Skip to main content
search

Lífshlaupið 2019 – Snæfellsbær hvetur til þátttöku

Snæfellsbær hvetur alla til þátttöku í Lífshlaupinu sem hefst 6. febrúar 2019.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlugserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:

  • vinnustaðakeppni frá 6. febrúar – 26. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
  • framhaldsskólakeppni frá 6. febrúar – 19. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur)
  • grunnskólakeppni frá 6. febrúar – 19. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
  • einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið

Landsmenn allir eru hvattir til þátttöku í Lífshlaupinu og skapa þannig skemmtilega stemningu og auka félagsandann á vinnustaðnum / í skólanum.

Skráningarferlið er einfalt og þægilegt en fínar leiðbeiningar má finna hér og undir viðeigandi keppni vinstra megin á síðunni. Gaman er að geta fylgst með sinni hreyfingu og jafnframt tekið þátt í þessari skemmtilegu landskeppni. Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn svo framarlega sem hún nær ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu. Einnig er auðvelt að ná í hreyfinguna sína úr Strava og Runkeeper fyrir þá sem það nota.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið og skráningu gefur Hrönn Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, á hronn@isi.is eða í síma: 514-4000.

Skráning fer fram á vefsíðu Lífshlaupsins:  www.lifshlaupid.is