins á svæði 5.

Laugardaginn 5. október n.k. verður landsæfing björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar haldin í Snæfellsbæ. Svæðisstjórn á svæði 5 og fulltrúar björgunarsveitanna á Snæfellsnesi og í Dölum bera hitann og þungan af undirbúningi og framkvæmd æfingarinnar. Leitað hefur verið lengi eftir aðstoð slysavarnadeildanna á svæðinu, líkt og gerist þegar útköll verða.

Gert er ráð fyrir um 300 þátttakendum víðs vegar að af landinu auk þess sem nokkrir félagar okkar frá Færeyjum og Noregi hafa sýnt áhuga fyrir þátttöku. Æfingasvæðið verður afmarkað frá Fróðárheiði og út fyrir Saxhól og verða æfingar með fjölbreyttu sniði. Æfingapóstar (verkefni) verða 60 – 70 talsins og má þar nefna fjalla- og rústabjörgun, leitarverkefni, fyrsta hjálp, báta- og tækjaverkefni. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með æfingunni, en vinsamlegast virðið æfinga- og athafnasvæði þátttakenda (björgunarsveitanna).

Æfingin hefst kl. 9:00 og lýkur með sameiginlegum kvöldverði í Félagsheimilinu Klifi, þar sem slysavarnadeildirnar á svæði 5 sjá til þess að allir fari saddir og sælir af svæðinu.

Björgunarsveitirnar í landinu eru reknar með vinnuframlagi sjálfboðaliða. Eins og allir vita reiða landsmenn sig á óeigingjarnt starf þeirra þegar kemur að því að leita aðstoðar af ýmsu tagi. Rekstur björgunarsveita er háður styrkjum og fjárframlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum, sala á neyðarkallinum í nóvember er hluti af fjáröflunarleiðum.

Verkefni sem þetta er mannfrekt, bæði í undirbúningi og framkvæmd og þar eru sjálfboðaliðar í öllum hlutverkum. Til þess að æfingar gangi sem best og verði sem trúverðugastar þarf verkefnastjóra við hvert verkefni og í mörgum tilfellum „sjúkling/sjúklinga“. Smærri æfingar verða endurteknar nokkrum sinnum yfir daginn og á sumum æfingasvæðum verða mörg verkefni í gangi. Því biðlum við til allra þeirra sem hafa reynslu eða þekkingu sem gæti nýst við verkefnastjórn og einnig þeirra sem eru tilbúnir til að leika sjúklinga að hafa samband við Jóhönnu Maríu í síma 865 4548 eða Ægi í síma 848 5256. Öll aðstoð er vel þegin og þátttaka í verkefni sem þessu er í flestum tilfellum mjög gefandi. Gætt verður að öryggi sjúklinga og engin áhættuatriði í boði!

Lýðheilsuganga 25. september – breytt áætlun

By Fréttir

Á morgun verður farið í síðustu lýðheilsugöngu þessa mánaðar þegar gengið verður um Seljadal. Samkvæmt auglýstri áætlun var stefnt að því að ganga um Búðarklett í síðustu lýðheilsugöngunni, en sökum þess að fresta þurfti göngunni um Seljadal í síðustu viku hefur verið ákveðið að fara í hana að þessu sinni.

Á morgun verður því gengið um Seljadal í stað Búðarkletts.

Miðvikudagur 25. september
Seljadalur
Lagt af stað frá íþróttahúsinu á Hellissandi kl 17:35 og frá íþróttahúsinu í Ólafsvík kl. 17:45
Um að gera að safnast saman í bíla
Fararstjóri:  Árni Guðjón Aðalsteinsson

Snæfellsbær endurtekur leikinn frá síðasta ári og býður í gönguferðir í samstarfi við Ferðafélag Íslands alla miðvikudaga í september. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60 – 90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Vonandi reima sem flestir á sig gönguskóna með okkur í september, fara út í náttúruna og njóta náttúrufegurðarinnar sem við erum svo lánsöm að búa við.

