Monthly Archives

February 2020

Ráðstefna um sameiningar sveitarfélaga

By Fréttir

Fimmtudaginn 12. mars n.k. verður haldin ráðstefna um sameiningar sveitarfélaga að Laxárbakka í Hvalfjarðarsveit og mun hún standa yfir frá kl.10:00 til 15:00.

Eggert Kjartansson, formaður SSV mun opna ráðstefnuna og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Íslands flytur ávarp.

Að því loknu verður rætt um reynslu af sameiningum sveitarfélaga og svo hvernig sé hægt að sporna við því að jaðarbyggðir verði útundan í sameinuðum sveitarfélögum.

Eftir hádegisverð verður svo rætt um hvers megi vænta að áhrif af sameiningum verði fyrir sveitarstjórnarstigið áður en ráðstefnunni er slitið.

Guðveig Eyglóardóttir, varaformaður SSV mun stýra ráðstefnunni.

Skrá þarf þátttöku á ráðstefnuna, það er hægt að gera með því að senda póst á netfangið svala@ssv.is.

Dagskrá ráðstefnu má sjá hér að neðan:

Nemendur í GSNB fá frítt í sund í vetrarfríi

By Fréttir

Nú stendur yfir vetrarfrí í Grunnskóla Snæfellsbæjar og af því tilefni fá nemendur skólans frítt í sund út mánudaginn nk.

Að sama skapi er engin sundkennsla í vetrarfríinu og er sundlaugin því opin almenningi frá 07:30 – 20:30 á meðan vetrarfríið stendur yfir.

Ath: Börn yngri en 10 ára verða eftir sem áður að vera í fylgd fullorðinna.

Ný og glæsileg kortasjá tekin í gagnið

By Fréttir

Snæfellsbær hefur tekið í notkun nýja og glæsilega kortasjá sem er töluvert aðgengilegri og notendavænni en sú sem þjónað hefur sveitarfélaginu undanfarin ár.

Í nýju kortasjánni er m.a. hægt að fletta upp deiliskipulagi og gildandi skipulagsáætlunum, landeignaskrá Þjóðskrár, nytjalandi, fornleifum og friðuðum svæðum, teikningum af byggingum og ýmsum afmörkunum.

Enn er verið að færa teikningar og nytsamlegar upplýsingar inn í nýja kerfið og verður það í stöðugri uppfærslu.

Slóðin á nýju kortasjánna er map.is/snb en íbúar geta eftir sem áður komist á kortasjánna af forsíðu vefsíðu Snæfellsbæjar.

Opna nýja kortasjá

Hans Klaufi í félagsheimilinu Klifi í dag

By Fréttir

Vakin er athygli á stórskemmtilegum fjölskyldusöngleik um Hans Klaufa frá Leikhópnum Lottu í félagsheimilinu Klifi í dag kl. 17:30.

Sýningin er í boði Snæfellsbæjar og eru íbúar hvattir til að mæta og taka alla fjölskylduna á þessa skemmtilegu sýningu.

Stórskemmtilegur fjölskyldusöngleikur frá Leikhópnum Lottu verður sýndur í félagsheimilinu Klifi mánudaginn 24. febrúar kl. 17:30.

Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Lotta, sem hefur sérhæft sig í sýningum utandyra, er nú þriðja veturinn í röð komin inn í hlýjuna um allt land. Hópurinn setti Hans Klaufa fyrst upp árið 2010, en nú tíu árum síðar verður rykið dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi.

Verkið hefur verið endurskrifað að stórum hluta og þó að sömu skemmtilegu persónurnar prýði það eins og fyrir tíu árum síðan, hefur nýjum ævintýrum og glænýjum lögum verið bætt við söguna.

