Skip to main content
search

Breytingar aðalskipulags Snæfellsbæjar

Djúpalónssandur.

Breytingar aðalskipulags Snæfellsbæjar 2015-2031

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 10. nóvember 2022 að beina breytingu aðalskipulags á tveimur svæðum í lögboðið ferli í samræmi við 30. gr. skipulagslaga. Ferlið hefst með opnum kynningarfundi í kaffisal í Röst að Snæfellsási 2, Hellissandi, miðvikudaginn 23. nóvember kl. 17:00.  Ný deiliskipulög verða einnig kynnt á fundinum og auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingum.

Breyting aðalskipulags, nýtt deiliskipulag og umhverfismatsskýrsla í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli

Aðdragandi breytingar er vaxandi ferðamannastraumur. Bæta þarf aðstæður við Djúpalónssand, en ekki er svigrúm á núverandi svæði. Gert er ráð fyrir að bæta Dritvíkurveg og gera útskot norðanvestan vegar, gera nýtt bílastæði og þjónustuhús neðan Útnesvegar og biðstæði fyrir rútur ofan Útnesvegar.

Í aðalskipulagi er afþreyingar- og ferðamannasvæði AF-U-7 stækkað, var um 70.000 m2 (7 ha) og verður um 90.000 m2 (9 ha).

Gert er nýtt deiliskipulag af svæðinu og er markmið þess að útbúa þjónustustað í þjóðgarðinum fyrir ferðamenn þar sem m.a. er gert ráð fyrir þjónustubyggingu með salernum, áningarstað, gönguleiðum og bíla- og rútustæðum. Núverandi þjónustuhús verði fjarlægt.

Breytingin hefur í för með sér að framkvæmdir munu raska hrauni og er fjallað um móvægisaðgerðir í umhverfismatsskýrslu.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur þegar verið stækkaður og er gerð grein fyrir stækkun hans í breytingu aðalskipulags.

 

Breyting aðalskipulags, nýtt deiliskipulag og umhverfismatsskýrsla fyrir Krossavíkurböð, Hellissandi

Í aðalskipulagi Snæfellsbæjar er gert ráð fyrir vaxandi ferðamannastraumi. Fyrirhugað er að reisa baðstað ofan við ströndina við Krossavík vestast á Hellissandi með mis heitum og köldum pottum. Einnig verði gerð bílastæði um 250 m austar. 

Í aðalskipulagi er mótað nýtt um 2.500 m2 afþreyingar- og ferðamannasvæði AF-2 fyrir baðstaðinn og gert ráð fyrir um 1.800 m2 svæði fyrir bílastæði.

Gert er nýtt deiliskipulag af svæðinu  með eflingu ferðaþjónustu og afþreyingu íbúa í sveitarfélaginu að markmiði. Krossavíkurböðin verði sunnan við gróðurkant ofan við fjöruna og fjöru verði ekki raskað. Sjávar megin (norðan) mannvirkja verði opið svæði fyrir gangandi umferð meðfram ströndinni og gengið verði frá stíg sunnan bygginga.  Hluti framkvæmda er innan 50 m frá strandlínu og sækja þarf um undanþágu frá grein  5.3.2.14 í skipulagsreglugerð.

Í umhverfismatsskýrslu er gerð grein fyrir vetrartalningu fugla og upplýsingum heimamanna og gróðurfari er lýst í samræmi við nánari gróðurgreiningu á framkvæmdasvæðum.

Eftir að bæjarstjórn hefur afgreitt aðalskipulagsbreytingar og Skipulagsstofnun yfirfarið þær, verða tillögur auglýstar í samræmi við 31. gr. skipulagslaga með 6 vikna athugasemdafresti.

Bæjarstjóri Snæfellsbæjar