Skip to main content
search

Ársreikningur samþykktur samhljóða – góð afkoma og sterk staða

Frá Ólafsvíkurhöfn. 

Ársreikningur Snæfellsbæjar var samþykktur samhljóða á bæjarstjórnarfundi í gær eftir síðari umræðu.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður að teljast afar góð og var afkoma Snæfellsbæjar jákvæð um 377 milljónir króna.

Rekstur Snæfellsbæjar kom mun betur út en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir og var jákvæður um 377,4 m.kr..  Útgjöld voru  nánast á pari við fjárhagsáætlun og það er eftirtektarvert að forstöðumenn stofnana Snæfellsbæjar eru að skila rekstri sinna stofnana enn eitt árið undir áætlun.  Þetta er mjög ánægjulegt og eiga forstöðumenn hrós skilið fyrir hversu vel þeir reka sínar stofnanir og hversu vel þeir eru að fylgjast með fjárhag sinna eininga.

Helstu lykiltölur ársreiknings eru taldar hér:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 3.417 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.918 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 2.644 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.319 millj. króna.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 377,4 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 36,5 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 340,9 millj. króna.  Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 206,4 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir afkomu upp á 155 þús. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 206,2 millj. króna.  Þessu fjármagni hefur þegar verið varið til fjárfestinga í innviðum, niðurgreiðslu skulda og þjónustu við bæjarbúa.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 1.723,6 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 147 stöðugildum í árslok.

Veltufé frá rekstri var 443,1 millj. króna og veltufjárhlutfall er 0,91 hjá A-hluta og hefur farið hækkandi undanfarin ár.  Veltufé frá rekstri í samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var 696,7 í árslok 2022 og veltufjárhlutfall samstæðunnar er 1,48.

Handbært frá rekstri var 395,7 millj. króna hjá A-hluta en 644,9 millj. hjá samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta.  Þessi tala gefur vísbendingar um hæfni Snæfellsbæjar til að greiða skuldir og standa undir nauðsynlegum fjárfestingum á árinu.

Heildareignir bæjarsjóðs námu um 5.369,8 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 6.861,5 millj. króna í árslok 2022.

Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.956,6 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 2.096,6 millj. króna, og hækkuðu þar með milli ára um 20 millj. á nafnvirði, en lækkuðu að raunvirði.  Þar spilar verðbólga ársins 2022 inn í.

Snæfellsbær hefur verið að greiða niður lán og minnka skuldir undanfarin ár, og á árinu 2022 voru engin ný lán tekin, þrátt fyrir töluverðar fjárfestingar.  Hins vegar var verðbólga töluverð, eins og áður segir, og jukust því skuldir Snæfellsbæjar að nafnvirði örlítið sem því nam á árinu 2022.  Þó lækkuðu skuldirnar að raunvirði milli ára. Skuldir Snæfellsbæjar við lánastofnanir lækkuðu milli ára, eða um 41,9 millj. hjá samanteknum reikningi A- og B-hluta.

Skuldahlutfall Snæfellsbæjar er lágt, eða 74% hjá A-hluta og 61,36% hjá samanteknum reikningi A- og B-hluta.  Ef notað er skuldaviðmið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga, þá fer prósentan niður í 49,55% fyrir A-hluta og 37,4% fyrir samstæðuna.  Snæfellsbær hefur því töluvert svigrúm til lántöku ef kemur til einhverra stærri tekjufalla í framtíðinni.  Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%.

Eigið fé bæjarsjóðs nam um 3.413,2 millj. króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 4.764,9 millj. króna í árslok 2022.  Eiginfjárhlutfall er 63,56% á árinu 2022 hjá A-hluta en var 62,01% árið áður.  Eiginfjárhlutfall A- og B-hluta er 69,44% í lok árs 2022 en var 67,56% árið áður.  Almennt er talið að 50% eiginfjárhlutfall hjá sveitarfélagi sé ásættanlegt.

Miklar fjárfestingar voru á árinu og fjárfesti Snæfellsbær fyrir 424,9 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð.