Category

Grunnskóli

Skólaþing í Snæfellsbæ

By Fréttir, Grunnskóli

Miðvikudaginn 6. febrúar býður Grunnskóli Snæfellsbæjar til Skólaþings. Skólinn varðar okkur öll, sérstaklega nemendur, foreldra og starfsfólk. Það er dýrmætt að þessir hópar komi saman af og til og ræði um skólastarfið og hvernig hægt er að gera enn betur.

Á þinginu munum við heyra sjónarmið nemenda og ræða í hópum, hvaða eiginleikum og hæfni við viljum að nemendur sem útskrifast úr GSnb búi yfir. Við fáum okkur pizzur, hlustum á barnakórinn og höfum gagn og gaman af.

Nú eru liðin sjö ár frá síðasta Skólaþingi. Út úr því kom meðal annars sú áhersla á átthagafræði, sem hefur skapað skólanum sérstöðu. Viljum við breyta áherslum? Ættum við að endurskoða einkunnarorðin, sem í dag eru; „vellíðan, gleði og einstaklingsþroski“?

Og hvað verður svo gert með afrakstur þingsins?

Það sem fram kemur á skólaþinginu, bæði það sem fólk hefur metnað fyrir og áhyggjur af, verður notað sem efniviður við breytingar á Skólanámskrá og Starfsáætlun GSnb. Allt verður tekið til skoðunar og vegið, metið og mátað.

ILDI, sem hefur umsjón með Skólaþinginu, mun vinna samantekt um þingið sjálft, en úrvinnsla inn í Skólanámskrá og Starfsáætlun GSnb verður í höndum Skólaráðs. Jafnframt verður óskað eftir að einn fulltrúi frá bæjarstjórn taki þátt í vinnunni. Þessi hópur tekur endanlega ákvörðun um hvað ratar inn í Skólanámskrá og Starfsáætlun GSnb.

Samantektin frá þinginu, og nýjar útgáfur af Skólanámskrá og Starfsáætlun, verður birt á vef skólans og send í tölvupósti til þeirra sem það vilja. Einnig verða birtar fréttatilkynningar í Jökli.

Vonast er til að sem flestir geti gefið sér þessa kvöldstund í samtal um skólann, sérstaklega nemendur og foreldar hvaðanæva að úr Snæfellsbæ. Ræðum saman um það mikilvæga verkefni að undirbúa börnin okkar og unglingana fyrir framtíðina.

Skráning á skólaþingið

 

Laus staða skólaliða við Grunnskóla Snæfellsbæjar

By Grunnskóli

Grunnskóli Snæfellsbæjar auglýsir eftir skólaliða í 90% starf á starfstöðina í Ólafsvík. Vinnutíminn er frá kl 7:45 – 15:00.

Starfsvið skólaliða

  • Annast frímínútnagæslu, aðstoðar, undirbýr og gengur frá eftir matar- og neyslutíma.
  • Annast ræstingar, frágang og þrif.
  • Ýmis önnur verkefni sem til falla hverju sinni.

Menntun, reynsla og hæfni:

  • Menntun og reynsla sem nýtist í starfi.
  • Ríkir samstarfs- og samskiptahæfileikar.
  • Frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð.
  • Góð kunnátta í íslensku er skilyrði.

Borgað er samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélags. Karlar jafnt sem konur eru hvattir til að sækja um starfið.

Umsóknarfrestur er til 8. febrúar, umsóknareyðublað má finna með því að smella hér.

Upplýsingar veitir Hilmar Már Arason, skólastjóri, í síma 894 9903 og umsóknir skal senda til skólastjóra hilmara@gsnb.is.