Skip to main content
search

Opinber heimsókn forseta Íslands til Snæfellsbæjar gekk vel

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid, kom í opinbera heimsókn til Snæfellsbæjar þann 30. október sl.

Dagskrá heimsóknarinnar var þétt og farið víða í bæjarfélaginu. Heimsóknin hófst snemma að morgni og lauk síðla kvölds, að lokinni fjölskylduhátíð í félagsheimilinu Klifi þar sem bæjarbúar komu til móts við forsetahjónin og áttu ánægjulega stund.

Heimsókn forsetahjónananna hófst í grunnskólanum í Ólafsvík þar sem þeim voru kynnt gildi skólans og átthagafræðinám nemenda áður en forsetahjónin gengu í stofur og heilsuðu upp á nemendur. Þaðan lá leiðin í leikskólann Krílakot í Ólafsvík þar sem tekið var á móti gestum og starf skólans kynnt.

Þaðan lá leið í fiskvinnsluna Valafell í Ólafsvík þar sem starfsemi fyrirtækisins var kynnt og kaffiveitingar voru á boðstólnum. Veðrið lék við hvern sinn fingur í Snæfellsbæ á meðan heimsóknin stóð yfir og brugðu forsetahjónin á það ráð að ganga á næsta áfangastað í mildu veðrinu.

Á dvalarheimilinu Jaðri var tekið á móti forsetahjónum með virktum og virðingu þar sem sögur voru sagðar og bros á hverju andliti.

Í grunnskólanum á Hellissandi var snæddur hádegisverður, fínasti þorskur, með nemendum og starfsliði auk þess sem skólakórinn steig á svið og skemmti viðstöddum. Líkt og í grunnskólanum í Ólafsvík gengu forsetahjón í stofur og heilsuðu upp á nemendur og starfsfólk. Að því loknu fóru forsetahjón á fund bæjarstjóra og fulltrúa bæjarstjórnar þar sem stiklað var á stóru í starfsemi sveitarfélagsins og lífinu í bænum.

Eftir hádegi lá leiðin í fiskvinnsluna KG á Rifi þar sem starfsemi fyrirtækisins var kynnt og gengið um vinnslusal áður en ekið var í gestastofu Þjóðgarðsins á Malarrifi þar sem málstofa um áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustu á Snæfellsnesi fór fram. Um kvöldið var svo haldin fjölskylduhátíð í félagsheimilinu Klifi þar sem íbúar og nærsveitungar nutu samsætis forsetahjónanna.

Það er óhætt að segja að heimsóknin hafi heppnast afar vel og var mikil ánægja meðal föruneytis forseta með viðtökur og gestrisni bæjarbúa. Þau fyrirtæki og stofnanir sem gáfu sér tíma til að taka á móti hópnum eru sendar bestu þakkir fyrir.