Skip to main content
search

Bréf frá bæjarstjóra

Heilsugæslustöðin í Ólafsvík. Ljósmynd: hve.is

Ágætu íbúar.

Eins og mörgum er kunnugt þá hefur verið læknislaust af og til síðan í haust.  Þessi staða er langt frá því að vera boðlega og eigum við ekki að sætta okkur við að hér sé ekki læknir/læknar alla daga allan sólarhringinn.

Í upphafi finnst mér rétt að þakka okkar góða starfsfólki á heilsugæslustöðvunum í Ólafsvík og Grundarfirði fyrir þeirra góðu störf í þessum erfiðu aðstæðum en það er ekki sjálfgefið að fólk sé ávallt reiðubúið að bæta á sig vinnu og ábyrgð til að þjóna okkur sem best.

Jafnframt er mikilvægt að við munum að þau sem eru að veita okkur þjónustu á heilsugæslustöðvunum geta lítið gert, þegar vantar fólk til starfa eins og t.d. lækna, hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk

Eins er rétt að minna á það að málaflokkurinn heilbrigðisþjónusta er á hendi ríkisins en ekki sveitarfélaga þó að sjálfsögðu reyni bæjaryfirvöld að hafa áhrif á það svo þjónustan sé í lagi á hverjum tíma.

Því er eðlilegt að spurt sé hvað hafa bæjaryfirvöld í Snæfellsbæ gert til að þrýsta á að læknir sé ávallt til staðar.  Við höfum ýmislegt gert, við höfum átt í margvíslegum samskiptum við yfirmenn HVE og farið yfir málin með þeim, við höfum rætt við þingmenn kjördæmisins oftar en einu sinni um stöðu mála sem síðan hafa haft samband við Heilbrigðisráðuneytið og farið yfir málið þar.  Við höfum rætt við hluta þeirra lækna sem hér hafa verið og farið yfir málin með þeim, við höfum rætt málin við bæjarstjórana hér á Nesinu og svona mætti lengi telja.

Þrátt fyrir öll þessi samtöl þá hefur ekki tekist að fullmanna stöðu læknis hjá okkur í haust sem er algerlega óásættanlegt og við getum ekki búið við þetta þjónustuleysi/þjónustuöryggi mikið lengur.

Það jákvæða í málinu er þó sú staðreynd að frá og með næstu áramótum kemur hingað læknir í fasta stöðu.  En það er ekki nóg því það þarf að finna annan lækni á móti viðkomandi því að sjálfsögðu getur ekki einn einstaklingur verði á vakt allan sólarhringinn alla daga.  Hvort búið sá að manna lækni á móti hef ég ekki upplýsingar um þegar þetta er skrifað.

Að mínu mati þarf að fara fram samtal milli þeirra sem hafa veitt þjónustuna (læknana) og HVE sem er að kaupa þjónustuna um hvernig best er að koma þessum málum fyrir svo alltaf sé full þjónusta á svæðinu.  Orð eru til alls fyrst.

Sveitastjórnirnar á Nesinu hafa komið fram með tillögur um hvernig við sjáum þessa þjónustu verða best leysta af hendi á svæðinu og höfum við nefnt það að skynsamlegt væri að gera tilraun með það verkefni hjá okkur sem síðan gæti, ef vel tækist til, verið heimfærð yfir á aðra landshluta.

Alla veganna, staðan í dag er algerlega óboðleg og við þetta ástand er ekki hægt að búa við lengur og munu bæjaryfirvöld gera allt sem í okkar valdi er, til að þrýsta á að þetta verði lagað.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri