Category

Fréttir

Gatnaframkvæmdir í Sandholti, Ólafsvík

By | Fréttir

Á næstu dögum verður farið í gatnaframkvæmdir í Sandholti. Um er að ræða endurnýjun á götu á eldri hluta Sandholts, frá Grundarbraut að Þverbrekku.

Í stórum dráttum er um að ræða uppgröft, fyllingar, lagningu nýrra holræsislagna og vatnslagna í götunni, ásamt jarðvinnu vegna síma og rafstrengja. Ætlunin er að malbika götuna síðar í sumar og steypa nýja gangstétt.

Vegna framkvæmdarinnar þurfa íbúar að vera viðbúnir aukinni umferð vinnuvéla og lokunum á götunni tímabundið. Einnig má búast við truflun á vatni en íbúar verða upplýstir um það hverju sinni.

Óskað eftir tillögum um Snæfellsbæing ársins 2019

By | Fréttir
Menningarnefnd Snæfellsbæjar óskar eftir tillögum frá íbúum um Snæfellsbæing ársins 2019. Tillögur skulu berast eigi síðar en 10. júní 2019.
Að þeim tíma loknum fer menningarnefnd yfir niðurstöður og kynnir á hátíðarhöldunum þann 17. júní hver hlýtur nafnbótina Snæfellsbæingur ársins 2019.
Farið verður með aðsendar upplýsingar sem trúnaðarmál og ekki verður hægt að persónugreina innsendar tillögur. Athugið að það er ekki hægt að kjósa oftar en einu sinni í hverju tæki.
Mynd: Frá útnefningu árið 2016 þegar Sæmundur Kristjánsson var útnefndur Snæfellsbæingur ársins. Ljósm. af.
 
Smelltu hér og sendu þína tillögu að Snæfellsbæingi ársins 2019

Bilun í símkerfi

By | Fréttir

Vegna bilunar í símkerfi getur verið erfitt að ná sambandi við ráðhús Snæfellsbæjar.  Unnið er að viðgerð og vonir standa til að þetta ástand muni ekki vara lengi.

Uppfært kl. 12:00: Símkerfi er komið í lag.

321. fundur bæjarstjórnar

By | Fréttir

Vakin er athygli á því að 321. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar verður haldinn í Ráðhúsi Snæfellsbæjar, fimmtudaginn 9. maí 2019 kl. 15:00.

Fundir bæjarstjórnar eru öllum opnir og eru íbúar hvattir til að kynna sér bæjarmálin. Dagskrá fundar má sjá hér að neðan. Fundarboð má sjá með því að smella hér.

Dagskrá fundar:

 1. Ársreikningur Snæfellsbæjar 2018 – seinni umræða. Endurskoðendur mæta á fundinn.
 2. Sigurður Scheving og Marsibil Katrín Guðmundsdóttir mæta á fundinn kl. 16:00 til að ræða málefni Sólarsports ehf.
 3. Fundargerð öldungaráðs, dags. 23. apríl 2019.
 4. Fundargerð 126. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 6. maí 2019.
 5. Fundargerð aðalfundar Jeratúns ehf., dags. 29. apríl 2019.
 6. Fundargerð 412. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 10. apríl 2019.
 7. Fundargerð 870. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. apríl 2019.
 8. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 12. apríl 2019, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Sædrottningarinnar ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, minna gistiheimili, að Grundarbraut 8 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.
 9. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 11. apríl 2019, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Sölvahamars slf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, sumarhús, að Sölvaslóð 1 á Arnarstapa, Snæfellsbæ.
 10. Tölvubréf frá Origo ehf., dags. 11. apríl 2019, varðandi tilboð í hljóðkerfi í íþróttahúsið í Ólafsvík.
 11. Tillaga frá öldrunarráði varðandi afslátt fasteignaskatts fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.
 12. Tillaga frá öldrunarráði varðandi húsnæðismál eldri borgara í Snæfellsbæ.
 13. Bréf frá Margréti Bj. Björnsdóttur, dags. 12. apríl 2019, varðandi tilnefningu á áfangastaðafulltrúa fyrir Snæfellsbæ.
 14. Bréf frá HSH, dags. 6. maí 2019, varðandi ungmennaráð HSH.
 15. Bréf frá Elvu Hreiðarsdóttur, dags. 28. apríl 2019, varðandi styrk vegna myndlistanámskeiðs fyrir börn og unglinga í Hvíta húsinu sumarið 2019.
 16. Bréf frá Vestmanna Kommuna, dags. 7. maí 2019, varðandi Vinarbýarvitjan í júní 2019.
 17. Bréf frá Reyni Ingibjartssyni, dags. í apríl 2019, varðandi fjárstuðning við ljósmyndasýninguna „Samvinnuhús“ á árinu 2019.
 18. Bréf frá Guðjóni Bragasyni, dags. 17. apríl 2019, varðandi ný lög um opinber innkaup.
 19. Bréf frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, dags. 3. maí 2019, varðandi ný lög um opinber innkaup og breytingar er varða sveitarfélög.
 20. Bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf., dags. 17. apríl 2019, varðandi arðgreiðslu 2019.
 21. Bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf., ódags., varðandi breytingu á vöxtum verðtryggðra útlána.
 22. Bréf frá Vesturlandsvaktinni, dags. 12. apríl 2019, varðandi söfnun á sjúkrarúmum fyrir HVE.
 23. Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dags. 23. apríl 2019, varðandi breytingar á reglum um fjármál sveitarfélaga.
 24. Minnispunktar bæjarstjóra.