Göngurnar hefjast alltaf kl. 18:00 (nánari tímasetning við hverja göngu ef þarf að keyra á staðinn).

Vinabæjarheimsókn til Vestmanna

By Fréttir

Nú á haustdögum lögðu 5 af 7 bæjarfulltrúum Snæfellsbæjar, ásamt mökum, af stað í vinabæjarheimsókn til Vestmanna í Færeyjum en vinabæjarsamstarf á milli Vestmanna  og Snæfellsbæjar hófst fyrir 20 árum.

Vestmanna er bær á Straumey sem er ein af 18  eyjum Færeyja, með um 1200 íbúa, en einungis 2 eyjar í eyjaklasanum eru ekki í byggð.  Færeyjar, eða fjáreyjar, eru  kenndar við sauðfé, enda mun meira af sauðfé í Færeyjum en mannfólki og alls staðar sáum við kindur hvert sem við fórum okkur til mikillar gleði.

Við komuna til Vestmanna var tekið á móti okkur á bæjarskrifstofunni og þaðan var svo haldið beint með rútu í skoðunarferð. Margir fallegir staðir voru heimsóttir og einstaklega gaman að koma á þá staði sem “færeyskir Ólsarar” komu frá, eins og t.d. Ríkharð Jónsson sem var frá Saksun, sem er orðinn einn vinsælasti ferðamannastaður Færeyja enda umlukin stórkostlegri náttúrufegurð hvert sem litið er.

Það var einstaklega gaman að koma til Tjornevikur þar sem tíminn hefur nánast staðið í stað. Þar var okkur boðið í kaffi og vöfflur í heimahúsi, þar sem húsráðandinn var alinn upp í 11 manna fjölskyldu um miðja síðustu öld, í svo ótrúlega litlu húsi þar sem lofthæðin var ekki mikil en hlýjan og notalegheitin einstök og ætluðum við ekki að hafa okkur í að standa upp úr sófunum og halda áfram ferðinni.  Við þurftum síðan reyndar að breyta ferðaplaninu og stytta útsýnisferðina sökum slæms skyggnis og mikillar rigningar.

Okkur var svo boðið til glæsilegs kvöldverðar í húsakynnum heilsugæslustöðvarinnar í Vestmanna um kvöldið, en farið var snemma í háttinn þar sem dagskrá morgundagsins var þétt skipuð.  Morguninn eftir var haldið snemma af stað í siglingu um Vestmannabjörgin. Einnig stóð til að sigla með okkur til Mykiness, sem er vestust Færeyja og aðeins 11km2 að stærð með einungis 10 fasta íbúa í dag,  en við komumst því miður ekki sökum mikillar ölduhæðar og vinda. En þvílík fegurð að sigla um Vestmannabjörgin og horfa upp og sjá kindurnar á beit í snarbröttum hlíðum alls staðar fyrir ofan okkur.

En trúið mér, í þessari ferð komu svokallaðar sjóveikistöflur að góðum notum, allavega fyrir sum okkar! Að siglingu lokinni héldum við aftur af stað og skoðuðum fleiri fallega staði meðal annars Kirkjubæ sem er  lítið þorp á vestan-verðri Straumey en þar er að finna fornt  biskupssetur frá  miðöldum og því Kirkjubær einn helsti sögustaður eyjanna. 

Að lokum héldum við til höfuðstaðarins Þórshafnar, eða Havn eins og heimamenn segja, þar sem við gistum í 2 nætur og héldum áfram að skoða okkur um. Við fengum höfðinglegar móttökur hjá frændum okkar Færeyingum og eftir að hafa meðal annars bragðað á skerpikjöti, sem er vindþurrkað kindakjöt þurrkað í hjalli í 5-9 mánuði eða jafnvel í heilt ár, og rastakjöti sem er einnig  kindakjöt en látið hanga í mun styttri tíma en skerpikjötið, gjarnan um tvo mánuði, héldum við heim á leið með gleði í hjarta og ögn meiri jarðtengingu eftir samvistir við vini okkar í Vestmanna.

