Monthly Archives

May 2020

Snæfellsbær opnar ferðavef til kynningar á sveitarfélaginu

By Fréttir

Snæfellsbær opnar í dag nýjan ferðavef þar sem við kynnum Snæfellsbæ sem ákjósanlegan áfangastað til ferðalaga í sumar til stuðnings ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.

Helsta markmið með nýju vefsíðuna er að efla stafræna viðveru sveitarfélagsins og bæta aðgengi að upplýsingum um ferðaþjónustutengdar greinar og afþreyingar- og útivistarmöguleika í sveitarfélaginu.

Samhliða vefnum ætlar Snæfellsbær að efla kynningarstarf og auka sýnileika sveitarfélagsins á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Sú vinna er þegar farin af stað og verður kynnt fljótlega.

Við opnum vefinn í dag en ábendingar um hvað vanti á hann og megi betur fara á honum eru vel þegnar. Hvetjum við íbúa til jafns á við ferðaþjónustuaðila til að senda tölvupóst á heimir@snb.is ef það er með ábendingar eða spurningar. Saman gerum við hann betri.

Við búum við einstaka náttúrufegurð hér í Snæfellsbæ, höfum aðgang að frábærum veitinga- og gististöðum og hér er boðið upp á þjónustu- og afþreyingu sem ætti að henta öllum aldurshópum og fjölskyldum.

Leggjum öll okkar á vogarskálarnar, verum dugleg að deila myndum og jákvæðum fréttum frá svæðinu og hvetjum fólk til að heimsækja okkur í sumar.

Smelltu hér til að opna nýja ferðavefinn. 

Tímabundin lækkun á hámarkshraða við Rif vegna kríuvarps

By Fréttir

Nýtt skilti við Rif sem varar við varplandi fugla í nágrenninu. Sett upp í morgun, 27. maí 2020.

Hámarkshraði á þjóðveginum/Útnesvegi við Rif verður lækkaður tímabundið í sumar vegna kríuvarps og er unnið að því að setja upp skilti þess efnis nærri Rifi þessa dagana.

Kríuungar sækja í þurrt og heitt malbikið á veginum og borið hefur á því undanfarin ár að keyrt hafi verið á óheyrilegt magn af þeim á veginum milli Rifs og Hellissands. Snæfellsbær hefur unnið að lausn á málinu með Vegagerðinni sem hefur umsjón með veginum. Samkvæmt tillögu Vegagerðarinnar verður hámarkshraði lækkaður úr 90 km/klst. í 70 km/klst. á vissum vegkafla á tímabilinu 15. júní til 15. ágúst ár hvert. Útmörk svæðis sem lækkun á hámarkshraða tekur til má sjá á meðfylgjandi mynd hér að neðan.

Kríuvarpið er breytilegt frá ári til árs og jafnvel frá mánuði til mánuðar þannig að merkingar koma líklega til með að færast eitthvað til á hverju tímabili en útmörk svæðisins haldast óbreytt. Starfsmenn Vegagerðarinnar meta aðstæður hverju sinni.

Lækkun hámarkshraða á vegkaflanum er liður í áætlun vegna verndun fuglalífs á Rifi og með bættum merkingum og tímabundnum takmörkunum á hraða er vonast til að hægt sé að bjarga lífi hundruða kríuunga.

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar fær styrk til rafvæðingar hafna

By Fréttir

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur úthlutað 6,2 milljón króna styrk til rafvæðingar hafna í Snæfellsbæ. Styrkurinn nýtist við lagningu rafmagns í Norðurgarðsbryggju í Ólafsvík. Framkvæmdin hefst eigi síðar en 1. september næstkomandi og verður lokið á fyrrahluta næsta árs. Eru hafnir Snæfellsbæjar í hópi 10 hafna sem fengu úthlutað styrk til verkefnisins.

Styrkurinn er hluti af fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 vegna heimsfaraldursins og er veittur til þeirra hafna sem settu fram verkefni sem féllu að skilyrðum átaksins um orkuskipti í höfnum.

Miklar framkvæmdir við hafnir Snæfellsbæjar

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar hefur á undanförnum mánuðum ráðist í og undirbúið miklar framkvæmdir við hafnirnar í Ólafsvík, Rifi og Arnarstapa.

Í Ólafsvík stendur nú yfir framkvæmd við lengingu Norðurgarðs um 80 metra. Áætluð verklok eru í september 2020.

Dýpkunarframvæmdir eru fyrirhugaðar í Ólafsvík og Rifi á þessu ári. Búið er að dýptarmæla báðar hafnirnar og er verið  að vinna úr þeim þessa dagana auk þess sem unnið er að útboðsgögnum. Stefnt að því að framkvæmdir hefjist í sumar og verði lokið fyrir n.k. áramót.

Þá má jafnframt geta þess að síðasta vetur var höfnin á Arnarstapa dýpkuð og er dýpi innan hafnarinnar komið í þrjá metra. Þeim framkvæmdum er að fullu lokið.

Áætlaður heildarkostnaður vegna framkvæmdanna verður um kr. 390.000.000.

Umgengni ábótavant í Tröð á Hellissandi

By Fréttir

Umgengni í Tröð á Hellissandi hefur verið ábótavant undanfarið og vill Snæfellsbær árétta mikilvægi þess að íbúar gangi vel um opin svæði, þ.m.t. Tröðina.

Í Tröð er fyrirmyndar aðstaða til þess að slaka á og njóta samvistar með fjölskyldu og vinum og frábært að íbúar noti svæðið til dægrastyttingar, en þeir sem nota aðstöðuna eru minntir á að ganga frá eftir sig og taka rusl með sér. Tröðin er sameign okkar allra og mikilvægt að íbúar og aðrir gangi vel um og skilji við svæðið líkt og þeir vilja koma að því.

Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli hefur umsjón með Tröðinni fyrir hönd Snæfellsbæjar og sér félagið til þess svæðið sé snyrtilegt og að þessi einstaka gróðurvin á Hellissandi vaxi og dafni. 

Vinnusmiðja um ferðaafurðir og viðburði á Snæfellsnesi í sumar

By Fréttir

Vinnusmiðja um ferðaafurðir og viðburði – ferðasumarið 2020 á Snæfellsnesi

Þann 20. maí nk. halda Svæðisgarðurinn og Ferðamálasamtök Snæfellsness vinnusmiðju um ferðasumarið 2020 í fjölbrautaskóla Snæfellinga í Gundarfirði. Vinnusmiðjan stendur frá kl. 13:00 – 15:00.

Dagskrá:

13:00 – 13:15 Ragnhildur Sigurðardóttir kynnir verkefni Svæðisgarðsins

13:15 – 13:30 Elín Guðnadóttir kynnir sælkeraferðir um Snæfellsnes

13:30 – 15:00 Vinnusmiðja, samstarf um ferðaafurðir sumarið 2020 með áherslu á svæðisbundinn mat

Allir ferðaþjónustuaðilar á Snæfellsnesi eru velkomnir og hvattir til að mæta.

Sjá auglýsingu

Tjaldsvæðið í Ólafsvík og upplýsingamiðstöð opna fyrir sumarið

By Fréttir

Tjaldsvæðið í Ólafsvík opnaði í gær fyrir sumarið 2020. Við opnun hafa reglur stjórnvalda um tjaldsvæði verið hafðar til hliðsjónar og í fyrstu geta allt að 100 manns verið á tjaldsvæðinu hverju sinni. 

Tjaldsvæðin okkar hafa verið vinsæl síðustu ár og hefur Snæfellsbær leitast eftir því að bæta í sífellu þá aðstöðu og þjónustu sem má finna á tjaldsvæðunum.

Tjaldsvæðið á Hellissandi verður opnað fljótlega en nú standa yfir framkvæmdir á því sem tefja opnun. Verið er að setja nýtt og stærra þjónustuhús sem mun bæta aðstöðuna til muna, þ.m.t. fjölga salernum og sturtum, bæta eldunaraðstöðu og gera aðgengi fyrir fatlaða.

Stefnt er að því að hafa bæði tjaldsvæðin opin út septembermánuð hið minnsta. 

Á tjaldsvæðunum má finna eftirfarandi þjónustur:
 • Klósett (aðgengi fyrir fatlaða)
 • Sturta (aðgengi fyrir fatlaða í Ólafsvík)
 • Heitt og kalt vatn
 • Eldunaraðstaða
 • Vaskarými
 • Úrgangslosun
 • Rafmagn/rafmagnstenglar
 • Internet

Umsjón með tjaldsvæðum hafa Patrick Roloff og Rebekka Unnarsdóttir.

Hægt er að hafa samband við þau í síma 844 – 6929.

Hér má sjá gjaldskrá fyrir sumarið 2020.

Upplýsingamiðstöðin í Átthagastofu Snæfellsbæjar hefur einnig verið opnuð fyrir sumarið. Til að byrja með verður opið á virkum dögum frá kl. 8:00 – 16:00.

Opnun tilboða í framkvæmdir við búsetukjarna fyrir íbúa með fötlun

By Fréttir

Í dag voru opnuð tilboð í framkvæmd við búsetukjarna fyrir íbúa með fötlun við Ólafsbraut í Ólafsvík. Það var Verkís hf. sem sá um útboð fyrir hönd Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga.

Fimm tilboð bárust í verkið sem felst í fullnaðarfrágangi á búsetukjarnanum og eru áætluð verklok á heildarverki 30. ágúst 2021. Tilboð má sjá hér að neðan. Nú fer í gang mat á tilboðum áður en tekin verður ákvörðun um næstu skref. Kostnaðaráætlun verksins hljóðar upp á kr. 243.188.341.-

Heildartilboðsverð með vsk:

 • Spennt ehf – Frávikstilboð Tilboð hljóðar upp á kr. 207.833.288.-
 • Húsheild ehf Tilboð hljóðar upp á kr. 276.026.811.-
 • Spennt ehf Tilboð hljóðar upp á kr. 277.111.763.-
 • A Ísax ehf Tilboð hljóðar upp á kr. 277.518.623.-
 • Heinz byggingar Tilboð hljóðar upp á kr. 294.640.921.-

Um þjónustukjarnann

Í íbúðakjarnanum verða fimm einstaklingsíbúðir með sérinngangi ásamt starfsmannaaðstöðu. Íbúðirnar verða tveggja herbergja, á bilinu 54 til 56 fermetrar að stærð og standa saman af alrými með eldhúskróki og stofu, svefnherbergi, rúmgóðu baði, geymslu og þvottarými. Einn aðalinngangur er inn í bygginguna en þar undir þaki er nokkurs konar „innigata“. Frá henni er gengið inn í hverja íbúð fyrir sig. Útgengt er á veröld við hverja íbúð. Starfsmannarými er í húsinu og hugmyndin er sú að íbúar geti leitað til starfsfólks án þess að fara undir bert loft.

Staðsetning hússins var valin með það fyrir augun að stutt sé í alla helstu þjónustu, ekki síst Smiðjuna, sem er dagþjónusta og vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsgetu. Það er teiknistofan AVH á Akureyri sem hannar húsið.

Sundlaugin í Ólafsvík opnar á mánudag, 18. maí

By Fréttir

Sundlaug Snæfellsbæjar í Ólafsvík verður opnuð að nýju mánudaginn 18. maí en líkt og aðrar sundlaugar landsins hefur hún verið lokuð frá 24. mars vegna COVID-19.

Sundlaugin verður opin 18. maí frá kl. 7:30 – 9:00 og aftur seinni partinn frá kl. 17:00 – 21:00 vegna öryggisnámskeiðs starfsfólks. Frá og með 19. maí verður hefðbundinn opnunartími.

Samkvæmt tilmælum yfirvalda er í fyrstu aðeins heimilt að vera með helming þess gestafjölda sem sundlaugar geta venjulega tekið á móti. Þar af leiðandi getur komið til þess að takmarka þurfi aðgang og jafnvel loka tímabundið ef fjöldi gesta nær hámarki. Sú staða getur til dæmis komið upp að fólk þurfi að hinkra um stund ef margir eru í búningsklefa í einu.

Minnt er á að sóttvarnir eru ein mikilvægasta forvörnin gegn COVID-19 og eru sundlaugagestir beðnir að gæta að eigin öryggi og annarra, að sýna hvert öðru tillitssemi og virða tveggja metra bilið eins og mögulegt er.

Ljósmynd: Líf og fjör í sundlauginni, Árni Guðjón

Snæfellsbær fjölgar sumarstarfsmönnum verulega

By Fréttir

Snæfellsbær fjölgar sumarstarfsmönnum verulega í ljósi atvinnuástandsins í samfélaginu í kjölfar Kórónaveirufaraldursins.  

Undanfarin ár hefur Snæfellsbær ráðið 16 – 20 ungmenni til að sinna ýmsum verkefnum sem falla til á sumrin, m.a. sem flokkstjóra í vinnuskóla og aðra sumarvinnu. Í ljósi atvinnuástands ungs fólk þetta árið var hins vegar ákveðið að Snæfellsbær myndi ráða hátt í 40 ungmenni til starfa. Stór hluti þeirra tekur að sér ný störf í sveitarfélaginu, ekki hefðbundin sumarafleysingarstörf.

Fyrstu sumarstarfsmennirnir hefja störf núna í maí og standa ráðningar fram í miðjan ágústmánuð. Hluti af þessum störfum falla undir atvinnuátak sveitarfélagsins í samvinnu við Vinnumálastofnun sem felur í sér að Vinnumálastofnun hefur samþykkt að greiða niður hluta launa tólf starfsmanna í tvo mánuði. Allir sumarstarfsmenn hjá Snæfellsbæ verða samt sem áður ráðnir til starfa í allt sumar eða þar til skólahald hefst.

Vorhreinsun í Snæfellsbæ frá 14. maí til 2. júní

By Fréttir

Vorhreinsun verður í Snæfellsbæ frá 14. maí til 2. júní

Tökum höndum saman og fegrum bæinn okkar. Flestum okkar líður betur í snyrtilegu umhverfi og nú er góður tími til að hreinsa nærumhverfið og eigin lóðir. 

Gámar fyrir garðúrgang ásamt gámum með mold verða settir upp á eftirtöldum stöðum:

Ólafsvík
við Grundarbraut 38 – 42

Rifi
á túni við Háarif 37

Hellissandi
við félagsheimilið Röst

Molta verður í boði hjá Terra umhverfisþjónustu. Úrgangi skal skilað á starfsstöð Terra sem er opin þriðjudaga og fimmtudaga milli 15:00 – 18:00 og laugardaga kl. 11:00 – 15:00.

Rusl úr görðum og nærumhverfi sem sett hefur verið í ruslapoka við lóðarmörk verður hirt af starfsmönnum áhaldahúss þriðjudaginn 2. júní. Ganga þarf vel frá úrganginum í lokaða poka og binda smærri trjágreinar saman í knippi. Poka með úrgangi og greinaknippi skal setja við lóðarmörk og ganga þannig frá að auðvelt sé að nálgast til að fjarlægja en jafnframt að umferð um gangstéttir teppist ekki.