Skip to main content
search

Grunnskóli Snæfellsbæjar hlýtur Íslensku menntaverðlaunin 2022 fyrir átthagafræði

Ljósmynd: Forsetaembættið/Birgir Ísleifur Gunnarsson.

Grunnskóli Snæfellsbæjar hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2022 fyrir Áttahagafræði sem framúrskarandi þróunarverkefni.

Átthagafræðin snýr að því að kynna nemendum átthaga sína á markvissan hátt, það er að þeir öðlist þekkingu og skilning á náttúru, sögu og mannlífi í nærumhverfi sínu.
 
Nemendur geta nýtt menntun sína og reynslu í átthagafræði í framhaldsnámi og í lífinu almennt með því að yfirfæra þekkingu sína og skilning á nærumhverfi á nýtt umhverfi og ný viðfangsefni. Góður skilningur á átthögum gefur því gott veganesti inn í framtíðina.
Unnið er eftir námskrá sem átthagafræðiteymi innan skólans hefur haldið utan um í samvinnu við kennara. Í námskránni er viðfangsefnum skipað niður á árganga með það að markmiði að þegar nemendur útskrifast úr Grunnskóla Snæfellsbæjar hafi þeir kynnst nærumhverfi sínu í víðu samhengi og upplifað það.
 
Sem dæmi um verkefni má nefna að nemendur fræðast um Snæfellsjökul á fjölbreyttan hátt svo sem um jarðfræði hans, þjóðsögur sem tengjast honum og gildi hans fyrir byggðarlagið. Í lok skólagöngu fara nemendur síðan í ferð á Jökulinn.
 
Skólinn á einnig í mjög góðu samstarfi við samfélagið, bæði foreldra og einstaklinga sem koma inn í skólann og fræða nemendur sem og fyrirtæki, stofnanir, bæjaryfirvöld og félagasamtök sem bjóða í fræðslu- og vettvangsferðir.
 
Hilmar Már Arason, skólastjóri, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd skólans. Aðspurður sagði Hilmar að þetta væri mikill heiður fyrir skólann. „Já, og í raun er það allt samfélagið í Snæfellsbæ sem hlýtur þessa viðurkenningu fyrir þetta frábæra þróunarverkefni.“ Sagði hann að skólinn vonaðist jafnframt til, með verkefni sem þessu, að geta „dregið fram það jákvæða í samfélaginu okkar og opnað augu nemenda fyrir þeim tækifærum sem Snæfellsnesið hefur upp á að bjóða, bæði í nútíð og þegar til framtíðar er litið“.