Skip to main content
search

Pistill bæjarstjóra, 3. apríl 2020

Ágætu íbúar.

Áfram höldum við þessu óvenjulega ferðalagi á fordæmalausum tímum heimsfaraldurs. Vikurnar líða hver af annarri með nýjum covid-verkefnum og öll tilveran er breytt.

Í dag föstudaginn 3. apríl er staðan sú að enginn hefur verið greindur með Covid-19 í Snæfellsbæ. Það eru góðar fréttir. Á Vesturlandi eru smitaðir 32 og í sóttkví á Vesturlandi eru nú 324.  Hér á Snæfellsnesi hafa greinst smitaðir 4.

Nú er okkur mikilvægt sem aldrei fyrr að haga okkur skynsamlega, fara eftir þeim tilmælum sem fyrir okkur er lögð og vil ég enn og aftur hvetja íbúa til að lesa það sem bæjarfélagið hefur sett á heimasíðuna www.snb.is varðandi covid-19.

Grunnskólinn og tónlistarskólinn eru nú komnir í páskafrí og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka stjórnendum, starfsfólki, nemendum og foreldrum innilega fyrir þeirra framlag til þess að skólinn gæti starfað.  Það hefur verið flókið skipulag en með samtakamættinum hefur það tekist.

Nú framundan er páskafríið sem hefur verið mikill ferðatími Íslendinga.  Víðir Reynisson hefur að því tilefni biðlað til okkar allra um að hugsa um það að veira hagar sér eins á virkum dögum og á hátíðum.  Á páskum ætti því almenningur að halda sig heima, ferðast innanhúss eins og það er kallað nú.  Ekki er ráðlagt að ferðast mikið um landið bæði vegna veirunnar og einnig vegna þess að álag á heilsugæslur og sjúkrastofnanir víða um land er þegar mikið og ekki má á það bæta slysum sem auðvitað eru fylgifiskur aukinna ferðalaga.  Einnig er mikilvægt að huga að innkaupum í tíma fyrir hátíðirnar þannig að álagið dreifist. Það má líka minna á það að gott er að nýta hverja verslunarferð vel og reyna að fara sjaldnar í búð en áður. Þegar farið er í búð skulum við muna eftir umgengnisreglum, spritta og halda 2 metra fjarlægð við næsta mann.

Við eigum að fara eftir þessum tilmælum öll sem eitt og getum þannig lagt okkar af mörkum til þess að heilbrigðiskerfið að ráði við það stóra verkefni sem nú er í gangi.

Við þökkum fyrir hvern dag sem við erum smitlaus hér í Snæfellsæ. Ég á þó von á því að smit berist hingað, það er bara spurning hvenær.  Það er nú samt þannig að við getum með samhentu átaki gert okkar til að sem fæstir smitist og að áhrifin verði þannig sem minnst. Við þurfum að standa saman sem aldrei fyrr og sýna ábyrgð.

Það er líka mikilvægt að allir hugi vel að heilsunni og ekki síst að heilsu barna og unglinga. Það er um að gera að fara í gönguferðir og leiki og nota tímann heimavið til að gera eitthvað skemmtilegt sem létt getur lundina.  Ekki skortir okkur fallega náttúru sem er hér við hvert fótmál og nóg pláss fyrir alla. Nú er um að gera að fara á þá staði sem fólk hefur lengi langað að skoða en slegið á frest og líka að skoða þá uppáhaldsstaði sem alltaf hafa heillað.

Sýnum tillitsemi, náungakærleik og umhyggju innan þeirra fjarlægðamarka sem okkur eru sett. Það er gaman að sjá útsjónarsemi fólks í góðmennskunni, nú síðast kallaði framtak nemenda og kennara sem sungu fyrir utan Jaðar fram bros hjá mér og örugglega öllum öðrum.

Mig langar um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegra páska að enda þennan pistil á fyrsta erindi sálmsins Dag í senn eftir hr. Sigurbjörn Einarsson biskup sem mér finnst afar fallegur og hefur verið hughreystandi fólki í ýmsu andstreymi, góða helgi.

Dag í senn, eitt andartak í einu,
eilíf náð þín, faðir gefur mér.
Mun ég þurfa þá að kvíða neinu,
þegar Guð minn fyrir öllu sér?
Hann sem miðlar mér af gæsku sinni
minna daga skammt´ af sæld og þraut,
sér til þess, að færa leið ég finni
fyrir skrefið hvert á lífs míns braut.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri