Skip to main content
search

Nýr rekstraraðili að Pakkhúsinu

Nú í byrjun marsmánaðar skrifaði Snæfellsbær undir samning við Rut Ragnarsdóttur um rekstur Pakkhússins í Ólafsvík. Rut hafði falast eftir því við bæjarstjórn Snæfellsbæjar að fá að ýta þessu verkefni úr vör og úr varð að samþykkt var að gera tilraun til eins árs með að leigja út rekstur hússins.

Í samtali við Rut kom fram að hún bindur miklar vonir til þess að geta stuðlað ennfrekar að því að efla starfsemi Pakkhússins, en undanfarin sumur hefur handverkshópur Snæfellsbæjar verið þar til húsa.

Sagðist Rut stefna að því að vera með til sölu handverk úr heimabyggð ásamt því að verða með veitingar á boðstólnum. Jafnframt sagðist hún vera með ýmsar hugmyndir sem ekki væri enn tímabært að segja frá, en kynntar verði á næstu dögum. Rut sagðist þó vilja gera sitt til að stuðla að því að saga hússins og byggðarinnar fengi að njóta sín, en hún tekur jafnframt að sér umsjón með safninu á Pakkhúsloftinu og mun halda áfram að bjóða fólk velkomið á efri hæðir hússins. Þar munu þó ekki verði neinar breytingar fyrirhugaðar að svo stöddu.

Með þessu verkefni er gert ráð fyrir að Pakkhúsið verði opið allan ársins hring og ættu því ferðamenn og heimamenn að geta heimsótt Pakkhúsið í meira mæli en undanfarin ár og notið þar hvort tveggja ýmis konar veitinga og sölu handverks yfir lengra tímabil ár hvert en verið hefur.