Skip to main content
search

112 dagurinn er í dag

Ljósmynd frá 112 deginum í Snæfellsbæ árið 2018. Ljósmynd: Alfons Finnsson

112 dagurinn er haldinn um allt land í dag og er sjónum að þessu sinni beint sérstaklega að barnavernd og öryggi og velferð barna og ungmenna.

112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.

112 er samræmt neyðarnúmer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að minna á að aðeins þarf að kunna þetta einfalda númer til þess að fá aðstoð í neyð. Markmiðið með 112-deginum er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs þeirra og samhæfingar.

Á vefsíðu Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga má lesa um tilkynningaskyldu almennings leiki grunur um ofbeldi á hendur börnum eða óviðunandi búsetuaðstæður þeirra.

Viðbragðsaðilar í Snæfellsbæ verða með fjör og læti frá kl. 18:00 eins og sjá má á neðangreindri dagskrá.