Skip to main content
search

Alþjóðlegt þríþrautarmót verður haldið á Snæfellsnesi um helgina

Keppendur í þríþrautarmótinu og fylgdarfólk árið 2019.  Ljósmynd: Iceland Extreme Triathlon.

Alþjóðlega þríþrautarmótið Iceland Extreme Triathlon verður haldið á Snæfellsnesi um helgina. Mótið var haldið á Snæfellsnesi árið 2019, en féll niður í fyrra sökum heimsfaraldurs.

Keppni hefst aðfaranótt laugardags á tæplega fjögurra km löngu sundi undir Kirkjufelli. Að því loknu verður hjólað 205 km leið um Snæfellsnes áður en hlaupið verður heilt maraþon yfir Jökulhálsinn; frá Ólafsvík að Arnarstapa og aftur til baka. Bækistöðvar mótsins verða í Ólafsvík.

Keppnisfyrirkomulagið gerir ráð fyrir fjölda keppenda og ljóst að fjölmargir þaulvanir keppendur frá öllum heimshornum verði á meðal keppenda þar sem keppnin vakti mikla athygli og þótti heppnast vel árið 2019. Gera má ráð fyrir að flestum keppendum fylgi einhver hópur fólks sem muni dvelja á Snæfellsnesi og er svona alþjóðlegt mót því góð viðbót í fjölbreytileikann í ferðaþjónustu hér á Snæfellsnesi.

Mótshaldarar koma frá Bandaríkjunum, Extreme Endurance Events, og eru aðrar keppnir á þeirra vegum haldnar árlega í Alaska og á Havaí. Þess má geta að þeir leituðu sérstaklega eftir því að mótið yrði haldið hér á Snæfellsnesi og skyldi engan undra. Þeim innan handar eru íslenskir aðilar sem staðið hafa að þríþrautarmótum hér á landi og því vanir einstaklingar sem koma að skipulagningu mótsins. Fyrir áhugasama fylgir hér mynd af keppnisleiðum.