Skip to main content
search

Betri Snæfellsbæjar – hugmyndir til framkvæmda árið 2020

Snæfellsbær opnaði samráðsvettvanginn Betri Snæfellsbæ í vetur og óskaði eftir tillögum um framkvæmdir og viðhaldsverkefni frá íbúum sveitarfélagsins.

Góð þátttaka reyndist meðal íbúa og þegar upp var staðið höfðu borist 45 fjölbreyttar hugmyndir að betri Snæfellsbæ. Tæknideildin fór yfir innsendar tillögur og óskaði eftir því í kjölfarið að bæjarstjórn Snæfellsbæjar gerði ráð fyrir töluverðum fjármunum til verkefnisins í fjárhagsáætlun þessa árs.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 5. desember síðastliðinn að veita 18 milljónum til verkefnisins. 

Eftir vinnu tæknideildar við greiningu og forgangsröðun þeirra hugmynda sem bárust verða að lágmarki tólf þeirra framkvæmdar árið 2020 og gert er ráð fyrir að nýta veitt fjármagn að fullu til framkvæmda á þeim. Aðrar hugmyndir geta þó komið til framkvæmda ef tækifæri gefst til og nýtast í skipulagsvinnu hjá Snæfellsbæ næstu árin.

Eftirfarandi hugmyndir verða framkvæmdar:

 • Hundasvæði komið upp við þéttbýliskjarna
 • Afþreying fyrir börn í Rifi bætt
 • Göngustígar við Ólafsbraut í Ólafsvík tengdir saman
 • Vegglistaverk á Hellissandi lýst upp
 • Lýsing bætt við Klifbraut
 • Handrið sett á brú við Hraðfrystihúsið á Hellissandi
 • Grenndargám komið fyrir í dreifbýli
 • Bekkjum verður fjölgað við göngustíga og áningastaði
 • Verndun fuglalífs á Rifi
 • Keflavíkurgata á Hellissandi verður fegruð og lagfærð
 • Útilíkamsræktarstöð, hönnun svæðis
 • Hjólarampur, hönnun svæðis

Nú þegar hefur eitt vegglistaverk á Hellissandi verið lýst upp. 

Hægt er að lesa frekar um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Betri Snæfellsbæjar hér að neðan og í viðhengi efst í frétt. Þar er einnig að finna svör við innsendum hugmyndum íbúa sem koma ekki til framkvæmda að þessu sinni.

Snæfellsbær þakkar fyrir góða þátttöku.