Category

Fréttir

Leikur að læra í leikskólanum

By | Fréttir

Leikskóli Snæfellsbæjar er einn af mörgum leikskólum á landinu sem hefur fengið vottun sem „Leikur að læra“ leikskóli, en leikskólar sem fara í gegnum innleiðingu á starfinu miða að því að auka gæði leikskólastarfs með skipulögðu námi í gegnum leik, hreyfingu og spennandi foreldrasamstarf.

Leikskóli Snæfellsbæjar er nú að hefja sitt þriðja starfsár undir þessum formerkjum og verður áherslan lögð á útikennslu í vetur. Í tilefni af því vildi Ingigerður Stefánsdóttir, leikskólastjóri, koma stuttri kynningu á starfinu á framfæri.

Leikur að læra er í grunninn kennsluaðferð þar sem nemendum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum hreyfingu og leik. Við notum leikinn, hreyfingu og skynjun á markvissan og faglegan hátt.

Yngstu börnin eru í leikur að læra einu sinni í viku en þau eldri tvisvar í viku. Einnig eru  foreldraverkefnin tvisvar í viku, fimm mínútur í senn.

Hér að neðan má fræðast um starfið.

Hvað er leikur að læra?

Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki, hreyfingu og skynjun á skipulagðan, líflegan og árangursríkan hátt!

Leikur að læra er hugsað út frá þörfum barna til að leika og hreyfa sig og upplifa námsefnið í gegnum mismunandi skynfæri. Með því að nota kennsluaðferðina eykst úthald og einbeiting ungra nemenda. Auðvelt að aðlaga kennsluna að ólíkum þörfum einstaklinga með líkamlega og andlega og félagslega vellíðan barna að leiðarljósi.

Fyrir alla kennara 2 - 9 ára barna

Kennarinn getur nýtt sér einstaka hugmyndir og leiki aðferðarinnar, byggt upp tíma eftir ákveðnu kerfi eða farið skref fyrir skref eftir heildstæðum kennsluáætlunum aðferðarinnar. Leikur að læra hentar því fyrir reynda kennara og óreynt starfsfólk.

Meiri hreyfing, betri líðan, betri einbeiting

Kennari sem hefur tileinkað sér kennsluhætti Leikur að læra fer að hugsa námsefnið út frá öðru sjónarhorni – frá sjónarhorni barna og þörf þeirra til að hreyfa sig. Með því að nota aðferðir Leikur að læra höfum við áhrif á andlega og líkamlega heilsu nemenda okkar til framtíðar. Þau venjast því að standa upp og hreyfa sig reglulega og sjá að það er viðurkennt að við lærum á mismunandi hátt.

Fræðin

Leikur að læra byggir meðan annars á rannsóknum Bransford, Brown og Cocking á heilastarfsemi barna um líffræðileg áhrif náms og hreyfingar. Heyfing manninum eðlislæg og öll skynhreyfireynsla eykur varðveislu þekkingar. Hreyfing hefur einnig áhrif á hæfileika til að varðveita nýja þekkingu eða kunnáttu og endurkalla hana. Einhæf og fljótlærð viðfangsefni virðast hafa lítil langtímaáhrif á meðan reynsla sem af skynjuninni hlýst, í samvinnu við umhverfið, hjálpar heilanum að mynda ný taugamót. Frá þeim myndast nýjar brautir um heilann sem ná að virkja óvirkar stöðvar sem þar eru til staðar (Bransford, Brown og Cocking, 2000).

Auk þess hafa heilarannsóknir sýnt fram á að hreyfing veldur ýmsum efnahvörfum í heilanum þ.a.m. myndast efnið acetylocholine sem talið er auka leiðni taugaboða eða leiða til myndunnar nýrra taugafruma (Bransford, Brown og Cocking, 2000; Field og McManes, 2006)

Foreldrasamstarf - gaman saman

Leikur að læra leggur mikið upp úr góðu samstarfi við foreldra í gegnum foreldraverkefni, heimavinnu, bekkjarkvöld og fleira. Þessir þættir stuðla að því að gera foreldra meðvitaða um nám barna sinna og mikilvægi góðrar samvinnu milli heimili og skóla.

Leikur að læra er ekki ein bók, eitt spil eða ein námsgrein. Leikur að læra er kennslustíll sem hentar með öðrum kennsluaðferðum i ólíkum fögum.

Réttir í Snæfellsbæ haustið 2019

By | Fréttir

Samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðar- og fjallaskilanefnd Snæfellsbæjar verða réttir í Snæfellsbæ haustið 2019 sem hér segir:

Laugardaginn 21. september 2019

 • Ólafsvíkurrétt í Ólafsvík, Snæfellsbæ
 • Þæfusteinsrétt á Hellissandi/Rifi, Snæfellsbæ

Laugardaginn 28. september 2019

 • Ölkeldurétt í Staðarsveit, Snæfellsbæ
 • Bláfeldarrétt í Staðarsveit, Snæfellsbæ
 • Grafarrétt í Breiðuvík, Snæfellsbæ

Bæjarstjórnarfundur 5. september

By | Fréttir

Vakin er athygli á því að 323. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar verður haldinn í Ráðhúsi Snæfellsbæjar fimmtudaginn 5. september 2019 kl. 14:00.

Fundir bæjarstjórnar eru öllum opnir og eru íbúar hvattir til að kynna sér bæjarmálin. Dagskrá fundar má sjá hér að neðan. Hér má nálgast fundarboð.

Dagskrá fundar:

 1. Fundargerðir 305., 306. og 307. fundar bæjarráðs, dags. 20. júní, 18. júlí og 20. ágúst 2019.
 2. Fundargerð 129. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 30. ágúst 2019.
 3. Fundargerð 184. fundar menningarnefndar, dags. 29. ágúst 2019.
 4. Fundargerð 57. stjórnarfundar Jeratúns, dags. 19. ágúst 2019.
 5. Fundargerð 53. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 21. ágúst 2019.
 6. Fundargerð 414. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 28. ágúst 2019.
 7. Bréf frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, dags. 2. september 2019, varðandi haustþing SSV.
 8. Bréf frá Hilmari Má Arasyni, dags. 28. ágúst 2019, varðandi boð til bæjarstjórnar um heimsókn í skógræktina í Ólafsvík.
 9. Bréf frá eigendum nokkurra jarða á Mýrum, dags. 26. ágúst 2019, varðandi fjölgun meindýra vegna kvóta á veiðum og urðunarsvæðisins í Fíflholtum.
 10. Bréf frá Oliver ehf., dags. 23. ágúst 2019, varðandi ósk um að Snæfellsbær falli frá forkaupsrétti á bátnum Rá SH-308, skipaskrárnr. 2419.
 11. Bréf frá Birgi Tryggvasyni, dags. 31. ágúst 2019, varðandi úrsögn úr umhverfis- og skipulagsnefnd.
 12. Bréf frá Rebekku Unnarsdóttur, dags. 2. september 2019, varðandi ósk um niðurfellingu á húsaleigu í Klifi vegna fjölmenningarhátíðar þann 20. október n.k.
 13. Bréf frá Samtökum grænkera á Íslandi, dags. 20. ágúst 2019, varðandi áskorun til umhverfisráðherra, ríkisstjórnar og sveitarfélaga á Íslandi um að draga úr neyslu dýraafurða í mötuneytum.
 14. Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dags. 27. ágúst 2019, varðandi dag um fórnarlömb umferðarslysa.
 15. Bréf frá framkvæmdastjóra SSV, dags. 12. júlí 2019, varðandi greinargerð SSV um skipulags- og byggingarmál á Snæfellsnesi. Áður tekið fyrir í bæjarráði og vísað þaðan til bæjarstjórnar.
 16. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. ágúst 2019, varðandi stefnumótunarfund SSKS.
 17. Bréf frá Persónuvernd, dags. 26. ágúst 2019, varðandi úttekt persónuverndar á tilnefningu persónuverndarfulltrúa.
 18. Jafnlaunastefna Snæfellsbæjar.
 19. Jafnréttisáætlun Snæfellsbæjar.
 20. Drög að fundarplani bæjarstjórnar haustið 2019.
 21. Minnispunktar bæjarstjóra.

Snæfellsbæ, 3. september 2019.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri

Framkvæmdastjóri óskast hjá HSH og Snæfellsnessamstarfinu

By | Fréttir

Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu og Snæfellsnessamstarfið auglýsir eftir framkvæmdastjóra í hlutastarf.  Leitað er að metnaðarfullum, jákvæðum og áhugasömum einstaklingi sem er tilbúinn að taka virkan þátt í starfsemi og þróun félagsins.  

Hæfniskröfur:

 • Áhugasamur um íþrótta- og æskulýðsstarf
 • Stjórnunarreynsla æskileg
 • Tölvufærni æskileg
 • Samskiptafærni, ríkulegur þjónustuvilji og lipurð í mannlegum samskiptum
 • Skipulagshæfileikar, frumkvæði, sjálfstæði og faglegur metnaður
 • Hreint sakavottorð

Upplýsingar um starfið veita:

Laufey Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri HSH, í síma 847 – 0830 og netfang hsh@hsh.is.

Freydís Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Snæfellsnessamstarfsins, í síma 824 – 066 og netfang freydis@fsn.is

Umsóknir skal senda á netfangið: kiddimalla@simnet.is.

Umsóknarfrestur er til 11. september 2019.

Mynd af 3. fl kvenna fengin af Facebook-síðu UMF Víkings/Reynis.

Blóðbankabíllinn í Snæfellsbæ 4. september

By | Fréttir

Blóðbankabíllinn verður við söluskála ÓK á morgun, 4. september frá kl. 14:30 – 18:00.

Hér að neðan má sjá fréttatilkynningu frá Blóðbankanum í tilefni ferðar þeirra um Snæfellsnes nú í vikunni.

Blóðbankinn hefur komið á Snæfellsnes í allmörg ár og á meðfylgjandi mynd má sjá árangurinn af þeim ferðum. Eins og sjá má hefur komum blóðgjafa til okkar í Blóðbankabílinn aðeins farið fækkandi með árunum. 

Blóðgjöf er raunveruleg lífgjöf og getur ein blóðgjöf bjargað allt að þremur mannslífum. Því skiptir hver og einn blóðgjafi ótrúlega miklu máli. Til þess að anna eftirspurn eftir blóði þarf u.þ.b. 2000 nýja blóðgjafa á hverju ári til viðbótar við þann hóp sem við höfum nú þegar. Við erum afar þakklát fyrir alla þá blóðgjafa sem hafa lagt leið sína til okkar. Hjartans þakkir!

Atvinnuráðgjöf SSV í Snæfellsbæ veturinn 2019/20

By | Fréttir

Atvinnuráðgjafi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi verður með skipulagða viðtalstíma í Ráðhúsi Snæfellsbæjar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar í vetur.

Helga Guðjónsdóttir, atvinnuráðgjafi, verður með fyrsta viðtalstíma næstkomandi þriðjudag, 3. september, kl. 10:00 – 12:00. SSV veitir ráðgjöf á sviði atvinnumála og vinnur að þróun búsetuskilyrða á starfssvæði Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.

Helga verður með viðveru í Ráðhúsi Snæfellsbæjar eftirfarandi daga í vetur:

 • 1. október frá kl. 10:00 – 12:00.
 • 5. nóvember frá kl. 10:00 – 12:00.
 • 3. desember frá kl. 10:00 – 12:00.
 • 7. janúar frá kl. 10:00 – 12:00.
 • 4. febrúar frá kl. 10:00 – 12:00.
 • 3. mars frá kl. 10:00 – 12:00.
 • 7. apríl frá kl. 10:00 – 12:00.
 • 5. maí frá kl. 10:00 – 12:00.

Starf umsjónarmanns fasteigna laust til umsóknar

By | Fréttir

Hlutverk og ábyrgðarsvið:

Umsjónarmaður fasteigna er starfsmaður tæknideildar Snæfellsbæjar og er tæknifræðingur hans næsti yfirmaður.

Umsjónarmaður fasteigna hefur umsjón með fasteignum Snæfellsbæjar.  Hann tekur út ástand þeirra og gerir viðhalds- og viðgerðaráætlun í samvinnu við tæknifræðing.  Umsjónarmaður sinnir sjálfur viðhaldi og lagfæringum en kallar til iðnaðarmenn í samráði við tæknifræðing þegar tilefni er til þess.

