Skip to main content
search

Krakkaveldi í Frystiklefanum á barnamenningarhátíð

Hvað ef krakkar réðu öllu í bænum? Ljósmynd: Krakkaveldi.

Krakkaveldi heimsækir Grunnskóla Snæfellsbæjar með listasmiðjuna Barnabærinn, þar sem krakkar í 2. – 5. bekk þróa hugmyndir sínar um hvernig bærinn gæti orðið betri, ef þau fengju að ráða!

Afrakstur smiðjunnar verður til sýnis í Frystiklefanum Rifi klukkan 17.00 á föstudaginn. Öllum krökkunum, foreldrum og öðrum áhugasömum er boðið á sýninguna sem er hluti af samstarfi Barnamenningarhátíðar Vesturlands og List fyrir alla.

Auk smiðju á skólatíma býður Krakkaveldi þeim krökkum sem vilja vinna meira með okkur að koma í Frystiklefann á Rifi á fimmtudag klukkan 15 – 16 og föstudag klukkan 15 – 17 og vinna meira í verkum sínum og æfa sig í að að koma fram og kynna hugmyndir sínar á opnuninni á föstudag. Krakkarnir eru þó auðvitað velkomin á opnun sýningarinnar óháð því hvort þau geti tekið þátt í eftir-skóla-smiðjunum á fimmtudag og föstudag.

Krakkaveldi hefur fengið styrk frá Barnamenningarsjóði til verkefnisins og hefur hlotið mikið lof fyrir skemmtilegt og lifandi starf, m.a. á Barnamenningarhátíðinni í Reykjavík, á listahátíðinni Lunga á Seyðisfirði.

Ekki er þörf á að skrá börn á smiðjurnar, en foreldrar barna í 2. – 5. bekk eru eindregið hvattir til að hvetja sín börn til þátttöku á smiðjunum eftir hádegi á fimmtudag og föstudag og skapa hinn fullkomna Barnabæ.

Krakkaveldi er hluti af Barnamenningarhátíð Vesturlands 2022 og er ókeypis fyrir þátttakendur. Verkefnið er unnið með styrk frá Barnamenningarsjóði Íslands og List fyrir Alla.