Þessi útgáfa af Hans klaufa er í raun alveg ný saga sem ekki er hægt að finna í gömlu ævintýrunum, þó vissulega beri hún þekkt nafn. Verkið er sannkölluð ævintýrablanda sem sækir mikið af efniviði sínum í sígildu ævintýrin okkar. Þannig munum við kynnast Öskubusku, stjúpsystrum hennar og prinsi sem breytt verður í frosk. Við munum stinga okkur á snældu, reyna að sofna með eina litla baun undir 100 ábreiðum og standa í háum turni og láta okkur vaxa hár sem nær alla leið niður á jörðina. Síðast en ekki síst munum við fylgjast með ævintýrum hins klaufalega Hans, Hans Klaufa.

Sjón er sögu ríkari! Hittu Hans klaufa, Aron prins, Öskubusku og alla hina vini þína í Ævintýraskóginum í vetur.

Hans klaufi í leikgerð Leikhópsins Lottu:
Leikstjórar: Anna Bergljót Thorarensen og Þórunn Lárusdóttir
Höfundar laga og texta: Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Gunnar Ben og Snæbjörn Ragnarsson
Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Orri Huginn Ágústsson, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir.

Viðburður á Facebook

Ársþing KSÍ verður haldið í Snæfellsbæ um helgina

By Fréttir

Um helgina verður 74. ársþing Knattspyrnusambands Íslands haldið í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík og búast má við fjölda gesta í sveitarfélagið af þessu tilefni.

Undirbúningsnefnd á vegum knattspyrnudeildar Víkings Ólafsvíkur hóf undirbúning vegna þingsins í ágúst sl., enda ljóst að líta þarf í mörg horn þegar stærsta sérsamband innan ÍSÍ óskar eftir því að slegið verði upp ársþingi í sveitarfélaginu. Félagsheimilið Klif hentar einkar vel fyrir viðburðahald af þessu tagi og fjölmargir íbúar Snæfellsbæjar koma að skipulagningu og framkvæmd þingins og tengdra viðburða um helgina.

Ólafur Hlynur Steingrímsson og Hilmar Hauksson hafa farið fyrir undirbúningi þingsins ásamt Sigrúnu Ólafsdóttur, konur úr Lionsklúbbnum Rán í Ólafsvík sjá um kaffiveitingar á fundarhöldum föstudags og laugardags, báðir veitingastaðirnir í Ólafsvík elda ofan í gesti á meðan á dvöl þeirra stendur og þá eru flest gistirými uppbókuð þar sem flestir gista fleiri en eina nótt. Þá má einnig nefna að skipulögð hefur verið skoðunarferð um Snæfellsbæ á laugardaginn þar sem m.a. verður stoppað í nokkrum fyrirtækjum. Á lokahófinu sjálfu verður veislustjórn svo í höndum Kára Viðarssonar, Dóra Unnarsdóttir verður með uppistand og stelpurnar í sönghópnum MÆK frá Grundafirði stíga á svið.

Það er því ljóst að margar hendur koma að framkvæmd viðburðar af þessari stærðargráðu og eiga allir sem að málinu koma hrós skilið.

Snæfellsbær auglýsir laus störf við afleysingar á Jaðri

By Fréttir

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Jaðar óskar eftir starfsmönnum í afleysingar. Um vaktavinnu er að ræða.

Hæfniskröfur:

 • Kunnátta í íslensku er skilyrði
 • Jákvæðni og stundvísi
 • Áhugi á samskiptum við íbúa og umönnun aldraðra

Á Jaðri er starfsumhverfi gott og gefandi.

Laun eru greidd skv. kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu.

Frekari upplýsingar veitir Inga Kristinsdóttir, forstöðumaður Jaðars, í síma 433–6933 eða á inga@snb.is.

Hundahreinsun í áhaldahúsinu 26. febrúar

By Fréttir

Hundahreinsun verður miðvikudaginn 26. febrúar 2020 frá kl. 14:00 – 17:00 í áhaldshúsinu í Ólafsvík.

Eigendum hunda sem láta hreinsa og bólusetja hunda sína annars staðar er bent á að koma tilkynningum eða skírteinum um slíkt til bæjarskrifstofu.

Eigendum óskráðra hunda er bent á að skrá þá þegar í stað. Eyðublað og samþykkt um hunda- og kattahald Snæfellsbæjar má nálgast hér að neðan.

Snæfellsbær auglýsir tímabundið starf á tæknideild laust til umsóknar

By Fréttir

Tæknideild Snæfellsbæjar óskar eftir að ráða starfsmann í 100% starf til eins árs. Um er að ræða afleysingu fyrir aðstoðarmann skipulags- og byggingarfulltrúa.

Starfsvið:

 • Almenn skrifstofuvinna
 • Skráning og meðhöndlun skjala
 • Undirbúningur funda og frágangur, ritun fundargerða
 • Svara fyrirspurnum sem berast í gegnum síma og tölvupóst

Hæfniskröfur:

 • Gerð er krafa um stúdentspróf
 • Háskólagráða sem nýtist í starfi er kostur
 • Þekking á skipulags- og byggingarmálum er kostur
 • Sjálfstæð vinnubrögð, þjónustulund og skipulagshæfni er skilyrði

Umsóknarfrestur er til og með 8. mars nk.

Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf eigi síðar en 1. apríl nk.

Laun eru greidd skv. kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu.

Frekari upplýsingar veitir Davíð Viðarsson í síma 433 – 6900 eða á david@snb.is.

Vinsamlega sendið umsóknir á david@snb.is. Umsóknum skal fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi í viðkomandi starf.

Tilkynning til kattaeigenda í Snæfellsbæ

By Fréttir

Vakin er athygli á því að kattahald í Snæfellsbæ er háð leyfi bæjarstjórnar og bundið þeim skilyrðum sem tilgreind eru í samþykkt um kattahald nr. 757/2007.

Eigendum katta í Snæfellsbæ er bent á að sækja um leyfi til kattahalds í Ráðhús Snæfellsbæjar.

Eyðublað og samþykkt um hunda- og kattahald Snæfellsbæjar má nálgast hér að neðan.

Snæfellsbær auglýsir starf garðyrkjufræðings laust til umsóknar

By Fréttir

Tæknideild Snæfellsbæjar óskar eftir að ráða starfsmann í tímabundið starf við garðyrkju frá apríl nk. út september eða eftir samkomulagi. Starfshlutfall er 100% á starfstímanum.

Viðkomandi sér m.a. um að sinna öllum gróðri á opnum svæðum og lóðum stofnana sveitarfélagsins.

Helstu verkefni og ábyrgð:

 • Að skipuleggja verkefni í garðumhirðu og hreinsun opinna svæða
 • Verkstjórn smærri garðyrkjuhópa vinnuskólans
 • Aðstoð við þjálfun og fræðslu flokkstjóra er snýr að garðyrkju
 • Klippingar, grisjun og útplöntun á trjám, runnum og sumarblómum
 • Öll umhirða á beðum, bekkjum og blómakerum sveitarfélagsins
 • Önnur tilfallandi verkefni er snúa að hreinsun og fegrun umhverfis sveitarfélagsins

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Menntun á sviði skrúðgarðyrkju, garðyrkju, skógfræði eða tengdum greinum er æskileg
 • Reynsla af garðyrkjustörfum er skilyrði
 • Reynsla af verkstjórn er kostur
 • Frumkvæði, áræðni og röggsemi til verka
 • Góð hæfni í mannlegum samskiptum
 • Reglusemi og stundvísi
 • Almenn ökuréttindi

Umsóknarfrestur er til og með 15. mars nk.

Laun eru greidd skv. kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu.

Frekari upplýsingar veitir Davíð Viðarsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Snæfellsbæjar, í síma 433-6900 eða á david@snb.is.

Vinsamlega sendið umsóknir á netfangið david@snb.is. Umsóknum skal fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.