Snæfellsbæ, 7. maí 2019
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri

Tjaldsvæði hafa opnað fyrir sumarið

By | Fréttir

Tjaldsvæðin í Ólafsvík og á Hellissandi opnuðu nýverið fyrir sumarvertíðina. Stefnt er að því að hafa þau opin út septembermánuð hið minnsta.

Tjaldsvæðin hafa verið vinsæl síðustu ár og hefur Snæfellsbær leitast eftir því að bæta þá aðstöðu og þjónustu sem má finna á tjaldvæðunum, nú síðast með því að bæta salernisaðstöðu, með því að leggja rafmagn í það svæði sem vantaði upp á á Hellissandi eftir að tjaldsvæðið var stækkað og endurbótum á núverandi aðstöðu.

Á tjaldsvæðinum má finna eftirfarandi þjónustur:
 • Klósett (aðgengi fyrir fatlaða)
 • Sturta (aðgengi fyrir fatlaða í Ólafsvík)
 • Heitt og kalt vatn
 • Eldunaraðstaða
 • Vaskarými
 • Úrgangslosun
 • Rafmagn/rafmagnstenglar
 • Internet

Umsjón með tjaldsvæðum hafa Patrick Roloff og Rebekka Unnarsdóttir.

Hægt er að hafa samband við þau í síma 844 – 6929.

Mynd: Tjaldsvæði á Hellissandi. Skjáskot af Youtube-myndbandi Tjalda.is (sjá hér)

Laust starf við akstursþjónustu

By | Fréttir

Uppfært 13. maí 2019: Búið er að ráða í starfið.

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga auglýsir laust hlutastarf við akstursþjónustu fatlaðra milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur; tímabilið maí – júní 2019. Tvær ferðir á dag virka daga; kl. 8.00 og til baka kl. 16.00.

 • Laun skv. kjarasamningi sveitarfélaganna og SDS um félagslega liðveislu
 • Þóknun vegna aksturskostnaðar, skv. reglum RSK, hverju sinni

Frekari upplýsingar um starfið veitir forstöðumaður í síma 430 7800.

Umsóknir er tilgreini menntun og fyrri störf, sakavottorð, ljósrit ökuskírteinis og skoðunarskírteinis bifreiðar berist forstöðumanni FSS, Sveini Þór Elinbergssyni, Klettsbúð 4, 360 Snæfellsbæ eða á netfangið sveinn@fssf.is.

Smella hér til að nálgast umsóknareyðublað 

Verkalýðsdagurinn í Snæfellsbæ

By | Fréttir

Alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins verður fagnað hér í bæ á miðvikudaginn, 1. maí næstkomandi, líkt og annars staðar. Verkalýðsfélag Snæfellinga, Starfsmannafélag Dala- og Snæfellssýslu og Sameyki halda samkomur á Snæfellsnesi í tilefni dagsins. Í Snæfellsbæ hefst dagskrá í félagsheimilinu Klifi kl. 15:30 og verður sem hér segir:

 • Kynnir og ræðumaður verður Vignir Smári Maríasson, formaður verkalýðsfélags Snæfellinga.
 • Tónlistarskóli Snæfellsbæjar flytur tónlistaratriði.
 • Þórunn Lárusdóttir og Karl Olgeirsson stíga á svið.
 • Kaffiveitingar að hætti eldri borgara.
 • Sýning frá eldri borgurum.
 • Að lokum verður boðið í bíó í Klifi kl. 18:00.

Félagsmenn og aðrir íbúar eru hvattir til að mæta og eiga saman góðan dag. Börn í fylgd með fullorðnum. Hægt er að smella á myndina til að sjá hana í betri upplausn.

Sumarstörf og vinnuskóli Snæfellsbæjar

By | Fréttir

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um sumarstörf og vinnuskóla Snæfellsbæjar fyrir árið 2019.

Sumarstörf

5-6 leiðbeinendur/flokkstjóra í vinnuskólanum.

Um er að ræða 100% störf í þrjá mánuði frá 23. maí nk. Umsækjendur þurfa að vera 18 ára eða eldri, vera færir um að stýra vinnuskólahópi, hafa reynslu og áhuga á að vinna með og fræða unglinga. Umsækjendur eru tóbakslausir, sjálfstæðir og góðar fyrirmyndir. Þekking á staðarháttum í sveitarfélaginu er einnig nauðsynleg.

5-6 starfsmenn í sumarvinnu.

Um er að ræða 100% starf í þrjá mánuði. Umsækjendur þurfa að vera 18 ára eða eldri, vera áhugasamir, duglegir, hafa áhuga á útivinnu, tóbakslausir og sjálfstæðir.

Vinnuskóli

Vinnuskóli Snæfellsbæjar verður starfræktur sumarið 2019 frá 3. júní til 3. júlí fyrir 8. bekk, alls 4 vikur og 3. júní til 17. júlí fyrir 9. og 10. bekk og árgang 2002, alls 6 vikur. Vinnuskólinn er eingöngu ætlaður fyrir börn sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu eða eiga foreldri með lögheimili í sveitarfélaginu. Umsóknarfrestur rennur út 16. maí.

Nánar:

Auglýsing um sumarstarf

Umsóknareyðublað fyrir sumarstarf

Auglýsing um vinnuskóla

Umsóknareyðublað fyrir vinnuskóla

Strandhreinsun á Snæfellsnesi 4. maí

By | Fréttir

Lengi hefur það tíðkast að íbúar tíni rusl í nærumhverfi sínu í þeim tilgangi að halda landinu hreinu og vernda dýralíf. Síðustu misseri hefur bæði umræðan um rusl í hafi eða landi og aðgerðir gegn þeim vanda aukist. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir viðfangsefninu en ekki síður þeim leiðum sem færar eru til að takast á við vandamálin. Þann 4. maí næstkomandi verður stóri strandhreinsunardagurinn, samvinnuverkefni fjölmargra hagsmunaaðila og íbúa á Snæfellsnesi. Markmiðið með þessu verkefni er að fjarlægja rusl úr fjörum og koma því sem hægt er til endurnýtingar.

Fjögur skipulögð svæði verða hreinsuð þennan dag og er öllum velkomið að taka þátt, ungum jafnt sem öldnum. Á hverju svæði verður leiðtogi sem heldur utan um hreinsun. Stórsekkir verða notaðir undir rusl og farið verður með þá á nærliggjandi gámastöðvar. Í lok hreinsunar verður öllum þátttakendum boðið upp á grillaðar pylsur og hressingu á hverju svæði fyrir sig. Nánari upplýsingar um staðsetningar, tíma og fleira er að finna í auglýsingu strandhreinsunarinnar, á samfélagsmiðlum og heimasíðum verkefnisins.

Það eru Umhverfisvottun Snæfellsness og Svæðisgarðurinn Snæfellsnes sem halda utan um strandhreinsunina í ár í samstarfi við öflugt teymi hagsmunaðila á svæðinu. Snæfellsnes tekur þátt í samnorræna strandhreinsunarverkefni Bláa hersins, Hreinsum Ísland, en aðalhreinsun þess verkefnis í ár verður á Höfn í Hornafirði. Munu fulltrúar Snæfellsness halda utan um 10x100m tilraunareit á einu hreinsunarsvæði, líkt og önnur svæði á Norðurlöndunum, þar sem rusl verður sérstaklega flokkað og því komið í hendur Bláa hersins til greiningar.

Fyrir utan strandhreinsunardaginn sjálfan verða fleiri hreinsanir. Allir grunnskólar á Snæfellsnesi ætla að samræma sínu árlegu vorhreinsun strandhreinsunarverkefninu í ár. Nemendur vinna með fjöru og rusl í hafi sem þema í verkefnavinnu sinni og verður fjöruhreinsun hluti af því. Síðastliðin 10 ár hefur 8. bekkur Grunnskóla Snæfellsbæjar hreinsað fjöruna við Búðahraun og í ár munu þau fara frá kirkjunni að Frambúðum og ströndina til baka. Jafnframt munu nemendur við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í áfanga náttúruvísinda taka fyrir plastmengun í lokaverkefni sínu og tína rusl í fjörum Grundarfjarðar og greina uppruna þess. Starfsfólk og vistmenn Kvíabryggju hafa af nægu að taka. Með dráttarvél og kerru verður hreinsað á nærliggjandi fjöru yfir á norðanvert Kirkjufell og út á Búðir. Þar er töluvert af netum og öðru rusli sem kindur og önnur dýr hafa verið að flækjast í. Nokkrir listamenn, sem taka þátt í listsýningunni Umhverfing 3 sem verður á Snæfellsnesi í ár, ætla að innlima strandhreinsunina í verk sín með því að nota afrakstur hreinsunarinnar.

Umhverfing er árleg sýningaröð þar sem myndlistarmenn sameinast og tengja listsköpun við ákveðið svæði með það markmið að efla aðgengi íbúa að nútímalist í óhefðbundnum sýningarrýmum og skapa umræðu um tilgang lífs og lista.

Kæru Snæfellingar, við hvetjum ykkur til að taka þátt í þessu þarfa og skemmtilega samvinnuverkefni. Mætum vel búin og hreinsum land og fjöru Snæfellsness 4. maí!

Guðrún M. Magnúsdóttir, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness

Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsness

Hreinsunarstaðir strandhreinsunar