Skip to main content
search

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar fær styrk til rafvæðingar hafna

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur úthlutað 6,2 milljón króna styrk til rafvæðingar hafna í Snæfellsbæ. Styrkurinn nýtist við lagningu rafmagns í Norðurgarðsbryggju í Ólafsvík. Framkvæmdin hefst eigi síðar en 1. september næstkomandi og verður lokið á fyrrahluta næsta árs. Eru hafnir Snæfellsbæjar í hópi 10 hafna sem fengu úthlutað styrk til verkefnisins.

Styrkurinn er hluti af fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 vegna heimsfaraldursins og er veittur til þeirra hafna sem settu fram verkefni sem féllu að skilyrðum átaksins um orkuskipti í höfnum.

Miklar framkvæmdir við hafnir Snæfellsbæjar

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar hefur á undanförnum mánuðum ráðist í og undirbúið miklar framkvæmdir við hafnirnar í Ólafsvík, Rifi og Arnarstapa.

Í Ólafsvík stendur nú yfir framkvæmd við lengingu Norðurgarðs um 80 metra. Áætluð verklok eru í september 2020.

Dýpkunarframvæmdir eru fyrirhugaðar í Ólafsvík og Rifi á þessu ári. Búið er að dýptarmæla báðar hafnirnar og er verið  að vinna úr þeim þessa dagana auk þess sem unnið er að útboðsgögnum. Stefnt að því að framkvæmdir hefjist í sumar og verði lokið fyrir n.k. áramót.

Þá má jafnframt geta þess að síðasta vetur var höfnin á Arnarstapa dýpkuð og er dýpi innan hafnarinnar komið í þrjá metra. Þeim framkvæmdum er að fullu lokið.

Áætlaður heildarkostnaður vegna framkvæmdanna verður um kr. 390.000.000.