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Æskilegt er að umsjónarmaður fasteigna hafi einhverja iðnmennt, en það er þó ekki skilyrði.
 • Reynsla af sambærilegum verkefnum og reynsla af mati á ástandi og viðhaldsþörf fasteigna er kostur.
 • Umsjónarmaður fasteigna skal búa yfir framúrskarandi þjónustulund og samskiptahæfileika og færni til að eiga samskipti við þá starfsmenn, iðnaðarmenn og íbúa Snæfellsbæjar sem hann þarf að hafa samskipti við dagsdaglega.
 • Frumkvæði og metnaður er kostur.

Um er að ræða fullt starf.  Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu.

Viðkomandi þarf helst að geta hafið störf eigi síðar en 1. október – fyrr er kostur.

Umsóknarfrestur er til og með 17. september nk.

Umsækjendur eru beðnir um að senda umsókn til Davíðs Viðarssonar, tæknifræðings, á netfangið david@snb.is, eða til Kristins Jónassonar, bæjarstjóra, á netfangið kristinn@snb.is.

Umsókn þarf að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem umsækjandi gerir sérstaklega grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni til starfsins út frá ofangreindum hæfnikröfum. Umsækjendur eru beðnir um að tilgreina a.m.k. tvo umsagnaraðila í umsókn sinni.

Öllum umsóknum verður svarað.

Undirbúningsfundur fyrir Fjölmenningarhátíð

By | Fréttir

Fjölmenningarhátíðin verður haldin í fimmta sinn þann 20. október n.k. og hefur verið boðað til opins fundar í Átthagastofu á morgun kl. 18:00.

Hátíðin verður að þessu sinni í Félagsheimilinu Klifi og eru íbúar Snæfellsbæjar, sem og nærsveitungar, hvattir til að taka þátt í þessari glæsilegu hátíð. Félagasamtök eru einnig hvött til að nýta sér hátíðina til að kynna sitt starf.

Eins og áður segir verður undirbúningsfundur á morgun, þriðjudag, kl. 18:00 í Átthagastofu. Allir velkomnir!

Lýðheilsugöngur alla miðvikudaga í september

By | Fréttir

Snæfellsbær endurtekur leikinn frá síðasta ári og býður í gönguferðir í samstarfi við Ferðafélag Íslands alla miðvikudaga í september. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60 – 90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Vonandi reima sem flestir á sig gönguskóna með okkur í september, fara út í náttúruna og njóta náttúrufegurðarinnar sem við erum svo lánsöm að búa við.

Göngurnar hefjast alltaf kl. 18:00 (nánari tímasetning við hverja göngu ef þarf að keyra á staðinn).

Miðvikudagur 4. september
Svöðufoss
Mæting á bílaplanið við Svöðufoss kl. 18:00
Fararstjóri: Árni Guðjón Aðalsteinsson

Miðvikudagur  11. september
Haukabrekka
Lagt af stað frá íþróttahúsinu á Hellissandi kl 17:35 og frá íþróttahúsinu í Ólafsvík kl. 17:45
Um að gera að safnast saman í bíla
Fararstjóri: Árni Guðjón Aðalsteinsson

Miðvikudagur 18. september
Seljadalur
Lagt af stað frá íþróttahúsinu á Hellissandi kl 17:35 og frá íþróttahúsinu í Ólafsvík kl. 17:45
Um að gera að safnast saman í bíla
Fararstjóri:  Árni Guðjón Aðalsteinsson

Miðvikudagur 25. september
Búðarklettur
Lagt af stað frá íþróttahúsinu á Hellissandi kl 17:35 og frá íþróttahúsinu í Ólafsvík kl. 17:45
Um að gera að safnast saman í bíla
Fararstjóri:  Árni Guðjón Aðalsteinsson

Göngustígar á Hellissandi til skoðunar

By | Fréttir

Að morgni 29. ágúst var efnt til vettvangsferðar á Hellissandi þar sem farið var yfir skipulag og hönnun á mögulegum göngustígum og rætt um svæðið við Höskuldsá.

Elízabet Guðný og Jón Rafnar, landslagsarkitektar frá Landslag – teiknistofu, tóku þátt í göngunni með bæjarstjóra, fulltrúum bæjarstjórnar og starfsfólki tæknideildar.