Category

Fréttir

Dagskrá Sandara- og Rifsaragleði 2020

By Fréttir

Sandara- og Rifsaragleði verður haldin um helgina. Gleðin hefst á morgun með skemmtilegri kassabílakeppni fyrir ökuþóra á öllum aldri og uppistandsveislu með Sóla Hólm í Frystiklefanum.

Dagskráin er hin glæsilegasta, nóg verður um að vera í bænum og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Skipulagsnefnd og aðrir sem koma að gleðinni með einhverjum hætti eiga hrós skilið fyrir metnaðarfulla dagskrá.

Allir velkomnir – góða skemmtun!

Ljósmynd tekin á Götulistahátíð á Hellissandi síðasta sumar.

Takk veggur í Ólafsvík – tökum myndir

By Fréttir

Fyrir 40 árum stigum við Íslendingar framfaraskref á heimsmælikvarða og vorum til fyrirmyndar með því að vera fyrst þjóða til að kjósa konu sem forseta í lýðræðislegum kosningum, frú Vigdísi Finnbogadóttur.

Á þessum merku og fallegu tímamótum er verðugt að staldra við, huga að því sem vel er gert og þakka þeim sem hafa verið til fyrirmyndar á einn eða annan hátt.

Takk veggur hefur verið settur upp við Norðurtanga í Ólafsvík og hvetjum við íbúa og aðra vini Snæfellsbæjar til að taka virkan þátt í hvatningarátakinu með því að taka mynd af sér við vegginn og deila á samfélagsmiðlum og merkja með #tilfyrirmyndar.

Sjá nánar á vefsíðu átaksins – Til fyrirmyndar

Skrifstofa sýslumanns lokuð 13. – 17. júlí

By Fréttir

Afgreiðsla sýslumanns í Ráðhúsi Snæfellsbæjar verður lokuð vikuna 13. – 17. júlí vegna sumarleyfa.

Samt sem áður verður hægt að koma með ferðakostnað.

Vinsamlegast hafið samband við Sýslumanninn í Stykkishólmi ef erindið er brýnt eða varðar ökuskírteini.

Símanúmer hjá sýslumanni í Stykkishólmi er 458-2300.

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi umhverfisvottuð ellefta árið í röð

By Fréttir

Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi hlutu nýverið umhverfisvottun EarthCheck á starfsemi sína ellefta árið í röð.

Sveitarfélögin fengu fyrst vottun frá vottunarsamtökunum árið 2009, fyrst allra samfélaga í Evrópu, og halda því áfram að vera leiðandi samfélag í úrbótum umhverfis- og samfélagsmála.

Að fá alþjóðlega umhverfisvottun er staðfesting á því að sveitarfélögin fimm leitist við að hafa græn gildi að leiðarljósi í allri sinni starfsemi og miði ákvarðanatöku við að reyna að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af henni. Íbúar og stofnanir sveitarfélaganna eiga heiðurinn sérstaklega skilið þar sem árangurinn er þeirra.

Ferlið er umfangsmikið og felst helsta áskorunin í því að innleiða sjálfbærnistefnu sveitarfélaganna í alla starfsemi, hafa eftirlit með auðlindanotkun og vinna að úrbótum þar sem við getum gert betur. Óháður sérfræðingur metur árlega hvort gögn og starfsemi sveitarfélaganna uppfylli skilyrði endurnýjaðrar vottunar en kröfurnar sem uppfylla þarf aukast með ári hverju. Því er mikilvægt að halda góðu verki áfram og vinna stöðugt að úrbótum í átt til sjálfbærari starfsemi sveitarfélaganna fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Við hvetjum íbúa til að kynna sér umhverfisvottun Snæfellsness með því að smella hér og hafa samband við verkefnastjóra, Guðrún Magneu, ef það vakna hugmyndir eða athugasemdir varðandi umhverfis- og samfélagsmál, sem snerta aðkomu sveitarfélaganna að ferðaþjónustu eða óska eftir frekari upplýsingum.

Auglýst útboð vegna framkvæmda við hafnir Snæfellsbæjar

By Fréttir

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar hefur auglýst tvö útboð vegna framkvæmda við hafnirnar í Ólafsvík og Rifi. Um er að ræða dýpkunarframkvæmdir annars vegar og efnisútboð á stálþili hins vegar.

Dýpkunarframkvæmdir

Dýpkunarframkvæmdir felast í dýpkun á lausu efni í Ólafsvíkurhöfn og Rifshöfn.

Helstu magntölur:

  •    Dýpkun í Ólafsvíkurhöfn alls um 50.000 m3.
  •    Dýpkun í Rifshöfn alls um 100.000 m3.

Tilboð verða opnuð 7. júlí næstkomandi. Verkinu skal lokið eigi síðar en 30. nóvember 2020.

Nánar á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Efnisútboð á stálþili

Hafnir Snæfellsbæjar hafa boðið út efniskaup vegna stálþils við Norðurtangabryggju í Ólafsvík. Sameiginlegt útboð með Reykjaneshöfn og Höfnum Ísafjarðarbæjar.

Tilboð verða opnuð 20. júlí. Gert er ráð fyrir því að reka stálþil niður árið 2021.

Nánar á vefsíðu Ríkiskaupa. 

Þáttur um Snæfellsbæ í sjónvarpinu í kvöld

By Fréttir

Í kvöld verður fjallað um Snæfellsbæ í sjónvarpsþættinum „Bærinn minn“ á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Þátturinn hefst kl. 21:30 og er í umsjá Sigmundar Ernis Rúnarssonar.

Sigmundur Ernir fer víða í sveitarfélaginu, hittir heimamenn og leggur sérstaka áherslu á að ljúka upp leyndardómum í afþreyingu og upplifun, hvort heldur er í þéttbýliskjörnunum sjálfum eða í náttúrunni í kring, svo og hvernig þjónustu er háttað við ferðamenn. 

Fjöldi viðtala við heimamenn skreytir þáttinn og þeir töfrar sem Snæfellsbær hefur upp á bjóða fyrir ferðalög innanlands í sumar gerð góð skil. Þá er myndvinnsla ríkuleg og hrífandi og náttúrufegurðin sem við búum við leynir sér ekki.

Nú þegar hefur Sigmundur Ernir gert heimsóknum til Fjarðabyggðar, Blönduóss, Akureyrar, Vestmannaeyja og Reykjanesbæjar skil í sambærilegum þáttum og verður þátturinn um Snæfellsbæ sá sjötti og síðasti í þáttaröðinni. 

Þátturinn er á dagskrá á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld kl. 21:30.

Hér má lesa frétt á vefsíðu Hringbrautar um ferðalag Sigmundar Ernis um Snæfellsbæ í síðustu viku.

Vestfjarðavíkingurinn fer fram í Snæfellsbæ um helgina

By Fréttir

Aflraunakeppni milli sterkustu manna landsins, Vestfjarðavíkingurinn, fer fram dagana 4. og 5. júlí 2020 og fara tvær keppnisgreinar fram í Snæfellsbæ.

Á laugardeginum mun heljarmennin sem taka þátt lyfta handlóðum af stærri gerðinni við Sjóminjasafnið á Hellissandi og draga bíla við Pakkhúsið í Ólafsvík á sunnudeginum. Keppnin hefur verið haldin árlega undanfarna áratugi og alla jafna fara einhverjar keppnisgreinar fram í Snæfellsbæ.

Dagskrá Vestfjarðarvíkingsins er hægt að sjá hér að neðan.

Laugardagur 4. júlí

Búðardalur kl. 12:00

Réttstöðulyfta og Steinatök við skólann.

Hellissandur kl. 18:00

Risa handlóð við Sjóminjasafnið á Hellissandi

Sunnudagur 5. júlí

Ólafsvík kl. 12:00

Bíladráttur við Pakkhúsið

Stykkishólmur kl. 17:00

Kast yfir vegg við gömlu kirkjuna og blönduð grein við hafnarvoginn

 

Skógræktarfélag Ólafsvíkur fær aukið landsvæði undir Landgræðsluskóg

By Fréttir

Snæfellsbær og Skógræktarfélag Ólafsvíkur hafa gert með sér samning sem stuðlar að ræktun Landgræðsluskóga á landi Snæfellsbæjar.

Samningurinn er til 75 ára og færir Skógræktarfélagi Ólafsvíkur 39,51 hektara land til að rækta upp, þar af eru 12,19 hektarar skilgreindir á nýju skógræktarsvæði eins og sjá má á meðfylgjandi lóðarblöðum/myndum. Eldri samningur sem gerður var árið 2011 féll úr gildi við undirritun nýja samningsins.

Skógræktarfélag Íslands er aðili að samningnum og leggur til þær plöntur sem Skógræktarfélag Ólafsvíkur gróðursetur á landinu ásamt því að hafa faglega umsjón með verkefninu.

Þess má geta að Landgræðsluskógar eru skógræktar- og uppgræðsluverkefni á vegum skógræktarfélaganna í samstarfi við Landgræðsluna, Skógræktina og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Landgræðsluskógar eru umfangsmesta skógræktar- og uppgræðsluverkefni skógræktarfélaga um allt land.

Hér að neðan má sjá skýringarmyndir af skilgreindu skógræktarsvæði skv. nýjum samningi.

Ljósmynd: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Vagn Ingólfsson, formaður Skógræktarfélags Ólafsvíkur og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri undirrita samninginn sl. laugardag. Alfons Finnsson tók myndina.

Kjörfundir vegna kosninga til embættis forseta Íslands

By Fréttir

Kjörfundir vegna kosninga til embættis forseta Íslands, er fram fara laugardaginn 27. júní 2020, verða á eftirfarandi stöðum í Snæfellsbæ.

Ólafsvíkurkjördeild

  • Kjörfundur verður haldinn í Grunnskólanum í Ólafsvík. Kosning hefst kl. 10:00 og stendur til kl. 22:00

Hellissands- og Rifskjördeild

  • Kjörfundur verður haldinn í Grunnskólanum á Hellissandi. Kosning hefst kl. 10:00 og stendur til kl. 22:00

Staðarsveitar- og Breiðuvíkurkjördeild

  • Kjörfundur verður haldinn í Grunnskólanum á Lýsuhóli. Kosning hefst kl. 11:00 og stendur til kl. 20:00 

Hér geta kjósendur kannað hvort og hvar þeir eru á kjörskrá í kosningum.

Kjörstjórn minnir kjósendur á að hafa skilríki meðferðis á kjörstað.