Skip to main content
search

Menningin þrífst í Snæfellsbæ

Sigrún Ólafsdóttir, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Snæfellsbæjar, Kári Viðarsson, listamaður með meiru, og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, við undirritun samningsins í Ráðhúsi Snæfellsbæjar í dag.

Í dag gerðu Snæfellsbær og Frystiklefinn með sér samstarfssamning til fjögurra ára sem byggir á því að Snæfellsbær greiðir Frystiklefanum fasta árlega upphæð sem nýtast skal til ýmissa viðburða og auðga þannig menningarlíf og bæta lífsgæði íbúa Snæfellsbæjar.

Báðir aðilar samningsins vilja með þessu styrkja stoðir í því mikilvæga menningarstarfi sem unnið er í Frystiklefanum og er hann um leið vottur um það traust sem bæjarstjórn Snæfellsbæjar ber til Kára og starfsmanna Frystiklefans.

Þess má geta að nýtt verk sem hefur verið í þróun í Frystiklefanum undanfarið hálft ár hlaut í síðustu viku verkefnastyrk og starfslaun úr launasjóði listamanna fyrir árið 2019. Er þetta í annað skipti sem Frystiklefinn hlýtur slíkan heiður, en í fyrra skiptið var það vegna söngleiksins Journey to the Centre of the Earth sem var sýndur 70 sinnum yfir tveggja ára tímabil.

Innifalið í samning: 

Samningurinn felur í sér að Frystiklefinn haldi alþjóðlegar hátíðir á sviði kvikmynda-, tónlistar- og götulistaverka sem íbúar Snæfellsbæjar geta sótt sér að kostnaðarlausu. Um er að ræða kvikmyndahátíðina Northern Wave Film Festival, tónlistarhátíðina Tene-Rif og götulistahátíðina Snæfellsbær Street Art Festival.

Á samningtímanum fá nemendur í 8. – 10. bekk í grunnskóla Snæfellsbæjar ársmiða sem gildir á alla viðburði Frystiklefans og er liður í því að virkja unglinga og hvetja til þátttöku í menningarlífi bæjarins.

Á samningstímanum verða fjölbreytt námskeið í Frystiklefanum fyrir börn í 1. – 10. bekk með faglærðum leikurum og dönsurum sem hafa það að markmiði að auka leikgleði, samhæfingu, sköpunargleði og sjálfstraust. Námskeið standa nemendum til boða þeim að kostnaðarlausu.

Á samningstímanum sinnir Frystiklefinn einnig verkefnum með elstu og yngstu íbúum Snæfellsbæjar, m.a. í gegnum viðburði og námskeið á leikskóla Snæfellsbæjar og dvalarheimilinu Jaðri og þá heimsækir Frystiklefinn einnig Smiðjuna, dagþjónustu og vinnustofu fyrir fólk með skerta starfsgetu, með það að leiðarljósi að styrkja vináttubönd og auka þátttöku í menningarlífi bæjarins.