Skip to main content
search

Bólusetning vegna Covid-19 hafin á Jaðri

Tímamót í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn urðu hér í Snæfellsbæ í dag þegar íbúar á Jaðri og hjúkrunarfræðingar á heilsugæslunni voru bólusóttir við veirunni.

Árið hefur verið langt og mörgum erfitt og því kærkomið að enda það á þessum jákvæðu nótum. Má eiginlega segja að bólusetning meðal íbúa á Jaðri sé stærsta og skærasta áramótasprengja þessa áramóta.

Íbúar verða bólusettir aftur að þremur viknum liðnum og horfir því til betri vegar. Ekki má þó gleyma því að baráttunni er hvergi nærri lokið og fyllstu sóttvarna verður gætt á heimilinu þar til mögulegt verður að létta á þeim takmörkunum sem hafa verið í gildi undanfarna mánuði.

Hilmar Björnsson, elsti íbúi heimilisins, 94 ára, var fyrstur til að fá sprautu og fór hann létt með það, líkt og raunar allir sem á eftir honum komu.

Svo glaður var Hilmar í bragði að honum munaði ekki um að kveða frumsamda vísu í tilefni þessa tímamóta, sem við birtum hér með góðfúslegu leyfi höfundar:

Stunginn var með stórri nál
stóðst ég það með prýði.
Það var ekki mikið mál
þó mikið undan svíði.

Hilmar Björnsson, 94 ára