Skip to main content
search

Fjölþætt heilsuefling 60+ í Snæfellsbæ

Velferðarnefnd og öldrunarráð Snæfellsbæjar hafa tekið höndum saman og efna til fyrirlesturs um heilsueflingu fyrir íbúa 60 ára og eldri. Fyrirlesturinn verður haldinn miðvikudaginn 20. mars n.k. og hefst hann kl. 14:00 í félagsheimilinu Klifi.

Janus Guðlaugsson frá Janus heilsueflingu heldur fyrirlestur. Nánar má fræðast um umfjöllunarefni fyrirlesturs hér að neðan.

Fjallað verður um verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ í sveitarfélögum sem byggt er á doktorsverkefni Janusar Guðlaugssonar, PhD- íþrótta- og heilsufræðings. Verkefnið hefur verið innleitt í tveimur sveitarfélögum hér á landi, Reykjanesbæ og Hafnarfirði með mjög góðum árangri.

Farið er yfir markmið verkefnis og hvað það inniheldur. Þá er farið yfir nýlegar niðurstöður úr verkefninu í bæði Reykjanesbæ og Hafnarfirði en árangur er einstaklega góður sem af er. Verkefnið hefur einnig verið innleitt á Spáni og Litháen í samvinnu við Evrópuráðið og Embætti landlæknis og hefur vakið mikla athygli.

Verkefnið er raunprófanlegt en farið er yfir helstu mælingar sem lagðar eru til og framkvæmdar áður en heilsuefling hefst. Einnig er fjallað um helstu niðurstöður mælinga í áðurnefndum sveitarfélögum en þær hafa endurteknar á 6 mánaða fresti frá því að verkefnið hófst. Hér er um að ræða mælingar eins og líkamssamsetningu, blóðþrýstingsmælngar, afkasta- og hreyfigetumælingar, mælingar sem tengjast áhættu hjarta- og æðasjúkdóma og mælingu á lífsgæðum og áhrif heilsueflingar á framangreindar mælingar.

Að lokum er fjallað um breytingu á aldurssamsetningu íbúa landsins og þau áhrif sem slíkt getur haft á einstaklinga og samfélagið í heild á næstu árum. Að auki verður komið inn á ávinning af verkefninu til lengri tíma auk þess sem spurningum er svarað um verkefnið og heilsutengdan ávinning þess.