Category

Mannlíf

Ólafsvíkurvaka 28. – 29. júní

By Fréttir, Mannlíf

Leiðrétting: Ólafsvíkurvaka verður 6. – 7. júlí 2019, ekki í lok júní eins og áður kom fram.

Ólafsvíkurvaka verður haldin dagana 28. – 29. júní nk. og verður þetta í sjötta sinn sem hátíðin fer fram. Ólafsvíkurvakan er fyrst og fremst hugsuð sem fjölskylduskemmtun fyrir núverandi og brottflutta íbúa sem vilja koma saman til að hafa gaman í góðra vina hópi. Snæfellsjökulshlaupið verður einnig þessa helgi og því von á fjölmenni í bænum.

Undirbúningsnefnd hátíðarinnar í ár hefur hafið störf og verða birtar fréttir af dagskrá þegar nær dregur. 

Sólarpönnukökur bakaðar

By Fréttir, Mannlíf

Löng hefð hefur myndast fyrir því undir lok janúarmánaðar að Kvenfélag Ólafsvíkur baki sólarpönnukökur í tilefni þess að sólin nái fyrir Ennið og skíni á bæjarbúa eftir um tveggja mánaða fjarveru. Um er að ræða eina helstu fjáröflun kvenfélagsins, en það hefur í gegnum tíðina styrkt mörg félagasamtök og málefni.

Fyrirtæki og stofnanir í bænum eru dugleg að bjóða starfsmönnum sínum upp á pönnukökur í tilefni dagsins og ærið verkefni sem bíður kvenfélagsins ár hvert. Rúmlega tuttugu vaskar konur tóku daginn því snemma og voru mættar í Félagsheimilið Klif um fimmleytið í morgun til að hræra í og baka 2070 sólarpönnukökur með öllu tilheyrandi fyrir bæjarbúa – og fóru létt með það.

Allar pönnur voru rjúkandi heitar og góður ilmur í loftinu þegar óskað var eftir hópmyndatöku og ekki stóð á svari. Vandræðalaust brostu þær fyrir ljósmyndara og sumar hverjar án þess að sleppa pönnuskaftinu, enda tíminn naumur og ekki máttu nú pönnukökurnar brenna við.

Vignir Snær er íþróttamaður HSH 2018

By Fréttir, Mannlíf

Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) veitti á föstudaginn viðurkenningar til íþróttamanna HSH vegna ársins 2018. Íþróttamenn voru heiðraðir fyrir góðan árangur á liðnu ári auk þess sem veitt var viðurkenning fyrir vinnuþjark ársins.

Það var að lokum Vignir Snær Stefánsson, knattspyrnumaður úr röðum Víkings Ólafsvíkur, sem var kjörinn Íþróttamaður HSH 2018. Þá má einnig nefna að Rögnvaldur Ólafsson úr Golfklúbbnum Jökli var kylfingur ársins 2018.

Eftirtaldir hlutu viðurkenningar:

  • Blakmaður HSH 2018 – Lydía Rós Unnsteinsdóttir, Umf. Grundarfjarðar
  • Hestaíþróttamaður HSH 2018 – Siguroddur Pétursson, Hestamannafélagið Snæfellingur
  • Knattspyrnumaður HSH 2018 – Vignir Snær Stefánsson, Umf. Víkingur 
  • Kylfingur HSH 2018 – Rögnvaldur Ólafsson, Golfklúbburinn Jökull
  • Körfuknattleiksmaður HSH 2018 – Berglind Gunnarsdóttir, Umf. Snæfell
  • Skotíþróttamaður HSH 2018 – Jón Pétur Pétursson, Skotfélag Snæfellsness
  • Vinnuþjarkur HSH 2018 – Skotgrund Skotfélag Snæfellsness

Myndir tók Sumarliði Ásgeirsson. Fleiri myndir má sjá á vefsíðu HSH.

Íbúum Snæfellsbæjar fjölgaði árið 2018

By Fréttir, Mannlíf

Ólafsvík séð til norðvesturs.

Íbúum Snæfellsbæjar fjölgaði um 2,6% eða 43 manns á síðasta ári skv. talningu Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt sömu gögnum voru íbúar 1680 talsins undir lok síðasta árs og Snæfellsbær þriðja fjölmennasta sveitarfélagið á Vesturlandi.

Hlutfallsleg fjölgun íbúa á Vesturlandi árið 2018 var að meðaltali 2,0% sé litið til allra sveitarfélaganna í landshlutanum. Á Vesturlandi var mesta fjölgun íbúa á Akranesi þar sem fjölgaði um 196 manns eða 2,7%. Hlutfallsleg fjölgun var þó mest í Helgafellssveit þar sem fjölgaði um fjóra eða 6,8%.