Skip to main content
search

Bréf frá bæjarstjóra vegna COVID-19

Ágætu íbúar Snæfellsbæjar,

Eins og þið öll hafið orðið vör við eru hér á landi afar óvenjulegar aðstæður vegna COVID-19 og vildi ég af því tilefni fara aðeins yfir með ykkur hvað við erum að gera í Snæfellsbæ vegna þessa verkefnis.

Til að byrja með vil ég segja frá því, að allt frá fyrsta degi höfum við í einu og öllu farið eftir þeim tilmælum yfirvalda sem legið hafa fyrir á hverjum tíma til að vernda og verja fólkið okkar. Við höfum m.a. sett spritt á alla þá staði sem Snæfellsbær er að reka og keypt þann búnað sem okkur er ráðlegt að eiga og svo framvegis. 

Allar stofnanir Snæfellsbæjar og starfsfólk eru/voru upplýst strax um það hvað við eigum að gera og hvernig við eigum að haga okkur. Áhersla hefur verið lögð á að auka vitund starfsfólks á því hvernig best er að forðast smit og fækka smitleiðum. Búið er að halda fund með forstöðumönnum stofnana Snæfellsbæjar og verða fleiri haldnir þegar þörf er á. Einnig höfum við sett upplýsingar á heimasíðu Snæfellsbæjar fyrir íbúa.

Við höfum þurft að grípa til aðgerða eins og að takmarka aðgang að Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Jaðri og Smiðjunni til að verja þann hóp sem er talinn viðkvæmastur fyrir og vil ég þakka öllum fyrir skilning á því.

Við erum búin að endurskoða viðbragðsáætlun fyrir Snæfellsbæ og allar stofnanir og sett þær upplýsingar á netið www.snb.is.

Hér á Vesturlandi er starfandi Almannavarnarnefnd þar sem m.a. allir framkvæmdastjórar sveitarfélaga sitja ásamt fleiri aðilum og hefur nefndin haldið fundi vegna málsins. Auk þess er starfandi aðgerðarstjórn sem fundar daglega. Í henni sitja m.a. lögreglustjóri, sóttvarnalæknir HVE og fulltrúi Rauða krossins. Frá aðgerðarstjórn fáum við síðan upplýsingar að fundi loknum.

Við fáum einnig mikilvægar upplýsingar og tilmæli frá Almannavörnum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem við komum áfram til þeirra innan stofnana Snæfellsbæjar sem við á á hverjum tíma.

Mjög mikilvægt er að fólk haldi ró sinni en fari mjög vel eftir öllum þeim tilmælum sem búið er að biðja fólk um að fara eftir, eins og t.d. að passa upp á handþvott og sprittun. Með samstilltu átaki getum við öll haft áhrif á útbreiðslu veirunnar.

Í lokin vil ég benda ykkur á að hægt er að nálgast upplýsingar á heimasíðu Snæfellsbæjar og hvet ég ykkur öll til að lesa vel það sem þar er komið inn. Við munum áfram setja þar inn nýjustu upplýsingar og jafnframt senda tilkynningar á fésbókarsíðu Snæfellsbæjar. Einnig er gott að afla sér upplýsinga á vef landlæknis og vef almannavarna.

Með góðri kveðju,

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri