Skip to main content
search

Nýjar gjaldskrár fyrir árið 2020

Fimmtudaginn 5. desember samþykkti bæjarstjórn fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar fyrir árið 2020, og um leið nýjar gjaldskrár, en þær eru nú komnar inn á vefsíðu Snæfellsbæjar.

Undanfarin fjögur ár hafa gjaldskrár grunnskóla- og leikskóla staðið í stað, en á árinu 2020 verða smávægilega hækkanir á þeim.  Grunngjald leikskóla hækkar um 2,8%, fer úr kr. 3.700.- í 3.800.-. Fæðiskostnaður hækkar ekkert. Fyrir 8 klt. vistun með fullu fæði þýðir þetta að foreldrar greiða kr. 40.400.- í stað 39.600.- á árinu 2019.

Gjöld grunnskóla hækka um 3,5% milli ára.

Gjaldskrá fasteignagjalda tekur töluverðum breytingum. Álagningarprósenta B- og C-húsnæðis stendur í stað, og jafnframt álagningarprósenta fasteignaskatts og lóðarleigu A-húsnæðis. Álagningarprósenta vatnsgjalds húsnæðis í A-flokki lækkar um 9% og álagningarprósenta fráveitugjalda A-húsnæðis lækkar sömuleiðis um 6,25%. Þetta er gert til að koma til móts við íbúðaeigendur í sveitarfélaginu þar sem undanfarið hefur fasteignamat hækkað töluvert og þar með hækka fasteignagjöld. Með þessum aðgerðum ættu fasteignagjöld íbúðaeigenda ekki að hækka milli ára, þrátt fyrir hækkun á fasteignamati.

Gjaldskrá tónlistarskóla hækkar um 2,5% milli ára, en gjaldskrá íþróttahúss og sundlaugar stendur í stað, bæði í Ólafsvík og í Lýsuhólslaug.

Gjaldskrá fyrir hundahald tekur töluverðum breytingum á árinu 2020. Almennt leyfisgjald lækkar og verður kr. 15.000.-, en fyrsta leyfisveiting verður kr. 20.000.-. Jafnframt verður sú breyting gerð að tekið verður tillit til þeirra hunda sem hafa farið á hlýðninámskeið og jafnframt til þeirra eiganda sem farið hafa með hunda sína í hreinsun annars staðar og tryggja hunda sína sjálfir. Gegn framvísun skírteina er heimilt að veita samtals allt að 30% afslátt af leyfisgjaldi.

Í byrjun árs verður farið í það verkefni að skrá ketti í sveitarfélaginu.

Aðrar gjaldskrár taka litlum sem engum breytingum.

Viðhengi:
Gjaldskrár