Skip to main content
search

Ársþing KSÍ verður haldið í Snæfellsbæ um helgina

Um helgina verður 74. ársþing Knattspyrnusambands Íslands haldið í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík og búast má við fjölda gesta í sveitarfélagið af þessu tilefni.

Undirbúningsnefnd á vegum knattspyrnudeildar Víkings Ólafsvíkur hóf undirbúning vegna þingsins í ágúst sl., enda ljóst að líta þarf í mörg horn þegar stærsta sérsamband innan ÍSÍ óskar eftir því að slegið verði upp ársþingi í sveitarfélaginu. Félagsheimilið Klif hentar einkar vel fyrir viðburðahald af þessu tagi og fjölmargir íbúar Snæfellsbæjar koma að skipulagningu og framkvæmd þingins og tengdra viðburða um helgina.

Ólafur Hlynur Steingrímsson og Hilmar Hauksson hafa farið fyrir undirbúningi þingsins ásamt Sigrúnu Ólafsdóttur, konur úr Lionsklúbbnum Rán í Ólafsvík sjá um kaffiveitingar á fundarhöldum föstudags og laugardags, báðir veitingastaðirnir í Ólafsvík elda ofan í gesti á meðan á dvöl þeirra stendur og þá eru flest gistirými uppbókuð þar sem flestir gista fleiri en eina nótt. Þá má einnig nefna að skipulögð hefur verið skoðunarferð um Snæfellsbæ á laugardaginn þar sem m.a. verður stoppað í nokkrum fyrirtækjum. Á lokahófinu sjálfu verður veislustjórn svo í höndum Kára Viðarssonar, Dóra Unnarsdóttir verður með uppistand og stelpurnar í sönghópnum MÆK frá Grundafirði stíga á svið.

Það er því ljóst að margar hendur koma að framkvæmd viðburðar af þessari stærðargráðu og eiga allir sem að málinu koma hrós skilið.