Monthly Archives

December 2019

Kynning: Opið hús vegna breytingar á aðalskipulagi Snæfellsbæjar

By Fréttir

Mánudaginn 6. janúar 2020 kl. 15:00 – 18:00 verður haldið opið hús í Ráðhúsi Snæfellsbæjar þar sem drög breytingar aðalskipulags Snæfellsbæjar vegna fyrirhugaðs golfvallar sunnan Rifs verða kynnt.

Breytingin felst í að óbyggðu svæði er breytt í íþróttasvæði (ÍÞ-3) þar sem fyrirhugaður golfvöllur verður. Breyting verður því á þéttbýlisuppdrætti Hellissands og Rifs.

Íbúar og hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og kynna sér skipulagshugmyndir strax á frumstigi.

Eftir kynningu á opnu húsi verða skipulagsgögn lögð fyrir bæjarstjórn til frekari afgreiðslu. Ákveði bæjarstjórn að auglýsa ofangreindar skipulagsbreytingar mun frestur til að gera athugasemdir vera að minnsta kosti sex vikur.

Afgreiðslustímar og þjónusta um jól og áramót

By Fréttir

Afgreiðslutímar helstu stofnana og þjónusta á vegum sveitarfélagsins tekur að venju breytingum um jól og áramót.

Ráðhús Snæfellsbæjar verður lokað á aðfangadag, jóladag og annan í jólum sem og gamlársdag og nýársdag.

Sundlaug Snæfellsbæjar verður lokuð á jóladag, annan í jólum og nýársdag. Sundlaugin verður opin sem hér segir:

Mánudagur 23. desember 07:30 – 17:00
Þriðjudagur 24. desember 10:00 – 12:00
Föstudagur 27. desember 07:30 – 21:00
Laugardagur 28. desember 10:00 – 17:00
Sunnudagur 29. desember 10:00 – 17:00
Mánudagur 30. desember 07:30 – 21:00
Þriðjudagur 31. desember 10:00 – 12:00

Bókasafn Snæfellsbæjar verður opið mánudaginn 30. desember frá 16:00 – 18:00. Lokað aðra daga yfir hátíðina.

Opnunartími hjá Terra (Gámaþjónustan) verður með breyttu sniði yfir hátíðina:

Mánudagur 23. desember 15:00 – 18:00
Laugardagur 28. desember 11:00 – 15:00
Mánudagur 30. desember 15:00 – 18:00
Fimmtudagur 2. janúar 15:00 – 18:00

Lokað aðra daga.

Bætt umferðaröryggi í þéttbýli Snæfellsbæjar

By Fréttir

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur ákveðið, að fengnum tillögum Snæfellsbæjar, að hraðamörk á götum í þéttbýli sveitarfélagsins verði 30 km á klst.

Óbreytt hraðamörk verða á Útnesvegi í gegnum Hellissand og Ennis- og Ólafsbraut í gegnum Ólafsvík.

Starfsmenn Snæfellsbæjar munu á næstu dögum setja upp ný umferðarmerki sem gefa til kynna breytt hraðamörk.

Í nýjum umferðarlögum sem taka gildi 1. janúar 2020 er m.a. kveðið á um það að hámarksökuhraða skuli tilgreina í heilum tugum, að undanteknum hámarkshraðanum 15 km á klst. 

Lögreglan efast ekki um að ökumenn munu taka fullt tillit til framangreindra breytinga.

Innritun í tónlistarskóla fyrir vorönn 2020

By Fréttir

Innritun í skólavistun Tónlistarskóla Snæfellsbæjar fyrir vorönn 2020 stendur nú yfir. Umsóknum skal skila á skrifstofu tónlistarskólans að Hjarðartúni 6 í Ólafsvík. Einnig er hægt að hringja í síma 433 – 9928 eða senda tölvupóst: tonlistarskoli@snb.is

Samningur skal gerður við nemendur og forráðamenn um hljóðfæraleigu, þar sem m.a. eru skilmálar um meðferð hljóðfæra.

Ath: Hálft nám reiknast sem 60% af fullu gjaldi.

Í þeim tilvikum sem systkini yngri en 18 ára stunda nám við skólann skal veittur systkinaafsláttur. Systkinaafsláttur skal nema 25% fyrir annað systkini og 50% fyrir þriðja systkini. Afsláttur reiknast ávallt af ódýrasta náminu.

Systkinaafsláttur á eingöngu við um systkini, ekki frændsystkini, þó svo lögheimili og greiðandi sé sá sami.

A.T.H. Við innritun hefur forráðamaður skuldbundið sig, að greiða skólagjöld út önnina.

Gjaldskrá tónlistarskóla Snæfellsbæjar

Óskað eftir tillögum að jóla- og piparkökuhúsi ársins 2019

By Fréttir
Menningarnefnd Snæfellsbæjar óskar eftir tillögum frá íbúum um fallega skreytt jólahús í Snæfellsbæ og flottasta piparkökuhúsið (þau eru númeruð og til sýnis í Kassanum í Ólafsvík).
 
Opið verður fyrir innsendar tillögur til miðnættis fimmtudaginn 19. desember 2019.
 
Að þeim tíma loknum fer menningarnefnd yfir niðurstöður og kynnir sigurvegara úr báðum flokkum við hátíðlega athöfn í Átthagastofu Snæfellsbæjar sunnudaginn 22. desember kl. 16:30.
 
Farið verður með aðsendar upplýsingar sem trúnaðarmál og ekki verður hægt að persónugreina innsendar tillögur. Athugið að það er ekki hægt að kjósa oftar en einu sinni í hverju tæki.
 

Styrkveitingar fyrir árið 2020

By Fréttir

Snæfellsbær óskar á hverju ári eftir umsóknum um styrkveitingu frá félagasamtökum áður en vinna við fjárhagsáætlun hefst. Innsendar umsóknir eru lagðar fyrir bæjarstjórn sem tekur þær til umfjöllunar samhliða fjárhagsáætlungerð. Bæjarstjórn hefur lagt ríka áherslu á það að haldið verið áfram þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni hlúð eins og kostur er. Með það í huga hefur bæjarstjórn nú samþykkt styrkveitingar fyrir árið 2020. 

Þess má geta að Snæfellsbær hefur aukið styrkveitingar til félagasamtaka umtalsvert á síðustu tveimur árum. Í fyrra hækkuðu styrkveitingar um 42,5% frá því sem áður var og fjárhagsáætlun næsta árs gerir ráð fyrir að styrkir hækki um rúm 8% frá því í fyrra.

Árið 2020 verða styrkveitingar til félagasamtaka kr. 64.515.000.- 

Styrkveitingar árið 2020

Nýjar gjaldskrár fyrir árið 2020

By Fréttir

Fimmtudaginn 5. desember samþykkti bæjarstjórn fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar fyrir árið 2020, og um leið nýjar gjaldskrár, en þær eru nú komnar inn á vefsíðu Snæfellsbæjar.

Undanfarin fjögur ár hafa gjaldskrár grunnskóla- og leikskóla staðið í stað, en á árinu 2020 verða smávægilega hækkanir á þeim.  Grunngjald leikskóla hækkar um 2,8%, fer úr kr. 3.700.- í 3.800.-. Fæðiskostnaður hækkar ekkert. Fyrir 8 klt. vistun með fullu fæði þýðir þetta að foreldrar greiða kr. 40.400.- í stað 39.600.- á árinu 2019.

Gjöld grunnskóla hækka um 3,5% milli ára.

Gjaldskrá fasteignagjalda tekur töluverðum breytingum. Álagningarprósenta B- og C-húsnæðis stendur í stað, og jafnframt álagningarprósenta fasteignaskatts og lóðarleigu A-húsnæðis. Álagningarprósenta vatnsgjalds húsnæðis í A-flokki lækkar um 9% og álagningarprósenta fráveitugjalda A-húsnæðis lækkar sömuleiðis um 6,25%. Þetta er gert til að koma til móts við íbúðaeigendur í sveitarfélaginu þar sem undanfarið hefur fasteignamat hækkað töluvert og þar með hækka fasteignagjöld. Með þessum aðgerðum ættu fasteignagjöld íbúðaeigenda ekki að hækka milli ára, þrátt fyrir hækkun á fasteignamati.

Gjaldskrá tónlistarskóla hækkar um 2,5% milli ára, en gjaldskrá íþróttahúss og sundlaugar stendur í stað, bæði í Ólafsvík og í Lýsuhólslaug.

Gjaldskrá fyrir hundahald tekur töluverðum breytingum á árinu 2020. Almennt leyfisgjald lækkar og verður kr. 15.000.-, en fyrsta leyfisveiting verður kr. 20.000.-. Jafnframt verður sú breyting gerð að tekið verður tillit til þeirra hunda sem hafa farið á hlýðninámskeið og jafnframt til þeirra eiganda sem farið hafa með hunda sína í hreinsun annars staðar og tryggja hunda sína sjálfir. Gegn framvísun skírteina er heimilt að veita samtals allt að 30% afslátt af leyfisgjaldi.

Í byrjun árs verður farið í það verkefni að skrá ketti í sveitarfélaginu.

Aðrar gjaldskrár taka litlum sem engum breytingum.

Viðhengi:
Gjaldskrár

Bókun bæjarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar ársins 2020

By Fréttir

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 hefur verið samþykkt af bæjarstjórn Snæfellsbæjar. Samkvæmt áætluninni verður útsvarsprósenta í Snæfellsbæ óbreytt en breytingar voru gerðar á álagningarprósentu fasteignagjalda. Álagningarprósenta vatnsgjalds húseigna í A-flokki lækkar um 9% og álagningarprósenta fráveitugjalds húseigna í A-flokki lækkar um 6,25%. Þetta er gert til að koma til móts við íbúa Snæfellsbæjar þannig að heildarfasteignagjöld hækki ekki á milli ára þrátt fyrir hækkun á fasteignamati. Smávægileg hækkun varð á gjaldskrám bæjarfélagsins.

Bæjarstjórn leggur á það áherslu að haldið verið áfram þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni hlúð eins og kostur er. Styrkir til félagasamtaka hækka á árinu 2020 og verða kr. 64.515.000.- Að venju eru hæstu styrkirnir til íþrótta- og ungmennastarfs. 

Snæfellsbær mun áfram bjóða upp á frístundastyrk til tómstundastarfs ungmenna. 

Á haustmánuðum 2019 var farið í verkefnið Betri Snæfellsbær og mun 18 milljónum verða varið í það á árinu 2020 að framkvæma hluta af því sem lagt var til þar. Mikið af góðum ábendingum og tillögum kom fram frá íbúum í gegnum þetta verkefni og hefur tæknideild Snæfellsbæjar undanfarið unnið úr þeim tillögum og forgangsraðað þeim.  Bæjarstjórn vill lýsa ánægju sinni með þetta framtak. 

Gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum á árinu 2020, en gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði um 423 milljónir króna, þar af 195 milljónir hjá bæjarsjóði Snæfellsbæjar og 228 milljónir hjá hafnarsjóði. Stærsta framkvæmd ársins 2020 verður lenging Norðurgarðs í Ólafsvík. 

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð, og á árinu 2019 tókst að greiða upp lán en engin ný lán þurfti að taka á árinu þrátt fyrir miklar framkvæmdir á árinu 2019. Ekki er gert ráð fyrir hækkun skulda á árinu 2020, sem er gott. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar fari ekki yfir 65% í A-hluta, en skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir 150% og er þá Snæfellsbær vel innan marka. 

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn og verða miklar framkvæmdir á hans vegum árið 2020, eins og áður kemur fram, eða um 228 m.kr. Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.  

Rekstur Snæfellsbæjar hefur verið með ágætum undanfarin ár og er það að miklu leyti því að þakka hversu gott samstarf hefur verið við forstöðumenn og starfsfólk Snæfellsbæjar. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar treystir á að samstarfið verði áfram jafngott, því einungis þannig verður hægt að ná fram góðum rekstri.  

Samstarf í bæjarstjórn Snæfellsbæjar er gott og vann öll bæjarstjórn saman að gerð fjárhagsáætlunar á sérstökum vinnufundum sem haldnir voru og er full samstaða um alla liði fjárhagsáætlunar og er það afar mikilvægt að samstaða sé  góð í bæjarstjórn. 

Heimsóknir jólasveina til Snæfellsbæjar

By Fréttir

Menningarnefnd Snæfellsbæjar hefur skipulagt notalegar jólastundir nú þegar líða fer að jólum. Hefð hefur skapast fyrir þessum viðburðum síðustu ár þar sem ungir sem aldnir koma saman og fagna komu hátíðarinnar með heimsóknum frá jólasveinum.

Í ár verður bryddað upp á þeirri nýjung að jólasveinarnir skjóta upp kollinum hér og þar um Snæfellsbæ í stað þess að heimsækja sama húsið oft og mörgum sinnum. Þetta árið geta krakkar, fjölskyldur og önnur jólabörn því sungið og dansað með jólasveinum sem hér segir:

12. desember kl. 17:30 – Gilbakki

14. desember kl. 17:00 – Sjóminjasafnið á Hellissandi

16. desember kl. 17:00 – Hraun Restaurant

18. desember kl. 17:00 – Bókasafn Snæfellsbæjar

20. desember kl. 17:00 – Sker Restaurant

22. desember kl. 17:00 – Útgerðin/Pakkhúsið

Ljósmynd: ÞÚ/sérlegur aðstoðarmaður jólaveinanna

Sóknaráætlun Vesturlands 2020 – 2024

By Fréttir

Sóknaráætlun Vesturlands fyrir árin 2020 – 2024 er komin út og hefur verið gerð aðgengileg á vef Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.

Sóknaráætlun Vesturlands er þróunaráætlun landshlutans og felur í sér stöðumat hans, framtíðarsýn, markmið og áherslur til að ná fram þeirri framtíðarsýn. Sóknaráætlun Vesturlands byggir á fimm grunnþáttum; velferð, umhverfi, samgöngur, menning og atvinna. Þá voru allir þessir grunnþættir tengdir við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í áætluninni eru sett fram skýr mælanleg markmið og áherslur sem verða leiðarljós við val á áhersluverkefnum sem og við úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

Sóknaráætlun Vesturlands fyrir árin 2020 – 2024 var sett í opið samráðferli þar sem allir gátu sent inn ábendingar og tillögur varðandi áætlunina, markmið hennar og innihald. Því ferli lauk í nóvember og hér má því sjá útkomuna og endanlega áætlun.

Sóknaráætlun Vesturlands 2020 – 2024