Skip to main content
search

Hafðu áhrif og taktu þátt í íbúakönnun

Íbúakönnun landshlutanna er í fullum gangi um allt land og verður hægt að svara henni út október. Almenningur er hvattur til að taka þátt en niðurstöður þessara kannanna eru mjög gagnlegar og veita innsýn í stöðu ýmissa mála á landsbyggðinni.

Íbúakönnun landshlutanna er í gangi þessar vikurnar og verður hægt að svara henni út október. Í könnuninni er spurt hvort fólk sé ánægt með aðbúnað þar sem það býr við, þjónustu og ýmislegt annað sem skiptir máli fyrir velferð íbúa. Einnig er spurt hvort það hyggist búa áfram þar sem það býr, hvar það sæki vinnu, við hvaða starfsgrein það vinni og ýmislegt annað er varðar vinnumarkaðinn.

Reglulegar kannanir

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) framkvæmdu könnunina fyrst 2004 og hafa endurtekið hana alla tíð síðan þriðja hvert ár. Stöðugt fleiri hafa sóst eftir að taka þátt en þetta er í fyrsta sinn sem könnunin nær til landsins alls.

Samtök sveitarfélaga á landinu hafa auk þess framkvæmt könnun meðal fyrirtækja árlega síðan 2013. Sú könnun nær núna líka til alls landsins og gefur mikilvægar upplýsingar líkt og íbúakönnunin.

Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá SSV leiðir þessa vinnu í samráði við landshlutasamtökin og hefur komið nálægt framkvæmd þeirra frá upphafi. Stefnt er að því að báðar þessar kannanir verði framkvæmdar reglubundið.

Þýðingarmiklar niðurstöður

Niðurstöður þessara kannana eru þýðingarmiklar og veita sveitarstjórnarmönnum mikilvægar upplýsingar. Þannig veita þær innsýn í stöðu okkar á landsbyggðinni, hjálpa sveitastjórnarfólki að móta áherslur í starfi sínu og jafnvel hafa þær breytt forgangsröðun í ýmsum verkefnum. Þá hafa þessi gögn nýst inn í hverskonar stefnumótunarvinnu sem landshlutasamtökin hafa sinnt. Að síðustu má svo geta þess að upplýsingarnar eru mjög gagnlegar í hagsmunabaráttu landshlutanna.

Hvert svar skiptir máli

Sendir voru tölvupóstar í lok ágúst á valið úrtak og hvetja landshlutasamtökin alla þá sem lenda í úrtaki að svara spurningakönnuninni til að niðurstöðurnar verði sem marktækastar – hvert svar hefur mikla þýðingu.

Hægt er að opna hlekki á könnun hér að neðan:

Íslenska: Íbúakönnun. Taktu þátt og hafðu áhrif. 

English: Regional Residence Survey: Participate and make a difference.

Polski: Regionalna ankieta dla mieszkańców Islandii: Zapraszamy do udziału – Twoja opinia się liczy.