Skip to main content
search

Hópamyndun unglinga að kvöldlagi

Ólafsvíkurvaka 2019.

Í tilkynningu frá Almannavörnum, sem send var á sveitarfélög í dag, 16. apríl, segir að borið hafi á því að unglingar hópist saman á leiksvæðum að kvöldlagi og sé ástæðan líklega gott veður og þær jákvæðu fréttir sem hafa verið að berast af þróun mála í baráttunni gegn COVID-19. Það sé aftur á móti mjög mikilvægt að sofna ekki á verðinum og sporna gegn hópamyndun til að framfylgja smitvörnum.

Þó erfitt kunni að reynast að framfylgja öllum fyrirmælum nú þegar mestu óvissuþokuna af COVID-19 er farið að létta þurfa foreldrar, forráðamenn og aðrir íbúar í Snæfellsbæ að hjálpast að til að sporna gegn hópamyndun unglinga. Öll viljum við skemmta okkur saman á ný, sbr. meðfylgjandi ljósmynd frá Ólafsvíkurvöku í fyrra, og öll þurfum við að standa saman þar til ástandið lagast og höftum verður aflétt.

Þó svo virðist sem dregið hafi úr COVID-19 smitum á Íslandi og umræða sé hafin um það hjá stjórnvöldum hvernig slakað verði á þeim höftum sem sett hafa verið er rétt að minna á að enn hefur ekki verið dregið úr þeim ráðstöfunum sem hafa verið í gildi. Núverandi reglur um samkomubann eru enn í fullu gildi sem og allar almennar varúðarráðstafanir.

Töluverðar takmarkanir eru þannig enn í leik- og grunnskólum og strangar kröfur settar um fjölda og nálægð nemenda til að takmarka krosssmit. Þessar takmarkanir hafa reynst vel og engin smit borist í skólana okkar. Skólafélagar sem eru ekki í sama hópi í skólastarfi ættu ekki að vera í návígi utan skóla, æfingar eru enn óheimilaðar o.s.frv.

Hópamyndanir að kvöldlagi eru því eðlilega enn óheimilaðar.