Monthly Archives

October 2019

Sóknaráætlun Vesturlands 2020 – 2024 birt á samráðsgátt stjórnvalda

By Fréttir

Sóknaráætlun Vesturlands fyrir árin 2020-2024 hefur verið sett í opið samráðferli þar sem allir geta sent inn ábendingar og tillögur varðandi áætlunina, markmið hennar og innihald.

Umsagnarfrestur er til og með 14. nóvember nk.

Sóknaráætlun Vesturlands 2020 – 2024 er þróunaráætlun landshlutans og felur í sér stöðumat hans, framtíðarsýn, markmið og áherslur til að ná fram þeirri framtíðarsýn. Sóknaráætlun Vesturlands byggir á fimm grunnþáttum; velferð, umhverfi, samgöngur, menning og atvinna. Þá voru allir þessir grunnþættir tengdir við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í áætluninni eru sett fram skýr mælanleg markmið og áherslur sem verða leiðarljós við val á áhersluverkefnum sem og við úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

Tenglar:

Samráðgátt stjórnvalda

Fjölskylduhátíð í félagsheimilinu Klifi með forsetahjónum

By Fréttir

Snæfellsbær býður til fjölskylduhátíðar í félagsheimilinu Klifi miðvikudaginn 30. október kl. 20:00 í tilefni þess að forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid koma í opinbera heimsókn til Snæfellsbæjar.

Boðið verður upp á veitingar og tónlistaratriði.

Dagskrá:

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, býður forsetahjón velkomin.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, flytur ávarp.

Tónlistaratriði í boði heimamanna:

 • Stefanía Klara Jóhannsdóttir 
  • „Memory“ eftir Andrew Lloyd Webber úr leikritinu Cats. Stefanía leikur á trompet. Undirleikur: Evgeny Makeev.
 • Veronica Osterhammer
  • „Krosshólaborg“ eftir Valentinu Kay. Texti eftir Egil Þórðarsson. Undirleikur: Evgeny Makeev og Elena Makeeva.
 • Evgeny Makeev
  • „I will wait for you“ eftir Michel Legrand úr franska leikritinu Regnhlífar í Cherbourg.
 • Valentina Kay
  • „Þitt fyrsta bros“ eftir Gunnar Þórðarsson. Valentina Kay og Evgeny Makeev.

Að loknum tónlistatriðum verður boðið upp á veitingar. Umsjón: Kvenfélag Hellissands. 

Íbúar og nærsveitungar eru hvattir til að koma til fundar við forsetahjónin og eiga ánægjulega kvöldstund.

Ennfremur eru íbúar hvattir til að flagga íslenska fánanum í tilefni dagsins.

Forseti Íslands og forsetafrú koma í opinbera heimsókn til Snæfellsbæjar á miðvikudaginn

By Fréttir

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid halda í opinbera heimsókn til Snæfellsbæjar miðvikudaginn 30. október.

Í Snæfellsbæ munu forsetahjónin meðal annars heimsækja starfsstöðvar Grunnskóla Snæfellsbæjar í Ólafsvík og á Hellissandi; einnig verður heilsað upp á leikskólabörn í Krílakoti og eldri kynslóðina á Dvalarheimilinu Jaðri. Forsetahjónin munu heimsækja atvinnufyrirtæki á staðnum, þar á meðal Fiskverkunina Valafell og KG fiskverkun, auk þess sem þau sækja málstofu sem Snæfellsbær efnir til um áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustunni á Snæfellsnesi. Að kvöldi býður bærinn til fjölskylduhátíðar í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík og hefst hún klukkan 20:00.

Á fimmtudaginn liggur leið þeirra svo í sambærilega heimsókn til Grundarfjarðar.

Fréttatilkynning frá skrifstofu forseta Íslands

Kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram um helgina

By Fréttir

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram í tólfta sinn helgina 25. – 27. október í Frystiklefanum. Þetta er í fjórða skipti sem hátíðin er haldin hér í Snæfellsbæ eftir að hafa slitið barnskónum í Grundarfirði og gott dæmi um farsælt menningarsamstarf milli bæjarfélaganna á Snæfellsnesi.

Á hátíðinni í ár verða sýndar ríflega 70 alþjóðlegar stuttmyndir, hvort tveggja rjómi nýrra íslenskra stuttmynda og það besta sem gerist erlendis í stuttmyndagerð. Á dagskrá er fjöldi verðlaunamynda og mynda sem hlotið hafa mikið lof á virtum erlendum kvikmyndahátíðum.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er kvikmyndatökumaðurinn Bergsteinn Björgúlfsson. Hann tók meðal annars upp myndirnar Hross í oss og Kona fer í stríð og sjónvarpsþættina Ófærð. Hann verður með meistaraspjall á laugardaginn sem stýrt verður af Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu þar sem ljósi verður varpað á störf fólksins sem er á bak við tjöldin.

Aðrir viðburðir verða á sínum stað, t.d. fiskiréttakeppni, vinnustofur, fyrirlestrar, tónleikar og fleira. 

Frítt er á alla viðburði hátíðarinnar og fer hátíðin að öllu leyti fram í Frystiklefanum. Opnunarhóf hátíðarinnar verður í kvöld kl. 20:00.

Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar.

Mynd: Valdís Óskarsdóttir í meistaraspjalli. Fengin af vefsíðu The Northern Wave Film Festival

Auglýst eftir umsóknum um styrki

By Fréttir

Hafin er vinna við gerð fjárhagsáætlunar Snæfellsbæjar fyrir árið 2020. Hér með er auglýst eftir umsóknum um styrki. Þeir aðilar sem vilja koma með styrkumsóknir er varða næsta fjárhagsár Snæfellsbæjar eru hvattir til að skila þeim á bæjarskrifstofuna til bæjarritara fyrir 8. nóvember 2019.

Þau félagasamtök sem fengu styrki á árinu 2019 þurfa að senda inn ársreikning með áframhaldandi styrkbeiðni.

Athugið að engir styrkir fást greiddir nema um þá sé sótt og bæjarstjórn samþykki þá.

Landsmót ÆSKÞ í Ólafsvík alla helgina

By Fréttir

Í dag hefst landsmót ÆSKÞ í Ólafsvík og stendur alla helgina. Landsmótið er fyrir unglinga á aldinum 13 – 17 ára og sækja mótið 250 þátttakendur hvaðanæva af landinu auk sjálfboðaliða og leiðtoga. Yfirskrift landsmótsins í ár er skapandi landsmót þar sem skipuleggjendur horfa til þess að þátttakendur æfi og virki eigin sköpunarmátt bæði til lista og leikja og nýti ímyndunaraflið til eflingar.

Þátttakendur á landsmótinu verða sýnilegir í bæjarfélaginu á meðan á móti stendur þar sem dagskrá verður m.a. í íþróttahúsinu í Ólafsvík, sundlauginni, skólunum og félagsheimilinu og fleiri stöðum auk þess sem þátttakendur gista í skólunum.

Tökum vel á móti krökkunum og bjóðum þau velkomin í bæinn. 

Landsvæði til kolefnisjöfnunar í Snæfellsbæ

By Fréttir

„Samviskuskógur“ verður að veruleika í Snæfellsbæ á næsta ári. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti samhljóða á síðasta fundi sínum að koma upp gróðursvæði næsta vor til að koma til móts við þá íbúa Snæfellsbæjar sem hafa áhuga á að jafna kolefnisfótspor sitt með uppbyggilegum hætti. 

Snæfellsbær mun þannig ráðstafa landsvæði innan þéttbýlis til „samviskuskógarins“ þar sem þeir íbúar sem vilja minnka eða jafna kolefnisfótspor sín geta gróðursett tré á skipulögðu svæði í nánasta umhverfi sínu og þannig stuðlað að fallegri bæ og bættri umhverfismenningu.

Það hefur ekki verið ákveðið hvaða landsvæði verður ráðstafað til skógarins en þó voru tveir möguleikar ræddir; eitt svæði miðsvæðis að norðanverðu eða tvö landsvæði, eitt í Ólafsvík og annað á Hellissandi.

45 hugmyndir að Betri Snæfellsbæ bárust

By Fréttir

Snæfellsbær hefur undanfarnar vikur kallað eftir hugmyndum og tillögum er varða varða framkvæmdir og viðhaldsverkefni í Snæfellsbæ á vefsvæðinu Betri Snæfellsbær

Litið var á þessa fyrstu hugmyndasöfnun sem eins konar tilraunaverkefni til að kanna áhuga og þátttöku meðal íbúa. Það er skemmst að segja frá því að þátttaka var mjög góð og margar hugmyndir bárust.

Nú verða innsendar tillögur teknar til formlegrar meðferðar hjá Tæknideild Snæfellsbæjar og síðar umhverfis- og skipulagsnefnd. Þær hugmyndir og tillögur sem fyrirhugað er að framkvæma og setja á fjárhagsáætlun 2020 verða sérstaklega kynntar.

Upplýsingar um þátttöku:  

 • 187 notendur skráðu sig inn á vefsvæðið
 • 45 tillögur bárust
 • 97 umræður sköpuðust

Tillögur sem bárust:

 • Laga gangstéttir á Grundarbraut og Hábrekku
 • Sáið – framtíðarsýn
 • Útilíkamsræktarstöð
 • Hjólarampur
 • Hundasvæði í Snæfellsbæ
 • Afþreying fyrir börn í Rifi
 • Skautasvell í miðbæinn
 • Trjárækt innan þéttbýlis
 • Lýsing á Arnarstapa
 • Röst Hellissandi – laga
 • Setja handrið á brú við hraðfrystihúsið á Hellissandi
 • Laga brú í Bug
 • Mini golf
 • Bílastæði og áning á Snagabökkum
 • Röstin og íþróttahúsið á Hellissandi
 • Áætlun fyrir verndun fuglalífs á Rifi fyrir sumar 2020
 • Setja ljós við göngustíga fyrir veturinn
 • Sækja um af hörku að fá störf frá ríkinu
 • Klára Keflavíkurgötu
 • Laga gangstéttar
 • Endurbætur á Höskuldsá
 • Göngustíg á Arnarstapa
 • Auglýsa Snæfellsbæ
 • Leita að heitu vatni
 • Lýsing við Klifbraut
 • Skipulag v/ Ólafsbraut
 • Laga íþróttahúsið á Hellissandi
 • Útbúa vinnuaðstöðu á efri hæð í Röstinni
 • Hjólastígur í Bug
 • Lýsa upp vegglistaverk á Hellissandi
 • Lýðháskóli í Röstina
 • Kofabær á sumrin
 • Skólagarðar/Kartöflugarðar
 • Skjalasafn
 • Setja upp myndavélakerfi í þéttbýli
 • Laga eða færa félagsmiðstöð
 • Magnúsarstígur í Ólafsvík
 • Íbúðir fyrir aldraða líkt og eru í Engihlíð
 • Halda reglulega íbúafundi
 • Tengja saman göngustíga
 • Íbúabyggð á Arnarstapa
 • Grenndargámar fyrir dreifbýli
 • Að halda vörð um störf í bæjarfélaginu
 • Setja upp fleiri útivistarbekki
 • Fríar lóðir í Snæfellsbæ

Sjókonur á Snæfellsnesi

By Fréttir

Í tilefni af Strandmenningarhátíð á Snæfellsnesi 2019 heimsækir Dr. Margaret E. Willson Snæfellsnes í þessari viku og heldur erindi á Arnarstapa, Grundarfirði og Stykkishólmi.

Margaret Willson er prófessor í mannfræði og Skandinavískum fræðum við Washington-háskóla í Seattle í Bandaríkjunum.

Hún hefur rannsakað sjósókn kvenna á fyrri öldum til nútíma og fundið mikið efni frá Snæfellsnesi. Ljósi verður m.a. varpað á konur frá Rauðseyjum, Höskuldsey, Bjarnareyjum, Oddbjarnarskeri, Flatey, Hergilsey, Brimilsvöllum, Neshreppi, Múlasveit o.fl.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes hefur veg og vanda af heimsókninni og hvetur fólk til að mæta, skiptast á sögum og fræðast um líf og störf formæðra og núlifandi kvenna á sjó. Fólk má gjarnan koma með myndir og gögn af sjókonum á Snæfellsnesi. Margaret kemur með gögn um nokkrar konur af Snæfellsnesi og segir sögur þeirra áður en boðið er til samræðna.

Allir velkomnir!

Samkomuhúsið á Arnarstapa
föstudaginn 18. okt kl. 19:00 – 21:00

Bæringsstofa í Grundarfirði
laugardaginn 19. okt kl. 13:00

Amtsbókasafnið í Stykkishólmi
laugardaginn 19. okt kl. 17:00 – 19:00

Fræðslu- og umræðuþing um framtíð Breiðafjarðar

By Fréttir

Breiðafjarðarnefnd og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið efna til fræðslu- og umræðuþings um framtíð verndarsvæðisins á Breiðafirði. Þingið fer fram í Tjarnarlundi í Dalabyggð þann 23. október og stendur frá kl. 11:00 til kl. 16:00.

Þingið er öllum opið en skráning er nauðsynleg á netfanginu breidafjordur@nsv.is.

Fundarstjóri: Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur.

Dagskrá þingsins:

11:00 Setning, Erla Friðriksdóttir, formaður Breiðafjarðarnefndar
11:10 Ávarp Umhverfis- og auðlindaráðherra
11:25 Sérstaða Breiðafjarðar, Róbert Arnar Stefánsson, Náttúrustofu Vesturlands
11:55 Breiðafjörður sem Ramsarsvæði, Trausti Baldursson, Náttúrufræðistofnun Íslands
12:10 Heimsminjaskrá UNESCO, Sigurður Þráinsson, Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

12:25 Hádegisverður (skráning nauðsynleg á breidafjordur@nsv.is)

13:10 Af hverju að stofna þjóðgarð?, Steinar Kaldal, Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
13:25 Reynslan af þjóðgarði, Björn Ingi Jónsson, svæðisráði suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs
13:40 Snæfellingar og þjóðgarðurinn, Kristinn Jónasson, Snæfellsbæ
13:55 Kostir og gallar friðlýsingar, Jón Björnsson, Þjóðgarðinum Snæfellsjökli
14:10 Man and the Biosphere Programme, Martin Price, ráðgjafanefnd um Man and the Bioshpere verkefnið

14:40 Kaffi

15:10 Næstu skref varðandi framtíð Breiðafjarðar, Erla Friðriksdóttir, formaður Breiðafjarðarnefndar
15:25 Fyrirspurnir og umræður
16:00 Dagskrárlok