Í heimsóknum  sem þessum hefur tíðkast að færa hvoru bæjarfélagi gjafir í þakklætisskyni fyrir góðar móttökur.  Færðum við Vestmanna fallega mynd af Snæfellsjökli eftir Vigdísi Bjarnadóttur og bæjarfulltrúum færðum við útskorin trébretti eftir Vigfús Vigfússon. Vöktu þessar gjafir mikla lukku enda bæði Vigdís og Vigfús einstakir listamenn sem við erum stolt af að eiga og okkur þótti við hæfi að færa list þeirra út fyrir landsteinana. Bæjarstjórn Vestmanna færði okkur málverk af Mykines þar sem við komumst ekki þangað sökum brælu og færðu þau okkur það á málverki í staðinn.

Vinabæjarsambönd sem þessi eru hverju bæjarfélagi dýrmæt.  Þau auka víðsýni og mynda sterk tengsl um ókomin ár sem okkur ber að hlúa að og gera sýnilegri bæjarbúum og ekki síst skólabörnum.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Snæfellsbæjar,

Júníana Björg Óttarsdóttir 

Hugmyndasöfnun fer vel af stað

By Fréttir

Samráðsverkefnið Betri Snæfellsbær fer vel af stað. Opnað var fyrir tillögur um framkvæmdir og viðhaldsverkefni frá íbúum Snæfellsbæjar nú fyrir helgi og hafa þegar borist sjö tillögur.

Betri Snæfellsbær virkar þannig að allir geta sett fram tillögu að framkvæmd, stórri sem smárri, og fært rök fyrir nauðsyn þess að ráðast í hana. Aðrir íbúar geta svo farið inn á vefsvæðið og sýnt hugmyndum stuðning með því að smella á hjarta og skrifa rök með tilteknum hugmyndum.

Hugmyndasöfnunin stendur yfir til 19. október næstkomandi. Að þeim tíma loknum tekur tæknideild Snæfellsbæjar innsendar tillögur til skoðunar og metur þær út frá gæðum, umfangi og undirtektum íbúa. Að því loknu verða þær lagðar fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd sem tekur þær til formlegrar meðferðar. Það er því mikilvægt að sjónarmið íbúa skili sér í gegnum vefsvæðið.

Smelltu hér til að fara á Betri Snæfellsbær.

Meðfylgjandi eru þær tillögur sem hafa borist:

 • Skautasvell í miðbæinn
 • Afþreying fyrir börn í Rifi
 • Hundasvæði í Snæfellsbæ
 • Hjólarampur
 • Útilíkamsræktarstöð
 • Uppbygging á Sáinu
 • Laga gangstéttir við Grundarbraut og Hábrekku

Betri Snæfellsbær – nýr samráðsvettvangur

By Fréttir

Í dag opnaði íbúalýðræðisvefurinn Betri Snæfellsbær þar sem íbúum sveitarfélagsins gefst tækifæri til að setja fram tillögur um málefni er varða framkvæmdir og viðhaldsverkefni í Snæfellsbæ.

Vonir standa til að hægt verði að taka á móti tillögum allt árið um kring, en til að kanna áhuga og þátttöku meðal íbúa sveitarfélagsins verður fyrsti mánuðurinn eins konar tilraunaverkefni.

Vettvangurinn er opinn öllum til skoðunar og til þátttöku gegn skráningu og samþykki notendaskilmála.

Íbúar eru hvattir til að skrá sig inn á Betri Snæfellsbær og taka þátt í uppbyggilegri umræðu og tillögugerð um framkvæmdir og viðhaldsverkefni á vegum sveitarfélagsins.

