Skip to main content
search

Grunnskóli Snæfellsbæjar tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna

Nemendur í átthagafræðikennslu á Snæfellsjökli. Ljósmynd: Grunnskóli Snæfellsbæjar.

Grunnskóli Snæfellsbæjar er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2022.

Skólinn er tilnefndur fyrir átthagafræði í flokki framúrskarandi þróunarverkefna. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu.

Á vef Skólaþróunar segir um átthagafræði að um þróunarverkefni sé að ræða sem beinist að því að efla jákvæð og virk tengsl skóla og samfélags, þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og auka fjölbreytni í námi. 

Í tilnefningu er m.a. eftirfarandi umsögn um námið:

„Verkefnið er frumkvöðlaverkefni sem tekur mið af náttúruvernd, umhverfi og hvetur nemendur til að þekkja heimabyggð sína og vera meðvitaðri um sitt nærumhverfi. Námið gefur möguleika á uppbroti hefðbundins náms með sérstaka áherslu á upplifun sem lykilþátt í náminu. Auk þessa er auðvelt að aðlaga námið að styrkleikum hvers nemanda.

Að þekkja heimahaga sína er mikilvægur þáttur í uppeldi barna. Börnin læra að bera virðingu fyrir náttúrunni og sínu svæði. Kennarar geta nýtt sér frumlegar kennsluaðferðir og sköpun við vinnslu á námsþáttum.

Vettvangsferðir eru stór þáttur í átthagafræðináminu og þannig er lagt mikið uppúr virkum og jákvæðum samskiptum og hefur námið leitt til aukins samstarf við félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga í Snæfellsbæ.

Átthagafræðin í Grunnskóla Snæfellsbæjar er eitt af því sem Snæfellingar eru hvað stoltastir af. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, Svæðisgarðurinn Snæfellsnes (www.snæfellsnes.is) og umhverfisvottun Snæfellsness (nesvottun.is) eru dæmi um verkefni á Snæfellsnesi, sem í gegn um átthagafræðina, er hægt að kynna vel fyrir nemendum, öllum í hag.“