Monthly Archives

July 2020

Heimsóknarreglur á Dvalarheimilinu Jaðri

By Covid-19, Dvalarheimili, Fréttir

Í ljósi þess að nokkuð bakslag hefur komið í baráttu okkar Íslendinga við COVID-19, viljum við ítreka heimsóknarreglur Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Jaðars, og vekjum athygli á nýjum takmörkunum:

Ættingjar og aðrir gestir sem hafa verið erlendis:

 • Komi EKKI í heimsókn til íbúa í 14 daga frá komu til landsins.
 • Þótt COVID-19 sýnataka á landamærum hafi verið neikvæð, hefur reynslan sýnt að smit geta greinst eftir sýnatöku.

Áfram eru áður útgefnar heimsóknarreglur í gildi, ásamt nýjum takmörkunum:

 • Hámarksfjöldi gesta í einu er 2 einstaklingar.
 • Gestir halda sig inni á herbergjum íbúa og ekki í sameiginlegum rýmum.
 • Gestir skulu virða 2 metra regluna gagnvart öðrum íbúum og starfsfólki.
 • Íbúum er heimilt að fara í bíltúr og í heimsókn til ættingja.  Það eru samt vinsamleg tilmæli að halda fjölda annarra gesta í slíkri heimsókn í lágmarki.

Alls ekki koma í heimsókn ef:

 • Þú ert í sóttkví.
 • Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
 • Þú hefur verið einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
 • Þú ert með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, o.fl.).
 • Þú ert með einhver önnur almenn einkenni um veikindi.

Það er mikilvægt að hafa í huga að baráttan gegn COVID-19 er ekki unnin og smitum getur fjölgað mjög hratt, eins og reynslan hefur kennt okkur.  Ef það gerist þurfum við að grípa aftur til ákveðinna aðgerða og takmarkana.  Munið að ávallt þarf að sýna ítrustu varkárni og virða sóttvarnarráðstafanir í heimsóknum.  Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingarvarnir, s.s. handþvott og handsprittun, en það hefur einmitt sýnt sig að þær skipta grundvallarmáli þegar verið er að forðast að smit berist á milli einstaklinga.

Við óskum eftir því að aðstandendur og gestir virði þessar heimsóknarreglur svo ekki þurfi að koma til frekari aðgerða og takmarkana.

COVID-19 upplýsingar

By Covid-19, Fréttir

Framundan er verslunarmannahelgin, stærsta ferðahelgi ársins á Íslandi.  Í ljósi fjölgunar smita á Íslandi viljum við hvetja fólk til að fara varlega, gæta vel að eigin smitvörnum, virða tveggja metra regluna og taka almennt tillit til annarra og vera ekki á ferðinni þar sem mikill fjöldi fólks er samankominn.

Ennfremur, ef fólk finnur fyrir einhverjum einkennum COVID-19 sýkingar, EKKI vera á ferðinni.  Haldið ykkur heima og vinsamlegast hafið samband við heilsugæsluna  eða farið inn á netspjall á heilsuvera.is.

Vegna frétta um kynþáttafordóma á Snæfellsnesi

By Fréttir

Snæfellsbær fordæmir kynþáttafordóma og hvers kyns mismunun á fólki.

Í ljósi frétta af mæðginum sem urðu fyrir kynþáttafordómum á Snæfellsnesi vill Snæfellsbær árétta að allir eru velkomnir í Snæfellsbæ.

Í Snæfellsbæ er fjölmenning í heiðri höfð og fjölþjóðlegt samfélag okkar byggir duglegt fólk frá fjölmörgum þjóðlöndum. Samfélagið einkennist af víðsýni, jafnrétti og gagnkvæmri virðingu í samskiptum fólks af ólíkum uppruna og það væri vissulega fátæklegra nyti íbúa og gesta af fjölbreyttum kynþáttum, kynjum og trúarbrögðum ekki við.

Fordómar á borð við þá sem um ræðir í þessu tilfelli eru ekki velkomnir í Snæfellsbæ.

Það er von Snæfellsbæjar að mæðginin njóti lífsins á Snæfellsnesi og viti að þau eru ævinlega velkomin.

Dagskrá Sandara- og Rifsaragleði 2020

By Fréttir

Sandara- og Rifsaragleði verður haldin um helgina. Gleðin hefst á morgun með skemmtilegri kassabílakeppni fyrir ökuþóra á öllum aldri og uppistandsveislu með Sóla Hólm í Frystiklefanum.

Dagskráin er hin glæsilegasta, nóg verður um að vera í bænum og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Skipulagsnefnd og aðrir sem koma að gleðinni með einhverjum hætti eiga hrós skilið fyrir metnaðarfulla dagskrá.

Allir velkomnir – góða skemmtun!

Ljósmynd tekin á Götulistahátíð á Hellissandi síðasta sumar.

Takk veggur í Ólafsvík – tökum myndir

By Fréttir

Fyrir 40 árum stigum við Íslendingar framfaraskref á heimsmælikvarða og vorum til fyrirmyndar með því að vera fyrst þjóða til að kjósa konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum, frú Vigdísi Finnbogadóttur.

Á þessum merku og fallegu tímamótum er verðugt að staldra við, huga að því sem vel er gert og þakka þeim sem hafa verið til fyrirmyndar á einn eða annan hátt.

Takk veggur hefur verið settur upp við Norðurtanga í Ólafsvík og hvetjum við íbúa og aðra vini Snæfellsbæjar til að taka virkan þátt í hvatningarátakinu með því að taka mynd af sér við vegginn og deila á samfélagsmiðlum og merkja með #tilfyrirmyndar.

Sjá nánar á vefsíðu átaksins – Til fyrirmyndar

Skrifstofa sýslumanns lokuð 13. – 17. júlí

By Fréttir

Afgreiðsla sýslumanns í Ráðhúsi Snæfellsbæjar verður lokuð vikuna 13. – 17. júlí vegna sumarleyfa.

Samt sem áður verður hægt að koma með ferðakostnað.

Vinsamlegast hafið samband við Sýslumanninn í Stykkishólmi ef erindið er brýnt eða varðar ökuskírteini.

Símanúmer hjá sýslumanni í Stykkishólmi er 458-2300.

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi umhverfisvottuð ellefta árið í röð

By Fréttir

Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi hlutu nýverið umhverfisvottun EarthCheck á starfsemi sína ellefta árið í röð.

Sveitarfélögin fengu fyrst vottun frá vottunarsamtökunum árið 2009, fyrst allra samfélaga í Evrópu, og halda því áfram að vera leiðandi samfélag í úrbótum umhverfis- og samfélagsmála.

Að fá alþjóðlega umhverfisvottun er staðfesting á því að sveitarfélögin fimm leitist við að hafa græn gildi að leiðarljósi í allri sinni starfsemi og miði ákvarðanatöku við að reyna að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af henni. Íbúar og stofnanir sveitarfélaganna eiga heiðurinn sérstaklega skilið þar sem árangurinn er þeirra.

Ferlið er umfangsmikið og felst helsta áskorunin í því að innleiða sjálfbærnistefnu sveitarfélaganna í alla starfsemi, hafa eftirlit með auðlindanotkun og vinna að úrbótum þar sem við getum gert betur. Óháður sérfræðingur metur árlega hvort gögn og starfsemi sveitarfélaganna uppfylli skilyrði endurnýjaðrar vottunar en kröfurnar sem uppfylla þarf aukast með ári hverju. Því er mikilvægt að halda góðu verki áfram og vinna stöðugt að úrbótum í átt til sjálfbærari starfsemi sveitarfélaganna fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Við hvetjum íbúa til að kynna sér umhverfisvottun Snæfellsness með því að smella hér og hafa samband við verkefnastjóra, Guðrún Magneu, ef það vakna hugmyndir eða athugasemdir varðandi umhverfis- og samfélagsmál, sem snerta aðkomu sveitarfélaganna að ferðaþjónustu eða óska eftir frekari upplýsingum.

Auglýst útboð vegna framkvæmda við hafnir Snæfellsbæjar

By Fréttir

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar hefur auglýst tvö útboð vegna framkvæmda við hafnirnar í Ólafsvík og Rifi. Um er að ræða dýpkunarframkvæmdir annars vegar og efnisútboð á stálþili hins vegar.

Dýpkunarframkvæmdir

Dýpkunarframkvæmdir felast í dýpkun á lausu efni í Ólafsvíkurhöfn og Rifshöfn.

Helstu magntölur:

 •    Dýpkun í Ólafsvíkurhöfn alls um 50.000 m3.
 •    Dýpkun í Rifshöfn alls um 100.000 m3.

Tilboð verða opnuð 7. júlí næstkomandi. Verkinu skal lokið eigi síðar en 30. nóvember 2020.

Nánar á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Efnisútboð á stálþili

Hafnir Snæfellsbæjar hafa boðið út efniskaup vegna stálþils við Norðurtangabryggju í Ólafsvík. Sameiginlegt útboð með Reykjaneshöfn og Höfnum Ísafjarðarbæjar.

Tilboð verða opnuð 20. júlí. Gert er ráð fyrir því að reka stálþil niður árið 2021.

Nánar á vefsíðu Ríkiskaupa.