Category

Fréttir

Betri Snæfellsbæjar – hugmyndir til framkvæmda árið 2020

By Fréttir

Snæfellsbær opnaði samráðsvettvanginn Betri Snæfellsbæ í vetur og óskaði eftir tillögum um framkvæmdir og viðhaldsverkefni frá íbúum sveitarfélagsins.

Góð þátttaka reyndist meðal íbúa og þegar upp var staðið höfðu borist 45 fjölbreyttar hugmyndir að betri Snæfellsbæ. Tæknideildin fór yfir innsendar tillögur og óskaði eftir því í kjölfarið að bæjarstjórn Snæfellsbæjar gerði ráð fyrir töluverðum fjármunum til verkefnisins í fjárhagsáætlun þessa árs.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 5. desember síðastliðinn að veita 18 milljónum til verkefnisins. 

Eftir vinnu tæknideildar við greiningu og forgangsröðun þeirra hugmynda sem bárust verða að lágmarki tólf þeirra framkvæmdar árið 2020 og gert er ráð fyrir að nýta veitt fjármagn að fullu til framkvæmda á þeim. Aðrar hugmyndir geta þó komið til framkvæmda ef tækifæri gefst til og nýtast í skipulagsvinnu hjá Snæfellsbæ næstu árin.

Eftirfarandi hugmyndir verða framkvæmdar:

 • Hundasvæði komið upp við þéttbýliskjarna
 • Afþreying fyrir börn í Rifi bætt
 • Göngustígar við Ólafsbraut í Ólafsvík tengdir saman
 • Vegglistaverk á Hellissandi lýst upp
 • Lýsing bætt við Klifbraut
 • Handrið sett á brú við Hraðfrystihúsið á Hellissandi
 • Grenndargám komið fyrir í dreifbýli
 • Bekkjum verður fjölgað við göngustíga og áningastaði
 • Verndun fuglalífs á Rifi
 • Keflavíkurgata á Hellissandi verður fegruð og lagfærð
 • Útilíkamsræktarstöð, hönnun svæðis
 • Hjólarampur, hönnun svæðis

Nú þegar hefur eitt vegglistaverk á Hellissandi verið lýst upp. 

Hægt er að lesa frekar um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Betri Snæfellsbæjar hér að neðan og í viðhengi efst í frétt. Þar er einnig að finna svör við innsendum hugmyndum íbúa sem koma ekki til framkvæmda að þessu sinni.

Snæfellsbær þakkar fyrir góða þátttöku.

Stofnfundur Matarklasa Snæfellsness

By Fréttir

Fimmtudaginn 23. janúar n.k. verður stofnfundur Matarklasa Snæfellsness haldinn í Bæringsstofu í Grundarfirði. Hefst fundur kl. 15:00 og stendur til 17:00.

Eins og íbúar Snæfellsness vita vel þá er svæðið ríkt frá náttúrunnar hendi þegar kemur að mat og endurspeglast það í starfsemi á svæðinu – hér eru stöndug sjávarútvegsfyrirtæki, blómlegur landbúnaður og hágæða veitingastaðir sem bjóða upp á mat úr héraði. Þessi áhersla á mat kom einnig sterklega í ljós við gerð svæðisskipulags Snæfellsness og í vinnu við Svæðisgarðinn Snæfellsnes. Það er skýr vilji til að matvælaframleiðsla fari fram í beinum og nánum tengslum við náttúruna og með sjálfbæra nýtingu auðlinda að leiðarljósi. M.a. er lögð áhersla á nýsköpun, að aðgengi að snæfellsku hráefni og matvælum aukist og að þekking á matvælaframleiðslu og menningu og hefðum verði efld.

Á sama tíma og markmiðið er að gera Snæfellsnes  að áfangastað fyrir sælkera þá er stefnan að auka aðgengi íbúana að snæfellsku hráefni.

Nú er komið að því að stofna Matarklasa Snæfellsness. Matarklasinn verður vettvangur fyrir samstarf í kringum þessi markmið og einnig tækifæri fyrir hagsmunaaðila að hittast, deila þekkingu og koma fram með hugmyndir um hvernig hægt er að efla og styrkja matartengda starfsemi á svæðinu.

Þannig að ef þú vinnur við frumframleiðslu á mat – hvort sem það er sjávarútvegur eða landbúnaður, rekur veitingastað, mötuneyti eða kaffihús, vinnur við matvælaframleiðslu á einn eða annan hátt, kennslu eða menningatengda starfsemi og/eða hefur mikinn áhuga á þessum málefnum þá endilega komdu á stofnfund matarklasans.

Ef þig vantar frekari upplýsingar ekki hika við að hafa samband: elin@snaefellsnes.is

Dagskrá:

15:00-15:15 Kynning á matarverkefnum Svæðisgarðsins og framtíðarsýn

15:15-16:00 Umræður. Fundargestir fá tækifæri til að hafa áhrif á vinnuna framundan og stefnuna.

16:00-16:20 Kynning á Sælkeraferðum um Snæfellsnes, verkefni styrkt af Matarauði Íslands. Útskýrt verður fyrir hverja þetta verkefnið er ætlað og hvaða leikreglur verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa verkefnis.

16:20- 16:45 Umræða um Sælkeraferðir.

16:45- 17:00 Næstu skref 

Óskað er eftir umsóknum vegna söluvagna fyrir sumarið 2020

By Fréttir

Snæfellsbær óskar eftir umsóknum vegna söluvagna í sveitarfélaginu fyrir sumarið 2020. Umsækjandi um stöðuleyfi söluvagna getur nálgast eyðublað á meðfylgjandi hlekk hér að neðan.

Umsækjendur eru beðnir um að kynna sér samþykkt um götu- og torgsölu. Samþykktina má nálgast á meðfylgjandi hlekk hér að neðan.

Umsóknum skal skilað til Tæknideildar Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, 360 Hellissandi eða á póstfangið: byggingarfulltrui@snb.is fyrir 17. febrúar n.k.

Tæknideild Snæfellsbæjar

Bæjarstjórnarfundur 9. janúar 2020

By Fréttir

Vakin er athygli á því að 328. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar verður haldinn í Ráðhúsi Snæfellsbæjar fimmtudaginn 9. janúar 2020 kl. 10:30.

Fundir bæjarstjórnar eru öllum opnir og eru íbúar hvattir til að kynna sér bæjarmálin. Dagskrá fundar má sjá hér að neðan. Fundarboð má nálgast hér.

Dagskrá fundar:

 1. Fundargerðir 188., 189. og 190. fundar menningarnefndar, dags. 15. nóvember, 11. desember og 20. desember 2019.
 2. Fundargerð 132. fundar hafnarstjórnar, dags. 27. desember 2019.
 3. Fundargerð rekstrarnefndar Rastar, dags. 25. nóvember 2019.
 4. Fundargerð 104. fundar stjórnar FSS, dags. 18. desember 2019, ásamt endanlegri fjárhagsáætlun Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga fyrir árið 2020.
 5. Fundargerð 418. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 6. desember 2019.
 6. Fundargerð 877. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 13. desember 2019.
 7. Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, dags. 2. janúar 2020, varðandi framlög sveitarfélaga til HeV á árinu 2020.
 8. Bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 30. desember 2019, varðandi úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2019/2020.
 9. Bréf frá Vegagerðinni, dags. 9. desember 2019, varðandi niðurfellingu Traðarvegar nr. 5707-01 af vegaskrá.
 10. Bréf frá Félagi heyrnarlausra, dags. 17. desember 2019, varðandi fjárstuðning vegna Táknmálsapps.
 11. Minnispunktar bæjarstjóra.

Þrettándabrenna í Ólafsvík

By Fréttir

Á þrettándanum 6. janúar kl. 18 verður gengið frá Pakkhúsinu að brennu rétt innan við félagsheimilið á Klifi. Gengið verður í fylgd álfadrottningar, álfakóngs, álfameyja og púka auk mennskra manna.

Við brennuna verður flugeldasýning.

Íbúar Snæfellsbæjar og nærsveita eru hvattir til að mæta í gönguna og taka þátt í að kveðja jólin.

Ljósmynd frá þrettándanum árið 2014. Þröstur Albertsson.

Kynning: Opið hús vegna breytingar á aðalskipulagi Snæfellsbæjar

By Fréttir

Mánudaginn 6. janúar 2020 kl. 15:00 – 18:00 verður haldið opið hús í Ráðhúsi Snæfellsbæjar þar sem drög breytingar aðalskipulags Snæfellsbæjar vegna fyrirhugaðs golfvallar sunnan Rifs verða kynnt.

Breytingin felst í að óbyggðu svæði er breytt í íþróttasvæði (ÍÞ-3) þar sem fyrirhugaður golfvöllur verður. Breyting verður því á þéttbýlisuppdrætti Hellissands og Rifs.

Íbúar og hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og kynna sér skipulagshugmyndir strax á frumstigi.

Eftir kynningu á opnu húsi verða skipulagsgögn lögð fyrir bæjarstjórn til frekari afgreiðslu. Ákveði bæjarstjórn að auglýsa ofangreindar skipulagsbreytingar mun frestur til að gera athugasemdir vera að minnsta kosti sex vikur.

Afgreiðslustímar og þjónusta um jól og áramót

By Fréttir

Afgreiðslutímar helstu stofnana og þjónusta á vegum sveitarfélagsins tekur að venju breytingum um jól og áramót.

Ráðhús Snæfellsbæjar verður lokað á aðfangadag, jóladag og annan í jólum sem og gamlársdag og nýársdag.

Sundlaug Snæfellsbæjar verður lokuð á jóladag, annan í jólum og nýársdag. Sundlaugin verður opin sem hér segir:

Mánudagur 23. desember 07:30 – 17:00
Þriðjudagur 24. desember 10:00 – 12:00
Föstudagur 27. desember 07:30 – 21:00
Laugardagur 28. desember 10:00 – 17:00
Sunnudagur 29. desember 10:00 – 17:00
Mánudagur 30. desember 07:30 – 21:00
Þriðjudagur 31. desember 10:00 – 12:00

Bókasafn Snæfellsbæjar verður opið mánudaginn 30. desember frá 16:00 – 18:00. Lokað aðra daga yfir hátíðina.

Opnunartími hjá Terra (Gámaþjónustan) verður með breyttu sniði yfir hátíðina:

Mánudagur 23. desember 15:00 – 18:00
Laugardagur 28. desember 11:00 – 15:00
Mánudagur 30. desember 15:00 – 18:00
Fimmtudagur 2. janúar 15:00 – 18:00

Lokað aðra daga.

Bætt umferðaröryggi í þéttbýli Snæfellsbæjar

By Fréttir

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur ákveðið, að fengnum tillögum Snæfellsbæjar, að hraðamörk á götum í þéttbýli sveitarfélagsins verði 30 km á klst.

Óbreytt hraðamörk verða á Útnesvegi í gegnum Hellissand og Ennis- og Ólafsbraut í gegnum Ólafsvík.

Starfsmenn Snæfellsbæjar munu á næstu dögum setja upp ný umferðarmerki sem gefa til kynna breytt hraðamörk.

Í nýjum umferðarlögum sem taka gildi 1. janúar 2020 er m.a. kveðið á um það að hámarksökuhraða skuli tilgreina í heilum tugum, að undanteknum hámarkshraðanum 15 km á klst. 

Lögreglan efast ekki um að ökumenn munu taka fullt tillit til framangreindra breytinga.

Innritun í tónlistarskóla fyrir vorönn 2020

By Fréttir

Innritun í skólavistun Tónlistarskóla Snæfellsbæjar fyrir vorönn 2020 stendur nú yfir. Umsóknum skal skila á skrifstofu tónlistarskólans að Hjarðartúni 6 í Ólafsvík. Einnig er hægt að hringja í síma 433 – 9928 eða senda tölvupóst: tonlistarskoli@snb.is

Samningur skal gerður við nemendur og forráðamenn um hljóðfæraleigu, þar sem m.a. eru skilmálar um meðferð hljóðfæra.

Ath: Hálft nám reiknast sem 60% af fullu gjaldi.

Í þeim tilvikum sem systkini yngri en 18 ára stunda nám við skólann skal veittur systkinaafsláttur. Systkinaafsláttur skal nema 25% fyrir annað systkini og 50% fyrir þriðja systkini. Afsláttur reiknast ávallt af ódýrasta náminu.

Systkinaafsláttur á eingöngu við um systkini, ekki frændsystkini, þó svo lögheimili og greiðandi sé sá sami.

A.T.H. Við innritun hefur forráðamaður skuldbundið sig, að greiða skólagjöld út önnina.

Gjaldskrá tónlistarskóla Snæfellsbæjar