Skip to main content
search

Fjárhagsáætlun samþykkt í bæjarstjórn

Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar fyrir árið 2019 var tekin til síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar þann 6. desember sl. og var hún samþykkt samhljóða. Rekstur Snæfellsbæjar hefur gengið ágætlega undanfarin ár og full samstaða er um alla liða nýrrar fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn leggur á það áherslu að góð þjónusta í sveitarfélaginu haldi áfram og þá hækka styrkir til félagasamtaka töluvert á árinu 2019, eða um 42,5% á milli ára. 

Fjórða árið í röð verða gjaldskrár leikskóla og grunnskóla ekki hækkaðar. Þá verða frístundastyrkir einnig teknir upp í fyrsta skipti í Snæfellsbæ árið 2019. Markmiðið er að gera búsæld í Snæfellsbæ auðveldari fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur. 

Gert er ráð fyrir að á komandi ári verði mikið framkvæmt og innviðir stofnana Snæfellsbæjar styrktir. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði 419,3 milljónir króna, þ.a. 175,5 milljónir hjá bæjarsjóði og 244,8 milljónir hjá hafnarsjóði. 

Útsvarsprósenta í Snæfellsbæ verður óbreytt og sama er að segja um álagningarprósentu fasteignagjalda.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð þrátt fyrir að ný lán hafi þurft að taka á árinu 2018 vegna mikilla framkvæmda og greiðslu lífeyrisskuldbindinga. Ekki er gert ráð fyrir hækkun skulda á árinu 2019 og gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar fari ekki yfir 70% í A-hluta, en skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir 150%. Snæfellsbær vel innan marka og rekstur í góðu jafnvægi.

Viðhengi:
Fjárhagsáætlun 2019
Þriggja ára áætlun 2020 – 2022