Skip to main content
search

Bókun bæjarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar ársins 2022

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur unnið að gerð fjárhagsáætlunar Snæfellsbæjar fyrir árið 2022 Gjaldskrár hækka að meðaltali um 3%, þó álagningarprósentu fasteignagjalda taki engum breytingum.  Útsvarsprósenta í Snæfellsbæ verður óbreytt.

Bæjarstjórn  leggur  áherslu á að viðhalda þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni hlúð eins og kostur er.  Styrkir til félagasamtaka á árinu 2022 verða samtals kr. 61.810.000.-  Að venju eru hæstu styrkirnir til íþrótta- og ungmennastarfs.

Snæfellsbær mun áfram bjóða upp á frístundastyrk til tómstundastarfs ungmenna.

Svigrúm til framkvæmda er ágætt, en gert er ráð fyrir því að meginhluta framkvæmda ársins 2022 verði í viðhaldsframkvæmdum á húsnæði bæjarins.  Samtals er gert ráð fyrir tæpum 100 milljónum í viðhaldsverkefni í grunnskóla, leikskóla og fleiri stöðum.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði um 496 milljónir króna sem er nokkuð á pari við árið 2021, þar af 212 milljónir hjá bæjarsjóði Snæfellsbæjar, um 50 milljónir hjá Veitustofnunum og rúmar 234 milljónir hjá hafnarsjóði.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er ágæt, og hafði Covid 19 ekki þau áhrif á fjármálin sem gert var ráð fyrir í byrjun árs 2021.  Lántökur á árinu 2021 voru nauðsynlegar vegna nýframkvæmda, en jafnframt var ákveðið að taka nýtt lán á haustmánuðum til að greiða niður óhagstæð lán.  Snæfellsbær er því ekki að auka við lán á árinu 2021, heldur munu lán eitthvað lækka.  Á árinu 2022 er gert ráð fyrir lántöku að upphæð 200 milljónir króna til að mæta fjárfestingum.

Á árinu 2021 var í fyrsta skipti gert ráð fyrir halla af rekstri A-hluta hjá Snæfellsbæ, en sem betur fer gerir fjárhagsáætlun ársins 2022 ráð fyrir að skila afgangi, sem er gott þar sem ljóst er að sveitarfélög geta ekki búið við hallarekstur mörg ár í röð.  Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar verði um 75% í A-hluta, en skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir 150% og er þá Snæfellsbær vel innan þeirra marka.

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn og verða miklar framkvæmdir á hans vegum árið 2022, eins og áður kemur fram, eða um 234 milljónir króna.  Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.

Rekstur Snæfellsbæjar hefur verið með ágætum.  Ljóst er þó að stytting vinnuvikunnar og betri vinnutími í vaktavinnu, sem samið var um í síðustu kjarasamningum, hafa mikil áhrif á laun opinbers starfsfólks, og á launakostnað Snæfellsbæjar. Rekstur stofnana hefur þó gengið framar vonum og er að miklu leyti því að þakka hversu gott samstarf hefur verið við forstöðumenn og starfsfólk Snæfellsbæjar og jákvæð ytri skilyrði.  Bæjarstjórn Snæfellsbæjar treystir á að samstarfið verði áfram farsælt, því einungis þannig verður hægt að ná fram góðum rekstri hjá sveitarfélaginu.

Enn er töluverð óvissa í heiminum vegna Covid 19 og því ekki hægt að gera ráð fyrir því að kominn sé á sá stöðugleiki sem ríkti fyrir 2020.  Snæfellsbær gerir þó ekki ráð fyrir því að þurfa að þrengja að rekstri stofnana sinna á árinu 2022.

Samstarf í bæjarstjórn Snæfellsbæjar er gott og er það afar mikilvægt á tímum sem þessum.  Bæjarstjórn vann saman að gerð fjárhagsáætlunar á sérstökum vinnufundum og er full samstaða um alla liði fjárhagsáætlunar.

Til upplýsingar: