Monthly Archives

November 2019

Viðburðir í Snæfellsbæ um helgina

By Fréttir

Mikið verður um að vera í Snæfellsbæ nú þegar desember gengur í garð og aðventan nálgast. Að vanda má gera ráð fyrir að  jólasveinar komi til byggða og skemmti börnum sem og fullorðnum á sunnudaginn. Þá má einnig nefna að nú um helgina hefjast jólahlaðborð og hátíðarmatseðlar á okkar frábæru veitingastöðum Hraun, Sker og Viðvík.

Með því að smella á tenglana hér fyrir neðan er hægt að skoða nánari upplýsingar um einstaka viðburði um helgina:

Fyrir áhugasama um knattspyrnu má einnig benda á að um helgina verða leiknir þrír knattspyrnuleikir á Ólafsvíkurvelli.

  • 4. flokkur karla leikur gegn Álftanesi á laugardaginn kl. 14:00.
  • 5. flokkur karla leikur einnig gegn Álftanesi, sá leikur fer fram á sunnudaginn kl. 10:00
  • 3. flokkur karla leikur gegn ÍBV á sunnudaginn kl. 13:00.

Frístundastyrkur aðgengilegur í Nóra

By Fréttir

Snæfellsbær býður upp á frístundastyrk sem hljóðar upp á 20.000 krónur á ári og gildir til niðurgreiðslu í skipulögðu íþrótta- og tómstundarstarfi fyrir börn og unglinga á aldrinum 5 – 18 ára.

Snæfellsbær vill nú koma því á framfæri að tenging við Nóra-kerfið er komin upp hjá sveitarfélaginu þannig að foreldrar/forráðamenn geta með einfaldari hætti en áður nýtt frístundastyrkinn. Það er einfaldlega gert í Nóra þegar iðkendur eru skráðir til æfinga og lækkar upphæðin þá sem um nemur frístundastyrknum og er upphæðinni sjálfkrafa ráðstafað sem greiðslu upp í æfingagjöld. Þarf því ekki lengur að greiða æfingagjöldin að fullu og sækja um endurgreiðslu til bæjarritara.

Leiðbeiningar um Nóra má nálgast á vef Greiðslumiðlunar. Sjá hér.

Jólaþorp Snæfellsbæjar haldið í Klifi 28. nóvember

By Fréttir

Lifandi tónlist og ilmur af ristuðum möndlum í loftinu, jólaglögg í glasinu og vinir og kunningjar á hverju strái. Jólaþorp Snæfellsbæjar verður haldið á ný, nú í stærra og hentugra húsnæði. Í fyrra var jólaþorpið haldið í fyrsta skipti og þá í Átthagastofu Snæfellsbæjar þar sem færri komust að en vildu. Ákveðið var að færa viðburðinn þetta árið í félagsheimilið Klif.

Jólaþorpið hefst kl. 17:00 og stendur til kl. 22:00. Ýmislegt verður í boði fyrir gesti og gangandi auk þess sem fyrirtæki og einkaaðilar verða með vörur til sýnis og sölu, en rúmlega 20 söluaðilar verða á svæðinu. Þá má einnig kaupa miða í forsölu á jólatónleika GÓSS sem verða í Ólafsvíkurkirkju laugardaginn 30. nóvember.

Menningarnefnd Snæfellsbæjar hefur veg og vanda af jólaþorpinu og býður íbúa og aðra nærsveitunga hjartanlega velkomna í félagsheimilið Klif á fimmtudaginn.

Jólaþorpið á Facebook – viðburður 28. nóvember

Verkefnastjóri garðyrkju til starfa næsta sumar

By Fréttir

Næsta sumar er fyrirhugað að ráða verkefnastjóra garðyrkju í fullt starf í Snæfellsbæ. Bæjarstjórn tók nýlega fyrir erindi þess efnis frá tæknideild Snæfellsbæjar og samþykkti að veita aukafjárveitingu til málsins og gera ráð fyrir tilvonandi starfsmanni yfir sumartímann í fjárhagsáætlunargerð næsta árs.

Með nýjum starfsmanni er ætlun sveitarfélagins að gera betur í þessum málum og fá til starfa menntaðan einstakling sem hefur yfirumsjón með og heildaryfirsýn yfir garðyrkjustörf í sveitarfélaginu þar sem m.a. verður horft til hreinsunar og fegrunar á opnum svæðum í Snæfellsbæ.

Starfið verður auglýst þegar nær dregur sumri.

Tendrun ljósa á jólatrjám

By Fréttir

Jólaljósin verða tendruð við hátíðlega athöfn fyrsta sunnudag í aðventu á Hellissandi og í Ólafsvík.

Á Hellissandi verða ljósin tendruð kl. 16:30.
Í Ólafsvík verða ljósin tendruð kl. 17:30.

Jólasveinar mæta á svæðið og gleðja börnin auk þess sem Trausti Leó Gunnarsson og Kristbjörg Ásta Viðarsdóttir syngja nokkur vel valin jólalög.

Bjarki Már Mortensen og Elisabeth Halldóra Roloff tendra ljósin.

Notaleg stund með allri fjölskyldunni í Snæfellsbæ.

Ljósmynd: af

Fjármagn veitt til verkefnisins Betri Snæfellsbær

By Fréttir

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti samhljóða á fundi sínum í vikunni að veita töluverðum fjármunum til framkvæmda á tillögum sem bárust frá íbúum í gegnum verkefnið Betri Snæfellsbær.

Litið var á þessa fyrstu hugmyndasöfnun sem eins konar þróunarverkefni til að kanna áhuga og þátttöku meðal íbúa og stóð þeim til boða að senda inn tillögur frá 19. september til 19. október. Skemmst er að segja frá því að þátttaka meðal íbúa reyndist góð og bárust 45 tillögur sem tæknideildin hefur nú til meðferðar.

Vegna góðrar þátttöku íbúa og eftir frumskoðun á hugmyndum lagði tæknideildin til að í fjárhagsáætlun næsta árs yrði gert ráð fyrir töluverðum framkvæmdakostnaði vegna Betri Snæfellsbæjar. Bæjarstjórn samþykkti það samhljóða og lýsti yfir ánægju með verkefnið.

Þær hugmyndir og tillögur sem verða framkvæmdar árið 2020 og settar á fjárhagsáætlun verða kynntar sérstaklega þegar vinnu er að fullu lokið.

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Snæfellsness 26. nóvember

By Fréttir

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Snæfellsness verður haldinn 26. nóvember 2019 kl. 15:00 á Láka Hafnarkaffi í Grundarfirði.

Eru allir sem tengjast ferðamálum af einhverju tagi hér á Snæfellsnesi hvattir til að mæta, sýna samstöðu og koma skoðunum sínum á framfæri. 

Dagskrá fundar:

  1. Kosning nýrrar stjórnar og önnur aðalfundarstörf
  2. Kosning fulltrúa samtakanna í fulltrúaráð Svæðisgarðsins Snæfellsnes
  3. Næsti samhristingur, hvetjum fólk til að koma skoðunum sínum á framfæri
  4. Mannamót, sameiginlegur undirbúningur eða ekki. Hvetjum fólk til að taka þátt í umræðunni og koma skoðunum sínum á framfæri
  5. Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins, og Þorkell Símonarson, fulltrúi samtakanna í stjórn og fulltrúaráði Svæðisgarðsins, kynna hlutverk og framtíðarsýn Gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki.
  6. Önnur mál

Ljósmynd: Diego Delso, Búðahraun.

Blóðsykursmæling í boði Lionsklúbba og heilsugæslustöðvarinnar

By Fréttir

Í tilefni af alþjóðlegum degi sykursjúkra 14. nóvember munu Lionsklúbbarnir í Snæfellsbæ í samstarfi við Heilsugæslustöðina bjóða íbúum Snæfellsbæjar upp á mælingu á blóðsykri auk þess sem hægt verður að mæla blóðþrýsting.

Mæling fer fram í Átthagastofu Snæfellsbæjar á morgun, fimmtudag 14. nóvember, frá kl. 13 – 16.

Eru íbúar hvattir til að mæta og stendur mæling öllum til boða.