Skip to main content
search

Gjöld í leik- og grunnskóla miða við skerta þjónustu

Í gær, mánudaginn 23. mars, sendi Samband íslenskra sveitarfélaga frá sér leiðbeiningar til sveitarfélaganna vegna aðgerða til notenda velferðarþjónustu vegna ástandsins sem skapast hefur vegna COVID-19.  Snæfellsbær mun að sjálfsögðu bregðast við í samræmi við þessar leiðbeiningar.

Frá 16. mars hefur skóla- og leikskólahald um land allt verið skert og í einhverjum tilvikum hafa þessar stofnanir ekki getað veitt þá þjónustu sem foreldrar og forráðamenn eru að greiða fyrir.  Í grunnskólanum hafa verið sendir út greiðsluseðlar vegna fæðis í apríl og munu þeir reikningar standa, enda er sú þjónusta óskert með öllu.  Reikningar vegna Skólabæjar í apríl falla niður, þar sem sú þjónusta er nánast dottin upp fyrir.

Í leikskólunum er verið að bjóða upp á töluvert skerta þjónustu, þar sem ekki er hægt að uppfylla skilyrði samkomubanns án þess að fækka töluvert í hópum.  Gripið var til þess ráðs að bjóða fólki upp á leikskólapláss annan hvern dag, þó forgangshópar samkvæmt listum frá almannavörnum ríkisins, fái óskerta þjónustu og leikskólapláss fyrir börn sín á hverjum degi.  Leikskólastjóri heldur mjög vel utan um þessi mál.

Nú þegar er búið að senda út leikskólagjaldareikninga vegna aprílmánaðar.  Við munum hins vegar taka saman þá daga sem falla niður hjá hverju barni í mars og apríl og mun verða tekið fullt tillit til þeirra daga þegar leikskólagjöld maímánaðar verða send út.  Viljum við taka fram að þetta á við um þau börn sem eru að nýta leikskólaplássin í skertri mynd þar sem leikskólinn getur ekki, eins og sakir standa, veitt fullt leikskólapláss fyrir öll börn.  

Athugið, þetta á ekki við um börn forgangshópa sem eru að þiggja óskerta þjónustu og börn þeirra foreldra sem ákveða sjálf að halda börnum sínum heima, enda stendur þeim til boða að nýta sitt pláss þá daga sem hægt er.