Category

Fréttir

Mikið malbikað í Snæfellsbæ í sumar

By | Fréttir

Í sumar var mikið framkvæmt á vegum Snæfellsbæjar og lagði sveitarfélagið í umtalsverðar framkvæmdir við endurbætur á götum og göngustígum.

Malbikunarframkvæmdir gengu vel og var veðurblíðan með slíkum eindæmum að raunar var malbikað meira en áætlun gerði ráð fyrir. Alls voru lagðir 32.764 fermetrar af malbiki á götur, göngustíga og bílaplön í Ólafsvík, Rifi og Hellissandi sem og á hafnarsvæði í Ólafsvík og Rifi. Það voru starfsmenn frá Malbikun Akureyrar sem sá um alla malbikun.

Þá lauk Vegagerðin við malbikun á Ólafsbrautinni og nýttu íbúar og fyrirtæki einnig tækifærið til einkaframkvæmda við húsakynni og starfsstöðvar. Þá má einnig nefna að Þjóðgarðurinn malbikaði bílaplanið við Gestastofuna á Malarrifi.

Auk þessa miklu malbikunarframkvæmda standa nú yfir framkvæmdir við steypuvinnu vegna gangstétta í Ólafsvík, en steyptir verða 1100 metrar nú í haust.

Dvalar- og hjúkrunarheimilið óskar eftir starfsfólki

By | Fréttir

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Jaðar auglýsir eftirfarandi störf til umsóknar.

Ræsting

 • 50% starfshlutfall
 • frá 1. október 2019
 • vinnutími frá 8:00 – 12:00

Afleysingar

 • Vaktavinna
 • Íslenskukunnátta skilyrði

Leitast er eftir jákvæðu starfsfólki til góðra samskipta og  umönnum vistmanna.

Á Jaðri er starfsumhverfi gott og gefandi.

Laun skv. kjarasamningi SDS og sveitarfélaganna

Skriflegar umsóknir er tilgreini menntun, fyrri störf, kennitölu og símanúmer berist undirritaðri sem veitir allar frekari upplýsingar um störfin.

Inga Jóhanna Kristinsdóttir, forstöðumaður s. 433-6933, 857-6605
inga@snb.is

Fjöruferð á Malarrif á sunnudaginn

By | Fréttir

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru þann 16. september og Strandmenningarhátíðar á Snæfellsnesi býður þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, í samvinnu við Vör sjávarrannsóknarsetur, Hafrannsóknarstofnun og Svæðisgarðinn Snæfellsnes, í fjöruferð sunnudaginn 15. september.

Fjölskylduvæn fræðsla, fjör og útivist. Hvað finnum við í fjörunni? Er eitthvað að finna undir steinunum? Hvernig skyldu trjádrumbarnir í fjörunni komast þangað, er eitthvað gert við þá? Hvað finnum við í Salthúsinu?

Forvitnir krakkar á öllum aldri og forráðamenn hvattir til þess að koma.

Mæting við gestastofuna á Malarrifi kl:13:00.
Verið klædd eftir veðri og ekki verra að vera í stígvélum.

Viðburður á Facebook

Rafrænir reikningar frá Hafnarsjóði

By | Fréttir

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar minnir á að þann 1. júlí síðastliðinn voru teknar upp rafrænar sendingar á reikningum og hætt að senda þá með bréfpósti eins og áður var.

Alla reikninga er nú að finna undir „Rafræn skjöl“ í netbanka fyrirtækja.

3. flokkur kvenna UMF Víkings/Reynis í undanúrslit

By | Fréttir

Stelpurnar í 3. flokki kvenna UMF Víkings/Reynis gerðu góða ferð norður á Akureyri í gær þar sem mikilvægur leikur beið þeirra gegn sameinuðu liði Fjarðarbyggðar/Hattar/Leiknis í úrslitakeppni Íslandsmótsins.

Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu leikinn 2 – 1. Nú bíður þeirra undanúrslitaleikur gegn Breiðablik sem leikinn verður á höfuðborgarsvæðinu þann 1. október nk. 

Stelpurnar hafa spilað listavel í sumar og nú stendur einungis einn leikur á milli þeirra og úrslitaleiks um Íslandsmeistaratitilinn.

Áfram stelpur!

Gangstéttir steyptar í Ólafsvík

By | Fréttir

Eins og glöggir vegfarendur í Ólafsvík hafa tekið eftir standa nú yfir endurbætur á gangstéttum víða í bænum. Í þessari atrennu á að steypa um 1100 metra af gangstéttum.

Búið er að slá upp fyrir steypu við Hjarðartún að hluta og verið að undirbúa jarðveg fyrir steypu á Bæjartúni og Kirkjutúni. Þá verður einnig steypt gangstétt við Sandholt, frá Grundarbraut að Klifbraut, og við gatnamót Sandholts/Skálholts og Sandholts/Þverholts.

Góð aðsókn í sundlaugar yfir sumartímann

By | Fréttir

Aðsókn í Sundlaug Snæfellsbæjar er mjög svipuð milli ára þó veðrið í sumar hafi verið mun betra en árið á undan en í júní, júlí og ágúst á síðasta ári komu 7624 gestir í sundlaugin en 7726 á sama tíma í ár.

Að sögn Sigrúnar Ólafsdóttir, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, jókst þó fjöldi ferðamanna á milli ára. Aðsókn í sundlaugina í Snæfellsbæ hefur þó aukist til muna eftir frábærar endurbætur sem gerðar voru á henni árið 2016. Lýsulaugar í Staðarsveit opnuðu aftur eftir miklar breytingar þann 13. júní síðastliðinn. Frágangi er þó ekki alveg lokið og verður hafist handa við að klára hann nú með haustinu. Á tímabilinu frá miðjum júní til loka ágúst komu á bilinu 8700 til 9000 gestir í laugina og er ánægjulegt að segja frá því að heimsóknum íslendinga í laugin hefur fjölgað til muna. Búið er að loka lauginni þetta haustið og mun hún opna aftur með vorinu.

Birtist fyrst í bæjarblaðinu Jökli.

Samið við Grjótverk ehf. um lengingu Norðurgarðs

By | Fréttir

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar óskaði í júlí sl. eftir tilboðum vegna framkvæmda við lengingu Norðurgarðs í Ólafsvík. Um er að ræða lengingu um 80 metra.

Sjö tilboð bárust og voru þau opnuð þann 30. júlí sl. Ákveðið var í kjölfar yfirferðar tilboða að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Grjótverk ehf. frá Hnífsdal, og var samningur þess efnis undirritaður fyrr í vikunni.

Framkvæmdir hefjast nú í haust með námuvinnslu og stefnt er að því að byrja að keyra garðinn út í apríl nk. Áætluð verklok eru 1. september 2020.

Eftirfarandi tilboð bárust:

 1. Grjótverk ehf. Hnífsdal, 147.000.000.-   114.9%
 2. Borgarverk ehf. Borgarnesi, 153.454.529.-   119.9%
 3. Norðurtak ehf. Sauðárkróki, 159.154.500.-   124.3%
 4. Suðurverk ehf. Kópavogi, 177.722.300.-   138.9%
 5. Stafnafell ehf. Snæfellsbæ, 192.470.670.-   150.4%
 6. Ístak h.f. Mosfellsbæ, 200.449.021.-   156.6%
 7. G. véar ehf. Reykjavík, kr. 210.613.400.-   164.6%

Kostnaðaráætlun verkkaupa, kr. 127.990.600.-   100.0%

Mynd: Björn Arnaldsson, hafnarstjóri, og strákarnir frá Grjótverk ehf. eftir undirritun samningsins.

Leikur að læra í leikskólanum

By | Fréttir

Leikskóli Snæfellsbæjar er einn af mörgum leikskólum á landinu sem hefur fengið vottun sem „Leikur að læra“ leikskóli, en leikskólar sem fara í gegnum innleiðingu á starfinu miða að því að auka gæði leikskólastarfs með skipulögðu námi í gegnum leik, hreyfingu og spennandi foreldrasamstarf.

Leikskóli Snæfellsbæjar er nú að hefja sitt þriðja starfsár undir þessum formerkjum og verður áherslan lögð á útikennslu í vetur. Í tilefni af því vildi Ingigerður Stefánsdóttir, leikskólastjóri, koma stuttri kynningu á starfinu á framfæri.

Leikur að læra er í grunninn kennsluaðferð þar sem nemendum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum hreyfingu og leik. Við notum leikinn, hreyfingu og skynjun á markvissan og faglegan hátt.

Yngstu börnin eru í leikur að læra einu sinni í viku en þau eldri tvisvar í viku. Einnig eru  foreldraverkefnin tvisvar í viku, fimm mínútur í senn.

Hér að neðan má fræðast um starfið.

Hvað er leikur að læra?

Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki, hreyfingu og skynjun á skipulagðan, líflegan og árangursríkan hátt!

Leikur að læra er hugsað út frá þörfum barna til að leika og hreyfa sig og upplifa námsefnið í gegnum mismunandi skynfæri. Með því að nota kennsluaðferðina eykst úthald og einbeiting ungra nemenda. Auðvelt að aðlaga kennsluna að ólíkum þörfum einstaklinga með líkamlega og andlega og félagslega vellíðan barna að leiðarljósi.

Fyrir alla kennara 2 - 9 ára barna

Kennarinn getur nýtt sér einstaka hugmyndir og leiki aðferðarinnar, byggt upp tíma eftir ákveðnu kerfi eða farið skref fyrir skref eftir heildstæðum kennsluáætlunum aðferðarinnar. Leikur að læra hentar því fyrir reynda kennara og óreynt starfsfólk.

Meiri hreyfing, betri líðan, betri einbeiting

Kennari sem hefur tileinkað sér kennsluhætti Leikur að læra fer að hugsa námsefnið út frá öðru sjónarhorni – frá sjónarhorni barna og þörf þeirra til að hreyfa sig. Með því að nota aðferðir Leikur að læra höfum við áhrif á andlega og líkamlega heilsu nemenda okkar til framtíðar. Þau venjast því að standa upp og hreyfa sig reglulega og sjá að það er viðurkennt að við lærum á mismunandi hátt.

Fræðin

Leikur að læra byggir meðan annars á rannsóknum Bransford, Brown og Cocking á heilastarfsemi barna um líffræðileg áhrif náms og hreyfingar. Heyfing manninum eðlislæg og öll skynhreyfireynsla eykur varðveislu þekkingar. Hreyfing hefur einnig áhrif á hæfileika til að varðveita nýja þekkingu eða kunnáttu og endurkalla hana. Einhæf og fljótlærð viðfangsefni virðast hafa lítil langtímaáhrif á meðan reynsla sem af skynjuninni hlýst, í samvinnu við umhverfið, hjálpar heilanum að mynda ný taugamót. Frá þeim myndast nýjar brautir um heilann sem ná að virkja óvirkar stöðvar sem þar eru til staðar (Bransford, Brown og Cocking, 2000).

Auk þess hafa heilarannsóknir sýnt fram á að hreyfing veldur ýmsum efnahvörfum í heilanum þ.a.m. myndast efnið acetylocholine sem talið er auka leiðni taugaboða eða leiða til myndunnar nýrra taugafruma (Bransford, Brown og Cocking, 2000; Field og McManes, 2006)

Foreldrasamstarf - gaman saman

Leikur að læra leggur mikið upp úr góðu samstarfi við foreldra í gegnum foreldraverkefni, heimavinnu, bekkjarkvöld og fleira. Þessir þættir stuðla að því að gera foreldra meðvitaða um nám barna sinna og mikilvægi góðrar samvinnu milli heimili og skóla.

Leikur að læra er ekki ein bók, eitt spil eða ein námsgrein. Leikur að læra er kennslustíll sem hentar með öðrum kennsluaðferðum i ólíkum fögum.

Réttir í Snæfellsbæ haustið 2019

By | Fréttir

Samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðar- og fjallaskilanefnd Snæfellsbæjar verða réttir í Snæfellsbæ haustið 2019 sem hér segir:

Laugardaginn 21. september 2019

 • Ólafsvíkurrétt í Ólafsvík, Snæfellsbæ
 • Þæfusteinsrétt á Hellissandi/Rifi, Snæfellsbæ

Laugardaginn 28. september 2019

 • Ölkeldurétt í Staðarsveit, Snæfellsbæ
 • Bláfeldarrétt í Staðarsveit, Snæfellsbæ
 • Grafarrétt í Breiðuvík, Snæfellsbæ