Category

Fréttir

Umverfisvottun Snæfellsness til Azoreyja

By | Fréttir

Guðrún Magnea, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness, er á leið til Azoreyja.

Það hefur löngum verið vitað að Snæfellingar eru í forystusveit umhverfismála hér á landi, en hróður umhverfisvottunar á Snæfellsnesi hefur nú borist alla leið til Azoreyja!

Guðrún Magnea, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness, er á leið til Azoreyja að kynna Snæfellsnes og þá reynslu sem samfélagið hér hefur hlotið af umhverfisvottunarverkefninu. Azoreyjar eru að stíga sín fyrstu skref í þessum málum og feta þá slóð sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi stikuðu fyrir áratug síðan.

Óskaði þarlendur verkefnastjóri liðsinnis frá Guðrúnu Magneu við upplýsingaöflun og flýgur henni út til að kynna EarthCheck-verkefnið og ávinning þess fyrir samfélagið. Guðrún Magnea heldur því utan á morgun með kynningu um Snæfellsnes í farteskinu, en hún mun halda erindi á ráðstefnu þar í landi um ferðaþjónustu og sjálfbærni. Erum við fullviss um að Guðrún Magnea verður frábær fulltrúi Snæfellinga þar ytra og er virkilega ánægjulegt að sjá önnur samfélög í heiminum horfa til okkar hér á Snæfellsnesi.

Við sendum Guðrúnu Magneu okkar allra bestu kveðjur og óskum henni góðrar ferðar! 

Róbotar, rafrásir og forritun í Snæfellsbæ

By | Fréttir

Um páskana fyrirhugar Skema að halda skapandi tækninámskeið í Snæfellsbæ fyrir börn í 1. – 7. bekk. Námskeiðin fara fram í Grunnskólanum í Ólafsvík í næstu viku, dagana 16. og 17. apríl. Kennt verður báða dagana, þrjá tíma í senn, samtals 6 klst.

 • Námskeið fyrir yngri hóp stendur báða daga frá kl. 9:00 – 12:00.
 • Námskeið fyrir eldri hóp stendur báða daga frá kl. 13:00 – 16:00.

Skráningu lýkur 10. apríl. Verð: 10.000 krónur.

Hér má skrá börn á námskeið.

Skema er fyrirtæki sem nú er hluti af Háskólanum í Reykjavík og hefur frá stofnun unnið ötullega að því að kenna börnum og unglingum forritun með ýmsum fjölbreyttum tækninámskeiðum. Námskeiðin hafa það að leiðarljósi að styrkja ýmsa færni, m.a. rökhugsun, sköpun, félagsfærni, teymisvinnu, samskipti, betri sjálfsmynd og þrautalausnir.

Tvö námskeið verða í boði hér í bæ um páskana og má lesa nánar um þau hér að neðan:

Tækjaforritun fyrir 1. - 4. bekk

Á námskeiðinu fá nemendur tækifæri til að leysa hin ýmsu verkefni með því að skapa lausnir með LittleBits rafrásum. LittleBits eru lítríkir kubbar sem smellast saman með seglum til að endurspegla rafrásir og efla sköpunarkraft nemenda.

Á námskeiðinu verður einnig unnið með Makey Makey örtölvuna sem er frábært tæki sem breytir einföldum hlutum í stjórntæki fyrir tölvuna. Sem dæmi má nefna banana, blóm og hnífapör sem breytt er í hljóðfæri eða lyklaborð.

Nemendur fá einnig að kynnast hönnun tölvuleiks með Bloxels kubbum og hvernig hægt er að vekja hann til lífs með Bloxels appinu. Yngstu nemendurnir fá að kynnast því hvernig hægt er að lita mynd á blaði og sjá síðan lifandi þrívíða útgáfu í spjaldtölvu.

Við skoðum líka Raspberry Pi og hvernig hún hefur verið nýtt til að setja saman eitt stykki Kano tölvu og hvernig hægt er að nýta þá tölvu til að forrita og kynnast einföldum tölvuskipunum.

Svo má ekki gleyma róbótafjölskyldunni okkar en við setjum upp hinar ýmsu þrautir til að leysa með Ollie, Sphero og BB-8 róbótunum.

Forritun - grunnur fyrir 5. - 7. bekk

Á námskeiðinu er farið í gegnum grunnatriði forritunarmál með Scratch. Scratch er kubbaforritunarmál hannað til þess að kenna börnum grunnhugtök forritunar og forritunarlegrar hugsunar í einföldu og myndrænu umhverfi. Námskeiðið er kennt í gegnum litla leiki sem nemendur hanna og forrita með leiðbeinendum Skema.  Námskeið Skema byggja á hugtökum jafningjalærdóms og tilraunastarfsemi.

Með yngri þátttakendum notum við Kodu Game Lab, en það er enn einfaldara umhverfi sem krefst ekki mikis læsis og höfðar þess vegna betur til yngri þátttakenda.

Scratch er frítt forritunarumhverfi sem er aðgengilegt á netinu. Þetta gerir það að verkum að nemendur geta auðveldlega haldið áfram að fikta í og læra á forritun heimavið. Scratch er aðgengilegt á íslensku.

Framkvæmdir við Þjóðgarðsmiðstöð hefjast

By | Fréttir

Mynd af framkvæmdasvæði Þjóðgarðsmiðstöðvarinnar.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu nú í morgun vegna framkvæmda við Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi:

Föstudaginn 5. apríl, hefjast framkvæmdir við Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. 1.sti áfangi framkvæmda er jarðvegsvinna. Grunnur hússins hefur þegar verið mældur út og framkvæmdir eru að hefjast. Í tilefni þess mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, heimsækja framkvæmdastað á föstudag klukkan 14:45, skoða aðstæður og spjalla við heimamenn og gesti. Boðið verður uppá kaffi og kleinur í Sjóminjasafninu á Hellissandi til að fagna upphafi þessa merka áfanga.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Aukinn opnunartími í upplýsingamiðstöðinni

By | Fréttir

Snæfellsbær hefur ákveðið að mæta eftirspurn og bæta þjónustu við gesti með rýmri opnunartíma upplýsingamiðstöðvar í Ólafsvík. Nýr opnunartími tekur nú þegar gildi og verður opið sem hér segir:

3. apríl – 15. maí
Opið alla virka daga frá 10:00 – 16:00.

15. maí – 31. ágúst
Opið alla virka daga frá 8:00 – 19:00. Opið um helgar frá 9:00 – 17:00.

Upplýsingamiðstöðin er staðsett í Átthagastofu Snæfellsbæjar í Ólafsvík. Síðastliðið sumar sóttu þangað á um 7.000 ferðamenn í leit að upplýsingum, leiðbeiningum og öðrum ráðum og standa vonir til að með auknum opnunartíma geti upplýsingamiðstöðin stutt betur við þau fyrirtæki sem eru í ferðaþjónustu í Snæfellsbæ.

Kristinn nýr stjórnarformaður Lánasjóðs sveitarfélaga

By | Fréttir

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, var kjörinn stjórnarformaður Lánasjóðs sveitarfélaga, á aðalfundi lánasjóðsins fyrir helgi. Kristinn hefur setið í stjórn lánasjóðsins frá árinu 1999, þar af sem varaformaður frá árinu 2005. Greinir Samband íslenskra sveitarfélaga frá þessu í fréttatilkynningu. 

Í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga voru auk Kristins kjörin; Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Guðmundur B. Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar og Helga Benediktsdóttir, deildarstjóri fjárstýringar Reykjavíkurborgar.

Nánar má lesa á vef Viðskiptablaðsins.

Mávur frá Mávahlíð er lambafaðir ársins 2018

By | Fréttir

Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson glöð í bragði með verðlaunin. Ljósmynd: smh / Bændablaðið.

Á opnum fagráðsfundi í sauðfjárrækt sem haldinn var í Bændahöllinni fyrr í þessum mánuði var Mávur frá Mávahlíð valinn Lambafaðir ársins 2018, hvorki meira né minna, og veittu Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson verðlaunagripnum viðtöku.

Er það faghópur sauðfjárræktar á vegum Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins sem dæmir hrútana eftir árangri þeirra og verðlaunar þann sæðingastöðvahrút sem skarað hefur fram úr, að þessu sinni Máv 15-990 frá Mávahlíð.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim hjónum og Mávur vel að titlinum kominn. Við leyfum umsögn faghóps Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins að fylgja hér að neðan.

Mávur frá Mávahlíð. Lambafaðir ársins 2018. 

„Besti lambafaðir sæðingastöðvanna veturinn 2017 til 2018 er Mávur 15-990 frá Mávahlíð í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Val hans byggir á niðurstöðum úr lambaskoðunum og kjötmati haustið 2018.

Mávur er sonur Blika 12-001 frá Mávahlíð sem var sonur Gosa 09-850 frá Ytri-Skógum. Móðir hans Dröfn 12-008 var tvílembd gemlingur síðan þrisvar verið þrílembd annars tvílembd og er með 6,9 í afurðaeinkunn. Tíu af fimmtán lömbum hennar hafa verið valin til lífs. Dröfn er dóttir Hróa 07-836 frá Geirmundarstöðum. Mæður foreldra Mávs rekja uppruna sinn að miklu leyti í þá öflugu hjörð sem verið hefur í Mávahlíð í áratugi. Þar er þó einnig skammt í stöðvahrúta s.s. Abel 00-890 frá Ósabakka, Túla 98-858 frá Leirhöfn og Þrótt 04-991 frá Staðarbakka.

Mávur var fenginn til notkunnar á sæðingastöðvunum haustið 2017 að aflokinni afkvæmarannsókn fyrir úrvalshrúta á Snæfellsnesi sem fram fór að Gaul í Staðarsveit. Mávur sýndi þar mjög skýra yfirburði sem lambafaðir. Mávur hefur verið tvo vetur í notkun á stöðvunum og bæði árin verið meðal þeirra hrúta sem bændur hafa sótt mikið í að nota. Afkvæmi Mávs er ákaflega jafnvaxin og sameina afar vel góða gerð, hóflega fitu og ágætan vænleika. Allmörg þeirra hafa erft hreinhvíta og kostaríka ull föður síns og hann því einnig öflugur kynbótahrútur hvað ullargæði varðar. Mávur stendur nú í 116 stigum í kynbótamati fyrir gerð og 118 stigum fyrir fitu. Í uppgjöri fjárræktarfélaganna 2018 fær hann 119 í fallþungaeinkunn fyrir afkvæmi sín. Mávur er frábær lambafaðir gagnvart öllum helstu eiginleikum sem horft er til við líflambaval og ber með sóma nafnbótina „besti lambafaðirinn“ framleiðsluárið 2018.“

Leikhópurinn Lotta í Klifi

By | Fréttir

Vakin er athygli á stórkemmtilegum fjölskyldusöngleik með Rauðhettu og úlfinum, Hans og Grétu og grísunum þremur í félagsheimilinu Klifi á morgun kl. 17:30.

Frítt er á sýninguna í boði menningarnefndar Snæfellsbæjar og foreldrafélaga leikskóla Snæfellsbæjar.

Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Hópurinn, sem hefur sérhæft sig í sýningum utandyra, er nú annan veturinn í röð að sýna í Tjarnarbíó og um allt land. Rauðhettu setti hópurinn fyrst upp árið 2009 en nú tíu árum síðar verður rykið dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi.

Ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn þekkja allir en í meðförum Lottu hefur tveimur þekktum ævintýrum til viðbótar verið bætt í leikinn. Það eru sögurnar um grísina þrjá og systkinin Hans og Grétu. Þá eru í verkinu meira en 10 stórskemmtileg lög sem binda söguna saman. Úr verður gómsætur ævintýrakokteill sem enginn má láta framhjá sér fara.

Hér má sjá viðburðinn á Facebook.

Úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði

By | Fréttir

Í gær var úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands haldin í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Styrkir eru veittir til menningarverkefna og atvinnu- og nýsköpunarverkefna og að þessu sinni var úthlutað um 47 milljónum í 82 verkefni. Úthlutunarhátíðin gekk vel fyrir sig og léku þau Valentina, Evgeeny og Stefanía frá Tónlistarskóla Snæfellsbæjar fyrir gesti.

Fjölmörg verkefni í Snæfellsbæ fengu styrkveitingu að þessu sinni eins og sjá má hér að neðan:

 • Sjóminjasafnið hlaut tvo styrki vegna fyrirhugaðra sýninga;
 • Átthagastofa hlaut þrjá styrki – vegna Fjölmenningarhátíðar, fyrir skráningu safnmuna og vegna áframhaldandi endurhleðslu fjárréttar í Ólafsvík í umsjón Guðrúnar Tryggvadóttur;
 • Karlakórinn Heiðbjört í Staðarsveit, Kirkjukór Ólafsvíkur og Karlakórinn Kári hlutu styrk fyrir kórastarfi;
 • Menningarsjóðurinn undir Jökli hlaut styrkveitingu vegna tveggja verkefna, annars vegar fyrir Hellnakirkju og hins vegar vegna tónleikaraðar;
 • Slysavarnardeildin Helga Bárðar hlaut styrk til að ljúka við endurbætur á styttunni Jöklarar sem er í Sjóminjagarðinum á Hellissandi;
 • Adela Marcela Turloiu hlaut styrk til að halda áfram með Snæfellsnesspilið;
 • Guðni Þorberg hlaut styrkveitingu vegna sýningar um Axlar-Björn sem fyrirhugað er að setja upp í Samkomuhúsinu á Stapa;
 • Frystiklefinn hlaut tvo styrki, annars vegna vegna fyrirhugaðrar götulistahátíðar á Hellissandi og hins vegar fyrir nýja leiksýningu sem frumsýnt verður í sumar;
 • Jóhann Már Þórisson hlaut styrk fyrir handverk úr heimabyggð. 

Þá má einnig nefna að önnur verkefni sem tengjast Snæfellsbæ með einum eða öðrum hætti hlutu einnig styrkveitingu, t.d. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes, kvikmyndahátíðin Northern Wave Film Festival sem haldin er í Rifi og samlistasýningin Umhverfing sem verður á haldin á Snæfellsnesi í sumar.

 

Hjörtur og Davíð Svanur keppa í Samfés

By | Fréttir

Söngkeppni Samfés er haldin í Laugardalshöll á morgun frammi fyrir 3000 áhorfendum og myndavélum Ríkissjónvarpsins, en keppnin er í beinni útsendingu á RÚV.

Á meðal keppanda verða tveir söngglaðir snillingar úr Snæfellsbæ, þeir Davíð Svanur Hafþórsson og Hjörtur Sigurðsson, sem flytja frumsamið lag um mömmur sínar. Lagið heitir „Takk fyrir“ og á alveg örugglega eftir að kremja nokkur hjörtu.

Keppnin hefst kl. 13:00 og verður eins og áður segir í beinni útsendingu á RÚV. Strákarnir eru númer þrjú í röðinni og áætlað er að þeir stígi á svið kl. 13:13.

Við hvetjum alla sem tök hafa á til að hafa rétt stillt á morgun og fylgjast með strákunum á sviði Laugardalshallarinnar. Áfram strákar!

Laus staða á leikskólanum Krílakoti

By | Fréttir

Snæfellsbær auglýsir til umsóknar laust starf á leikskólanum Krílakoti.

Auglýst er eftir starfsmanni sem hefur áhuga á að vinna með börnum, er skapandi og ábyrgðafull/ur í starfi. Viðkomandi starfsmaður þarf að vera námsfús og sveigjanlegur með fullt af þolinmæði. Hann/hún þarf að geta stýrt samverustundum sem og hópastarfi, lesið og sungið. Því þarf íslenskukunnátta að vera viðunandi.

Starfshlutfall er 100% og vinnutími frá 8:00 – 16:00 alla virka daga. 

Umsóknarfrestur er til 2. apríl 2019. Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf um miðjan apríl.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu.

Frekari upplýsingar veita Inga Stefánsdóttir og Hermína í síma 433 6925 á milli 9:00 – 12:00. Umsóknarform má finna á meðfylgjandi hlekk:

Í lögum um leikskóla nr. 90/2008 segir í 3. mgr. 6gr: „Óheimilt er að ráða til starfa við leikskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakarvottorð eða heimilid leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.“