Að loknu tímabilinu tekur tæknideild Snæfellsbæjar innsendar tillögur til skoðunar og metur þær út frá gæðum, umfangi og undirtektum íbúa. Að því loknu verða þær lagðar fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd sem taka þær til formlegrar meðferðar. Þær hugmyndir og tillögur sem fyrirhugað er að setja á fjárhagsáætlun 2020 verða sérstaklega kynntar.

Skráðir notendur taka þátt með því að setja fram hugmyndir, skoða hugmyndir annarra, rökstyðja mál, segja skoðun sína eða gefa hugmyndum og rökum vægi með því að styðja þær eða vera á móti þeim.

Við notkun á Betri Snæfellsbæ er mikilvægt að hafa í huga að Snæfellsbær er stjórnvald sem starfar eftir lögum og reglum og hefur ákveðið verksvið. Í ljósi þess er ekki sjálfgefið að unnt verði að taka allar hugmyndir til formlegar meðferðar.

Hugmyndasöfnunin fer fram frá 19. september til 19. október 2019. Íbúar eru hvattir til að vanda framsetningu og auka með því líkur á að tillagan hljóti góðan hljómgrunn.

Allir hvattir til að taka þátt!

Snæfellsbær býður íbúum upp á ókeypis festingar á ruslatunnur

By Fréttir

Snæfellsbær hefur fyrst sveitarfélaga tekið áskorun Íslenska sjávarklasans og Bláa hersins um að koma í veg fyrir fok úr heimilissorptunnum. Sveitarfélagið mun í samvinnu við Gámaþjónustuna bjóða öllum íbúum upp á ókeypis festingar til að halda ruslatunnunum lokuðum.

Nánar var fjallað um málið á fréttavef Vísis. Sjá í meðfylgjandi frétt.

Visir.is – Vilja stöðva fok á rusli

Mikið malbikað í Snæfellsbæ í sumar

By Fréttir

Í sumar var mikið framkvæmt á vegum Snæfellsbæjar og lagði sveitarfélagið í umtalsverðar framkvæmdir við endurbætur á götum og göngustígum.

Malbikunarframkvæmdir gengu vel og var veðurblíðan með slíkum eindæmum að raunar var malbikað meira en áætlun gerði ráð fyrir. Alls voru lagðir 32.764 fermetrar af malbiki á götur, göngustíga og bílaplön í Ólafsvík, Rifi og Hellissandi sem og á hafnarsvæði í Ólafsvík og Rifi. Það voru starfsmenn frá Malbikun Akureyrar sem sá um alla malbikun.

Þá lauk Vegagerðin við malbikun á Ólafsbrautinni og nýttu íbúar og fyrirtæki einnig tækifærið til einkaframkvæmda við húsakynni og starfsstöðvar. Þá má einnig nefna að Þjóðgarðurinn malbikaði bílaplanið við Gestastofuna á Malarrifi.

Auk þessa miklu malbikunarframkvæmda standa nú yfir framkvæmdir við steypuvinnu vegna gangstétta í Ólafsvík, en steyptir verða 1100 metrar nú í haust.

Dvalar- og hjúkrunarheimilið óskar eftir starfsfólki

By Fréttir

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Jaðar auglýsir eftirfarandi störf til umsóknar.

Ræsting

 • 50% starfshlutfall
 • frá 1. október 2019
 • vinnutími frá 8:00 – 12:00

Afleysingar

 • Vaktavinna
 • Íslenskukunnátta skilyrði

Leitast er eftir jákvæðu starfsfólki til góðra samskipta og  umönnum vistmanna.

Á Jaðri er starfsumhverfi gott og gefandi.

Laun skv. kjarasamningi SDS og sveitarfélaganna

Skriflegar umsóknir er tilgreini menntun, fyrri störf, kennitölu og símanúmer berist undirritaðri sem veitir allar frekari upplýsingar um störfin.

Inga Jóhanna Kristinsdóttir, forstöðumaður s. 433-6933, 857-6605
inga@snb.is