Skip to main content
search

Fyrsta smit af völdum COVID-19 greinist í Snæfellsbæ

Fyrsta smit af völdum kórónaveirunnar COVID-19 hefur nú greinst í Snæfellsbæ. Rakningarteymi á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis hefur nú tekið við og mun hafa samband við þá sem hafa verið í návígi við viðkomandi einstakling.

Í ljósi útbreiðslu veirunnar um heimsbyggðina var í raun bara tímaspursmál hvenær, ekki hvort, fyrsta smitið yrði greint hér í Snæfellsbæ. Ekki er ósennilegt að fleiri smit greinist hér á næstu dögum og vikum.

Þegar smit greinist fer af stað ákveðið ferli sem stýrt er af sérfræðingum. Við fylgjum þeim í hvívetna og biðlum til íbúa að gera það líka.

Við ítrekum og áréttum mikilvægi þess að íbúar haldi áfram að fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum sóttvarnarlæknis og rétt að minna íbúa á að fylgjast vel með fréttaflutningi og öðrum tilkynningum frá Snæfellsbæ.

Við komumst í gegnum þetta verkefni sem samfélag með því að standa saman, sýna virðingu og góðvild hvert við annað og með því að gera það sem fyrir okkur er lagt af yfirvöldum.