Category

Fréttir

Ný vatnslögn í Bárðarás á Hellissandi

By Fréttir

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir við lagningu nýrrar vatnslagnar í Bárðarás á Hellissandi.

Framkvæmdunum fylgir töluvert umstang og þurfa íbúar að vera viðbúnir aukinni umferð vinnuvéla tímabundið. Verkið verður unnið eins hratt og mögulegt er.

Samra Begic er fjallkona Snæfellsbæjar árið 2020

By Fréttir

Fjallkona Snæfellsbæjar árið 2020 er Samra Begic.

Hún steig á svið við hátíðlega athöfn í Sjómannagarðinum í Ólafsvík í dag og flutti ljóð Einars Benediktssonar, Til fánans, í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní.

Rís þú, unga Íslands merki,
upp með þúsund radda brag.
Tengdu í oss að einu verki
anda, kraft og hjartalag,
Rís þú Íslands stóri, sterki
stofn með nýjan frægðardag.

Hvort skal nokkur banna og bjóða
börnum frjálsum þessa lands
og til vorra ættarslóða
augum líta ræningjans?
Fylkjum oss í flokki þjóða.
Fram, að lögum guðs og manns.

Gætum hólmans. Vofi valur
víðskyggn yfir storð og hlé.
Enginn fjörður, enginn dalur
auga hauksins gleymdur sé.
Vakið, vakið, hrund og halur,
heilög geymið Íslands vé.

Storma og ánauð stóðst vor andi
stöðugur sem hamraberg.
Breytinganna straum hann standi
sterkur, nýr á gömlum merg.
Heimur skal hér líta í landi
lifna risa fyrir dverg.

Skín þú, fáni, eynni yfir
eins og mjöll í fjallahlíð.
Fangamerkið fast þú skrifir
fólks í hjartað ár og síð.
Munist hvar sem landinn lifir
litir þína alla tíð.

Hvert eitt landsins fley, sem flýtur,
fáni vor, þig beri hátt.
Hvert þess barn, er ljósið lítur,
lífgar vonir sem þú átt.
Hvert þess líf, sem þverr og þrýtur,
þínum hjúp þú vefja mátt.

Meðan sumarsólir bræða
svellin vetra um engi og tún
skal vor ást til Íslands glæða
afl vort undir krossins rún,
djúp sem blámi himinhæða,
hrein sem jökultindsins brún.

Skógræktarfélag Ólafsvíkur er Snæfellsbæingur ársins 2020

By Fréttir

Við hátíðlega athöfn í Sjómannagarðinum á þjóðhátíðardaginn hlaut Skógræktarfélag Ólafsvíkur nafnbótina Snæfellsbæingur ársins 2020.

Hilmar Már Arason tók við nafnbótinni fyrir hönd Skógræktarfélags Ólafsvíkur.

Það er menningarnefnd Snæfellsbæjar sem hefur veg og vanda af útnefningunni ár hvert. Nefndin óskaði jafnframt eftir tilnefningum frá íbúum sem hún hafði til hliðsjónar við val á Snæfellsbæingi ársins.

Meðfylgjandi er ræða sem Erla Gunnlaugsdóttir, formaður menningarnefndar Snæfellsbæjar, hélt við þetta tilefni:

Góðan dag og gleðilegan þjóðhátíðardag,

Fyrir hönd menningarnefndar vil ég byrja á því að þakka bæjarbúum fyrir þátttöku í vali á Snæfellsbæing ársins sem fram fór á vef Snæfellsbæjar. Bæjarbúar ásamt menningarnefnd hafa valið Skógræktarfélag Ólafsvíkur sem Snæfellsbæing ársins 2020.

Skógræktir í Snæfellsbæ eru til mikillar fyrirmyndar og mikil prýði í okkar samfélagi. Í Ólafsvík hefur mikil vinna verið unnin sl. ár m.a. mikið af trjám verið gróðursett, stígar lagðir, brýr byggðar, borð og bekkir smíðað. Þá er búið að tengja göngustíg við eldri Skógrækt nálægt Rafstöðinni.

Framkvæmdin, undir forystu Vagns Ingólfssonar, er til fyrirmyndar sem unnin hefur verið í sjálfboðavinnu og mun hún nýtast öllum Snæfellsbæingum um ókomna tíð ásamt öllum þeim gestum sem okkur sækja heim.

Innilega til hamingju Skógræktarfélag Ólafsvíkur með nafnbótina og afmælið.

Á þitt fyrirtæki erindi á ferðavef Snæfellsbæjar?

By Fréttir

Snæfellsbær opnaði fyrir skemmstu ferðavef með upplýsingum um ferðaþjónustuaðila í sveitarfélaginu og óskar nú eftir frekari upplýsingum frá ferðaþjónustuaðilum og öðrum þjónustuaðilum til að setja á vefsíðuna.

Helsta markmið með ferðavefnum er að efla stafræna viðveru sveitarfélagsins og bæta aðgengi að upplýsingum um það fjölbreytta þjónustu- og vöruúrval sem er að finna í sveitarfélaginu. Tæpar þrjár vikur eru síðan ferðavefnum var hleypt af stokkunum og hefur hann farið vel af stað.

Til að byrja með var eingöngu upplýsingum um ferðaþjónustuaðila komið fyrir á ferðavefnum en nú er ætlunin að setja jafnframt inn upplýsingar um önnur fyrirtæki sem sinna þjónustu í sveitarfélaginu og eiga erindi á ferðavefinn.

Öll þjónustufyrirtæki eiga erindi á ferðavefinn og eru rekstraraðilar hvattir til að senda inn upplýsingar svo ferðavefurinn gefi skýra mynd af þeirri þjónustu sem hægt er að sækja innan sveitarfélagsins.

Óskað er eftir því að þeir þjónustuaðilar sem vilji vera á ferðavefnum sendi eftirfarandi á netfangið heimir@snb.is:
1. Nafn fyrirtækis,
2. Lýsingu á fyrirtækinu/þjónustunni sem um ræðir,
3. Hlekk á heimasíðu/samfélagsmiðla
4. Nokkrar myndir (ca. 4 -10 stk).

Upplýsingar til íbúa varðandi tökur á sjónvarpsþætti í Ólafsvík

By Fréttir

Í dag, mánudaginn 8. júní, hefur Sagafilm tökur á sjónvarpsþættinum Systrabönd í Ólafsvík. Systrabönd eru glæpaþættir í leikstjórn Silju Hauksdóttur sem fjalla um hvarf þrettán ára stúlku um aldamótin síðustu og þrjár æskuvinkonur sem þurfa að horfast í augu við fortíð sína nítján árum síðar.

Tökur á þættinum munu standa yfir í Ólafsvík næstu dagana og verður tíðindum er varða tökur miðlað hér íbúum til upplýsinga. Einhverjar takmarkanir kunna að verða á umferð um vissar götur rétt á meðan upptökur standa yfir og henni stýrt af tökuliði í samstarfi við lögregluna. Engum götum verður lokað en fólk gæti þurft að hinkra örlítið á meðan tökur standa yfir. Er fólk beðið að sýna því skilning.

Fyrstu tökudagarnir eiga að gerast árið 1995 og er farið þess á leit við íbúa að bílum yngri en ’95 árgerð verði lagt annars staðar á meðan tökur standa yfir.

Fréttin verður uppfærð daglega með upplýsingum um tökustaði.

16. júní

Ólafsvíkurkirkja
 • Upptökur fyrir utan kirkjuna frá kl. 10:30 – 14:15. Það sést á planið hinum megin við gilið. Allt í nútímanum.
Kirkjutún og Ólafsbraut
 • Upptökur frá kl. 14:15 – 16:30 Bílatökur. Ekið niður frá kirkju og eftir Ólafsbraut. Umferð ekki stoppuð, mesta lagi hægt á henni örlítið þar sem líkbíll keyrir um.
Skálholt 17
 • Ein sena fyrir utan húsið. Upptökur frá 17:30 – 18:00.
Ennisbraut 27
 • Ein sena innandyra. Upptökur frá kl. 18:15 – 19:15.
Á Vatnaleið
 • Stutt atriði. Bíll ekur eftir veginum. Upptökur frá kl. 19:50 – 20:15

15. júní

Ólafsvíkurkirkja

 • Tökur innandyra frá kl. 11:00 – 23:00. Ein sena fyrir utan á þessum tíma.

14. júní

Sandholt 30

 • Tökur inni frá kl. 12:00 – 18:00

Skálholt 17

 • Tökur inni frá kl. 18:30 – 00:00. Stuttar tökur fyrir utan hús á sama tímabili.

13. júní

Fyrir utan Ólafsvík (staðsetning óviss)

 • Tökur frá kl. 13:00. Bílasena. Erfitt að áætla staðsetningu.

Ólafsbraut og Grundarbraut

 • Tökur frá 19:45 – 22:00. Bílasenur og fyrir utan Orkuna/Söluskála Ó.K. Það verður ekki lokað.

Mýrarholt 6

 • Tökur utandyra kl. frá kl. 22:00 – 23:00.

Sandholt 34

 • Tökur utandyra kl. frá kl. 23:00 – 00:00.

Ólafsbraut – bílasena

 • Tökur frá kl. 00:00 – 01:00.

11. júní

Erfitt að áætla nákvæmar staðsetningar hér í nokkrum keyrslu senum sem verða í og við Ólafsvík. Ekki þarf að stoppa umferð.

Ólafsvík að Mávahlíð

 • Tökur frá 15:00 – 16:00. Bílasena. Bíll dreginn á öðrum bíl og myndavélar á palli.

Skálholt 17

 • Tökur innan dyra frá kl. 17:00 – 20:30.

Orkan bensínstöð (Söluskáli Ó.K.)

 • Tökur fyrir utan Söluskála Ó.K. frá kl. 20:30 – 22:30. Ekki lokað.

Við Bugsvatn

 • Tökur frá 23:00 – 00:00. Bílasena. Bíll dreginn á öðrum bíl og myndavélar á palli.

Við beygjuna að Jökulhálsi

 • Tökur frá 00:30 – 01:30. Bílasena. Handbremsubeygja frá Útnesvegi að Jökulhálsleið.

10. júní

Strönd við Hrísaárós við veg 54

 • Tökur frá 15:00 – 18:00, leyfi frá landeiganda og vegagerð komið. Umferð verður stjórnað af velmerktum einstaklingum með talstöðvar. Björgunarsveitin þjónustar okkur utanvegar til að auðvelta flutning á búnaði til að vernda svæðið.

Sandholt 34

 • Tökur frá 17:00 – 03:00, allt inni nema ein sena úti og hún er eftir miðnætti.
 • Beiðni um að bílum yngri en ’95 árgerð verði ekki lagt við Sandholt 24-44 eftir kl. 17:00 í dag. 

9. júní

Ennisbraut 27 – eini tökustaður dagsins

 • Tökur standa yfir frá kl. 16:00 – 04:00. Að mestu fara upptökur fram innan dyra en trukkar og aðrir verða í nágrenninu.
 • Eftir miðnætti verða upptökur utandyra.
 • Beiðni um að leggja ekki bílum yngri en ’95 árgerð í nágrenni við húsið þessa nótt.

8. júní

Grundarbraut, Lindarholt og Brúarholt

 • Tökur standa yfir frá kl. 14:00 – 16:30.
 • Beiðni um að leggja ekki bílum yngri en ’95 árgerð við göturnar á meðan tökur standa yfir.

Bæjartún

 • Tökur standa yfir frá 14:30 – 18:00.
 • Umferð verður stýrt í samvinnu við pósthúsið frá kl. 15:30.
 • Beiðni um að leggja ekki bílum yngri en ’95 árgerð við götuna frá kl. 14:30 – 18:00.

Mýrarholt frá Grundarbraut (að beygjunni)

 • Tökur standa yfir frá 16:00 – 00:30.
 • Beiðni um að leggja ekki bílum yngri en ’95 árgerð við götuna frá kl. 14:30 – 18:00.

Hátíðardagskrá í tilefni af 17. júní

By Fréttir

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní verður haldinn hátíðlegur í Snæfellsbæ og verður dagskrá með hefðbundnu sniði. Dagskrá hátíðarhalda tekur þó mið af líðandi stund og eru íbúar hvattir til að virða persónulegt rými fólks.

Dagskrá:

Kl. 10:30 Landsbankahlaupið

 • 5 ára og yngri hlaupa 500 metra.
 • 6-8 ára hlaupa 1,3 km
 • 9-11 ára hlaupa 2,5 km
 • 12-16 ára hlaupa 3,5 km

Kl. 11:00 – 12:30 Lego-samkeppni (móttaka verka)

Tekið á móti Lego-verkum í íþróttahúsi Snæfellsbæjar. Engar reglur um byggingarstíl eða burðarvirki. Opið öllum frá 5 – 12 ára aldri.

Kl. 14:00 Hátíðardagskrá í Sjómannagarðinum í Ólafsvík

 • Kynnir hátíðarinnar: Margrét Vilhjálmsdóttir
 • Hátíðin sett: Kristinn Jónasson, bæjarstjóri
 • Ávarp fjallkonu
 • Helgistund: Sr. Óskar Ingi Ingason ásamt kirkjukórum í Snæfellsbæ
 • Ræða nýstúdents: Bjarni Arason
 • Snæfellsbæingur ársins tilnefndur

Kl. 14:00 – 17:00 Lego-samkeppni

Opin sýning á verkum í Lego-samkeppninni

Kl. 15:00 Við Hafró á Norðurtanga

Hesteigendafélagið Hringur leyfir börnum að fara á hestbak.

Kl. 15:30 Snæfellsbæjarleikarnir

Snæfellsbæjarleikar verða haldnir á svæðinu við íþróttahús Snæfellsbæjar.

 • Knattþrautir í umsjón mfl. Víkings
 • Streetball-mót
 • Leikjafjör í boði UMF Víkings/Reynis
 • Grillaðar pylsur og svalar fyrir krakka, úrslit úr TikTok-keppni og Lego-samkeppni

Nýtt þjónustuhús á tjaldsvæðinu á Hellissandi

By Fréttir

Snæfellsbær hefur sett upp nýtt þjónustuhús á tjaldsvæðinu á Hellissandi. Þjónustuhúsið er hið glæsilegasta og bætir aðstöðu á tjaldsvæðinu til muna, þ.m.t. með bættu aðgengi fyrir alla, fjölgun salerna og bættri sturtuaðstöðu. 

Húsið er úr forsteyptum einingum frá BM Vallá og var því komið fyrir á tjaldsvæðinu í gær. Nú hefst vinna við að steypa plötu og setja þak á það áður en farið verður í að ganga frá húsinu að innan. Hönnun hússins fellur vel að umhverfinu og ber ekki mikið á því í hrauninu.

Tjaldsvæði Snæfellsbæjar hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár og hefur sveitarfélagið lagt sig fram við að bæta þjónustu og aðbúnað til að gera dvöl gesta sem ánægjulegasta. Er nýja þjónustuhúsið liður í því verkefni.

Um tjaldsvæðið á Hellissandi:

Tjaldsvæðið á Hellissandi er staðsett í fallegu hrauni er kallast Sandahraun. Á svæðinu er þjónustuhús með salerni (einnig fyrir fatlaða), sturtum og vaskarými. Rafmagnstenglar eru á svæðinu en hægt er að leigja aðgang að rafmagni.

Á Hellissandi er einnig hægt að losa úrgang úr húsbílum og heitt og kalt vatn.

Skemmtilegar gönguleiðir eru í næsta nágrenni, fallegar fjörur með öllum þeim ævintýrum sem þær bjóða uppá. Sólsetrin við Breiðafjörð séð frá Sandahrauni eru óviðjafnanleg og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er næsti nágranni við tjaldsvæðið.

Verð 2020

Fullorðnir: 1.500,- kr.
Unglingar 14-16 ára: 500,- kr
Frítt fyrir 13 ára og yngri
Aldraðir og öryrkjar: 1.000,- kr.
Rafmagn: 700,- kr.

Sturtur innifaldar í verðunum.

Útvarpsstöðin K100 í Snæfellsbæ í dag

By Fréttir

Útvarpsstöðin K100 verður í beinni útsendingu frá Snæfellsbæ í dag.

Morgunþáttur stöðvarinnar, Ísland vaknar, hófst kl. 06:00 í morgun og stendur til kl. 10:00. Þættinum er útvarpað í beinni útsendingu frá Ólafsvík. Síðdegis taka þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars við keflinu og verða í beinni frá kl. 16:00 – 18:00. Auk þess verður fréttum frá sveitarfélaginu miðlað á öldum ljósvakans í allan dag og fjöldi viðmælenda úr samfélaginu koma fram í þáttunum tveimur.

Íbúar eru hvattir til þess að fylgjast með og stilla á K100 í útvarpinu, sjónvarpinu eða einfaldlega á K100.is.

Kvennahlaup ÍSÍ í Snæfellsbæ laugardaginn 13. júní

By Fréttir

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður hlaupið í Ólafsvík og Staðarsveit um helgina.

Hlaupið verður í Staðarsveit föstudaginn 12. júní og Ólafsvík laugardaginn 13. júní. Hlaup hefst kl. 11:00 á báðum stöðum. Í Ólafsvík er hlaupið frá Sjómannagarðinum og í Staðarsveit er hlaupið frá Lýsuhólsskóla.

Þetta er í 30. skiptið sem Kvennahlaupið er haldið í Ólafsvík.

Á þessum tímum er mik­il­vægt sem aldrei fyrr að hlúa að heils­unni og rækta sam­bandið við vini okkar og vanda­menn. Það er okkur því mikið ánægju­efni að geta haldið Kvenna­hlaupið 2020 þann 13. júní og þannig gefið öllum þeim konum sem vilja hlaupa saman kost á því.

Konur á öllum aldri á 80 stöðum á landinu taka þátt í Kvenna­hlaup­inu, allt frá litlum stelpum í kerrum til langamma þeirra. Hver kona tekur þátt á sínum for­sendum og allir eiga að geta fundið vega­lengd við sitt hæfi. Það er því engin tíma­taka í hlaup­inu heldur lögð áhersla á að hver komi í mark á sínum hraða, með bros á vör.

Forsala miða er á tix.is

Við vekjum at­hygli á því að í ár fer forsala miða í Kvenna­hlaupið eingöngu fram á tix.is. Einnig hægt að greiða á staðnum. Það er einnig hægt að panta Kvennahlaupsbol ársins á tix.is til kl. 22:00 í kvöld, miðvikudag. Það verður jafnframt hægt að kaupa Kvennahlaupsbol ársins í Ólafsvík á laugardaginn. Þá er einnig til­valið að nýta gamlan Kvenna­hlaups­bol til að hlaupa í aftur.

Kristall og Nivea-vörur fylgja þátttökugjaldi og einnig verður frítt í sund í sundlaug Snæfellsbæjar í Ólafsvík.

Hlaupum saman og höfum gaman. Tökum þátt!